Litlar bækur en efnismiklar

25. nóvember 2021

Litlar bækur en efnismiklar

Góðar bækur og grípandi - mynd: hsh

Vandaðar bækur með jákvæðu innihaldi sem kappkostað hefur verið að gera sem best úr garði liggja ekki alltaf á lausu.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar hefur lengi gefið út bækur af ýmsu tagi og verið í forystu fyrir útgáfu á kirkjulegu og kristilegu efni um áratugaskeið.

Nú eru komnar út þrjár bækur á vegum Skálholtsútgáfunnar sem eru gersemi. Það fer ekki mikið fyrir þeim en þau sem taka þær sér í hendur og lesa sjá fljótt að hér er eðalefni á ferð sem nota má við ýmis tækifæri.

Orð í gleði – hugleiðingar um gleði von og trú, er gefin út öðru sinni, aukin og endurbætt. Hún kom fyrst út fyrir um tveimur áratugum og hlaut góðar viðtökur, seldist upp. Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, heldur hér um pennann, og velur efni héðan og þaðan, sem eflir fólk í trúnni og styrkir vonina. En ekki síst hina gleðiríku trú, von og kærleika. Stuttar glettnar sögur með djúpum boðskap er víða að finna en sr. Karl hefur verið ótrúlega naskur á að grípa á lofti þær bestu og skemmtilegustu – og dýpstu að merkingu. Þá er fjöldi viturlegra og umhugsunarverðra tilvitnana í karla og konur, íslenskra sem erlendra, sem vert er að íhuga og gauka að öðrum eftir atvikum. Margir krydda tækifærisræður sínar og aðrar ræður með örstuttum tilvitnunum og sögum og hér geta þeir leitað fanga með góðum árangri.

En umfram allt er tilgangur svona bókar að taka utan um mannssálina af hlýju og umhyggju, með brosi á vör og stundum með fáeinum meitluðum orðum sem heita lífsviska. Sú viska er sótt í kristinn arf kynslóðanna, gyðinglegan, arabískan, vesturlenskan, íslenskan ... og lengi væri hægt að halda áfram.

Hvað sem nú þrætueplin geta nú verið mörg á lífsins tré þá er það nú einu sinni svo að brosið og hláturinn er það sem sameinar okkur öll er undir því tré stöndum og stundum með miklum spekingssvip tilbúin að ráða lífsgátuna. Svo kemur ein stutt saga eða setning, og brosið og hláturinn leiðir alla saman – eitt hjarta slær. Þessi bók segir þá hjartans sögu.

Tvær smábækur með mikið innihald koma frá hendi sr. Petrínu Mjallar Jóhannesdóttur, og heita þær Stafróf ástarinnar, og Stafróf hugrekkisins. Áður hafa komið út í þessum snotra flokki Stafróf gleðinnar og Stafróf sorgarinnar.

Sr. Petrína Mjöll er einkar ritfær, texti hennar er skýr og umbúðalaus eins og vera ber í sextíu blaðsíðna bók í litlu broti. Það er einmitt galdurinn. Bókin er vasabók sem lesandi getur gripið til hvar sem hann er staddur og lesið sig til um ástina og hugrekkið sem er hvort tveggja margslungið þó við fyrstu sýn virðist það svo dæmalaust einfalt.

Stafrófsleikur bókanna í þessum flokki er skemmtilegur og býður upp á ýmsa möguleika. Hver kafli hefst á fyrsta staf stafrófsins, er stærri og áberandi. Síðan er skeiðið tekið eftir öllu stafrófinu og fær hver stafur sína opnu. Í Stafrófi ástarinnar má sjá hvað L-ið segir – svo dæmi sé tekið. Jú, þetta: „Leiktu þér og finndu hve gaman er að vera til.“ (Bls. 30). Þó leikið sé með stafinn má ekki skilja svo að hann sé aðalatriðið heldur allur textinn á blaðsíðunni, opnunni. En mestu máli skiptir að textinn er viturlegur og kærleiksríkur, fullur af skilningi og mennsku sem öllum er unnt að skilja. Hann er knappur og festist í huga lesanda til íhugunar og kannski mótunar. Sama er að segja um Stafróf hugrekkisins, það er sama formið. Nútímamanneskjan þarf svo sannarlega á hugrekki á að halda til að lifa í hinum mjög svo flókna heimi og á tíðum óskiljanlega. Hversdagslegt líf getur þurft á hugrekki að halda. Hvernig ætli O-ið byrji? Jú, svona: „Opnaðu þig fyrir öllu því góða sem er að finna í tilverunni og innra með sjálfum þér.“ (Bls. 36). Það er ekki annað að sjá en að höfundur hafi verið einkar ratvís á að byrja hvern kafla með grípandi setningu með réttan staf af lyklaborði tölvu sinnar. Það er gamalt að ráð ná strax til fólks með góðri setningu í upphafi máls síns, hvort heldur það er ritað eða mælt. Samskiptafræðin segja það.

Það er full ástæða til að óska þeim sr. Karli og sr. Petrínu Mjöll hjartanlega til hamingju með þessar frábæru og kærkomnu bækur – og þakka fyrir. Sömuleiðis að þakka Skálholtsútgáfunni – útgáfufélagi þjóðkirkjunnar fundvísi á gott efni og uppbyggilegt.

hsh


  • Guðfræði

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta