Síðasti fundur kirkjuráðs

18. desember 2021

Síðasti fundur kirkjuráðs

Síðasti kirkjuráðsfundurinn: Frá vinstri: Sr. Arna Grétarsdóttir, Stefán Magnússon (á skjánum), sr. Agnes M. Sigurðardóttir, forseti kirkjuráðs, Svana Helen Björnsdóttir, og sr. Axel Á. Njarðvík. Mynd: hsh

Í gær var haldinn síðasti fundur kirkjuráðs og af því tilefni var þessi fréttamynd tekin. Fundurinn var sá 332 í röðinni. Þar með er níutíu ára sögu kirkjuráðs lokið. Fyrsti forseti kirkjuráðs var dr. Jón Helgason biskup og sá síðasti sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Með nýjum þjóðkirkjulögum er kirkjuráð lagt niður frá og með áramótum. 

Kirkjuráð á rætur að rekja allt til ársins 1931 en þá voru fyrst sett lög um kirkjuráð og undirrituð af Kristjáni kóngi X., þá um sumarið. Kirkjuráð kom hins vegar ekki saman fyrr en í febrúar 1932. Sóknarprestar þjóðkirkjunnar, kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands og héraðsfundir kusu kirkjuráðið til fimm ára. Með nýjum lögum frá 1957 var það kirkjuþings að kjósa kirkjuráðið til sex ára í senn. Með síðari tíma lagabreytingum á lögum um kirkjuna var það ætíð hlutverk kirkjuþingsins að kjósa kirkjuráð en biskup Íslands var ætíð forseti ráðsins lögum samkvæmt. 

Í fráfarandi kirkjuráði var biskup Íslands forseti ráðsins samkvæmt lögum en í ráðinu sátu sem aðalmenn kosnir af kirkjuþingi: Stefán Magnússon, fulltrúi leikmanna, Svana Helen Björnsdóttir, fulltrúi leikmanna, sr. Arna Grétarsdóttir, fulltrúi vígðra og sr. Axel Á. Njarðvík, fulltrúi vígðra. Varamenn voru: Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, fulltrúi leikmanna, Berglind Hönnudóttir, fulltrúi leikmanna, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, fulltrúi vígðra og sr. Hreinn S. Hákonarson, fulltrúi vígðra.

Í skýringum í greinargerð við 7. gr. í frumvarpi nýju laganna er fjarvera kirkjuráðs úr lagatexta rökstudd með þeim orðum að textinn væri settur til að einfalda regluverk kirkjunnar og fjallaði einkum um grunnþætti kirkjunnar. Kirkjuráðið sinnti hins vegar því hlutverki að hrinda ýmsum málum kirkjunnar í framkvæmd og ætti því ekki heima í lagabálknum frá Alþingi.

Kirkjuþing 2021-2022 samþykkti að setja á laggirnar framkvæmdanefnd sem hefði eftirlit með fjárhag og rekstri þjóðkirkjunnar og að ákvörðunum og áætlunum samþykktum af kirkjuþingi væri fylgt eftir. Hún væri ábyrg gagnvart þinginu og starfaði í umboði þess. Framkvæmdanefnd heldur að jafnaði mánaðarlega fundi. Framkvæmdanefndin fundar, eftir þörfum með biskupi Íslands, forseta kirkjuþings og/eða öðrum þeim sem málefni gefa tilefni til. Nefndin skilar árlega skýrslu til kirkjuþings eftir hvert starfsár nefndarinnar. Í henni sætu tveir fulltrúar leikra og einn fulltrúi vígðra. Í nefndinni er kirkjuþingsfólkið Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, formaður, dr. Skúli Sigurður Ólafsson, og Einar Már Sigurðarson. Varamenn eru þau sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, Árný Herbertsdóttir og Hermann Ragnar Jónsson. Síðan verður ráðinn framkvæmdastjóri nefndarinnar.

Áhugasömum skal bent á fróðlegt rit sem sr. Magnús Guðjónsson tók saman og heitir Saga kirkjuráðs og kirkjuþings, og var gefið út af Skálholtsútgáfunni 1996.

hsh
  • Fundur

  • Skipulag

  • Frétt

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir ráðin biskupsritari

18. maí 2024
...hefur störf með nýkjörnum biskupi Íslands
Háteigskirkja

Tíu sækja um Háteigsprestakall

17. maí 2024
...umsóknarfrestur rann út 14. maí