„Jú, þetta er hann...!“

1. desember 2021

„Jú, þetta er hann...!“

Sr. Vigfús Þór Árnason nafngreinir nokkra - mynd: hsh

Biskupsstofa á gríðarlegt safn mynda sem hafa safnast saman um margra áratugaskeið. Þær myndir segja sögu kirkjunnar og safnaða. Þess vegna eru þær kirkjusaga sem verður að varðveita.

Nokkur hluti þessara mynda er merktur en þó misnákvæmlega. Stærstur hlutinn er ómerktur, því miður. Það bíður mikið starf að greina fólk, staði og atburði, en mikilvægt er að það verði gert sem fyrst – eða með öðrum orðum að merkja myndirnar eftir því sem frekast er unnt.

Skjaladeild Biskupsstofu undir forystu Gígju Árnadóttur, skjalastjóra, hefur unnið um skeið við að leggja drög að því hvernig best sé að standa að verki í sambandi við myndamerkingu og greiningarvinnu af þessu tagi.

Fyrir nokkru var ákveðið að kalla til nokkra presta sem lokið hafa störfum og biðja þá um að fara yfir myndir og reyna að bera kennsl á fólk, lifandi sem látið. 

Nokkrir hressir klerkar komu saman í Áskirkju í gærmorgun til að skoða myndir. Þeir höfðu tekið vel í erindið og voru spenntir fyrir verkefninu. Anna Lilja Torfadóttir, skjalavörður á Biskupsstofu, sýndi myndir ásamt Kjartani Jakobssyni Richter, starfsmanni á Biskupsstofu.

Prestarnir sem komu voru þeir sr. Birgir Ásgeirsson, sr. Hjálmar Jónsson, sr. Lára G. Oddsdóttir, sr. Sigurður Jónsson, sr. Svavar Stefánsson, og sr. Vigfús Þór Árnason. Tíðindamaður kirkjunnar.is var þar og á hliðarlínunni.

Fjöldi mynda leið yfir sýningartjaldið í Áskirkju í gærmorgun og rýndu viðstaddir í myndirnar. Verulega margt var strax ljóst eða hver var hver, en sumt var óljóst en svo rann ljósið upp og hægt var að bera kennsl á fólk og staði. En margt var líka lítið hægt að fullyrða um. Mannskapurinn var kátur þegar komist var að niðurstöðu eftir umræður og ýmsar bollaleggingar. Sumar myndir voru býsna óskýrar en flestar í góðu lagi.

Samhliða vangaveltum um hver væri hver spruttu upp skemmtilegar sögur og uppbyggilegar úr kirkjustarfi og af fólki.

Það kom snemma fram á fundinum hve brýnt það er að kalla fólk að til að greina myndir.

Rætt var og um þann möguleika að senda fólki myndabunka heim sem það gæti svo farið yfir í rólegheitum og skrifað aftan á nöfn fólks sem það þekkti. Það hefur einnig verið nefnt að birta myndir á sérstökum stað á vef kirkjunnar og gefa fólki tækifæri til að merkja þær með rafrænum hætti.

Myndir segja sögu og eru dýrmætar. En það skiptir náttúrlega sköpum að vita hvaða fólk er á myndum, og frá hvaða stöðum þær eru. Myndir af fólki sem ekki er vitað neitt um, stöðum og atburðum, sem eru ókunnir, segja ekki nema hálfa sögu. Mjög margir hafa verið duglegir að taka myndir úr kirkjustarfi enda margt í því sem hefur kallað á myndatökur og þeim mun daprara að geta ekki sagt til um hvað þær sýna.

Mikilvægt er að tapa ekki tengslum við þau sem kunna að þekkja fólk á myndum sem teknar voru fyrir um tíu til fimmtíu árum. Hvert ár skiptir máli.

Skjalasöfn víða um land og ljósmyndasöfn hafa í nokkur ár kallað fólk saman til að greina myndir. Þær stundir hafa verið vel sóttar og fólk haft gagn og gaman af.

Allir þekkja hvernig myndir geta hrúgast upp í heimahúsum. Margir eiga gömul albúm frá ættingjum sínum og oft enda þau í Sorpu – vegna þess að allar myndir í þeim eru meira og minna ómerktar. Enginn þekkir neinn.

Svo er það önnur saga: allar myndirnar í tölvunum.

Skjaladeild Biskupsstofu stefnir að því að kalla sama hóp til verka eftir áramótin og auka við hann. Ljóst er að mikið verk bíður þeirra. En það er líka skemmtilegt - og notaleg stund eins og þessi í gær.

Biskupsstofa mun leggja sig mjög fram um að koma þessum málum í gott horf því mikilvægt er að nota tímann mjög vel. Hver kannast ekki við að segja með eftirsjá: „Ég hefði átt að spyrja hann/hana að þessu meðan hann/hún var lifandi?“

Nú er tækifærið – og það verður nýtt.

hsh


Margt var að spjalla. Frá vinstri: sr. Vigfús Þór, sr. Lára, sr. Svavar, sr. Birgir og sr. Hjálmar