Farsæll Leiðtogaskóli

6. maí 2022

Farsæll Leiðtogaskóli

Vaskur hópur og efnilegur sem útskrifaðist frá Leiðtogaskóla kirkjunnar stendur hér með sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, sr. Evu Björk Valdimarsdóttur og lengst til hægri er Kristján Ágúst Kjartansson, æskulýðsfulltrúi ÆSKR - mynd: Daníel Ágúst Gautason

Sunnudaginn 1. maí var Leiðtogaskóla kirkjunnar slitið við hátíðlega athöfn í Grensáskirkju. Útskriftarathöfnin hófst með helgistund sem nemendur skólans sáu um. Þeir lásu ritningarlestra og fluttu tónlist. Að lokinni helgistundinni fór útskriftin fram með hátíðlegum hætti og afhenti sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, nemendum útskriftarskírteini. Fjöldi manns var viðstaddur útskriftina, fjölskyldur útskriftarnemanna, æskulýðsfulltrúar frá sóknum þeirra, eða alls um sextíu manns. Þegar Leiðtogaskólanum var slitið í fyrra voru engir gestir viðstaddir vegna kórónuveirunnar. 

Nemendur buðu gestum og aðstandendum til samsætis í glæsilegu Pálínuboði eftir útskriftarathöfnina.

Mikilvægur skóli
Leiðtogaskólinn er samstarfsverkefni, ÆSKR, ÆSKÞ, Kjalarnessprófastsdæmis og Biskupsstofu og miðar að því að undirbúa áhugasöm ungmenni fyrir störf á vettvangi æskulýðsstarfs kirkjunnar. Skólinn hefur verið starfræktur á þessu samstarfssvæði samfleytt síðan 2001 og er þetta því 21. árgangurinn sem útskrifast.

Námið í leiðtogaskólanum er tveir vetur þar sem farið er í helstu atriði sem snúa að störfum í æskulýðsstarfi svo sem, siðareglur og heilræði, framkomu og vinnubrögð, dagskrárgerð, skipulagningu helgistunda og hugleiðingagerð. Námið er kennt í samverum þar sem lögð er áhersla á samfélag og tengslamyndun hópsins og námsefni miðlað í gengum fræðsluerindi, spjall, verkefni og leik.

Um kennslu og utanumhald skólans sáu Kristján Ágúst Kjartansson, æskulýðsfulltrúi ÆSKR, og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir.

Í vetur voru fjórtán ungmenni frá fimm söfnuðum skráð í skólann þar sem tólf þeirra luku námi af fyrra ári og tveir sem luku námi á síðara ári sínu.

Starfsemi Leiðtogaskóla kirkjunnar hefur verið afar farsæl öll þau ár sem hann hefur verið við lýði. 

Segja má að þau sem útskrifast úr Leiðtogaskóla kirkjunnar séu vaxtarbroddur safnaðanna sem gefur von um bjarta framtíð í æskulýðsstarfi. Kirkja sem býr að því að eiga svo öflugan hóp eins og þennan sem útskrifaðist síðastliðinn sunnudag verður ekki á flæðiskeri stödd í framtíðinni - hún er svo sannarlega heppin!

hsh


Brugðið á leik á útskriftardegi

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Fjölskylduráðgjafarnir Eiríkur og Jenný - mynd: Vigfús Bjarni Albertsson

Stórt skref

12. ágú. 2022
…þjónusta við fjölskyldur fanga
Altari Hóladómkirkju - glæsileg altarisbríkin (altaristaflan) er frá upphafi 16. aldar og hefur varðveist mjög vel - mynd: hsh

Viðburðarík Hólahátíð

11. ágú. 2022
...biskupsvígsla og margt fleira um að vera heima á Hólum
Kristín Kristjánsdóttir, djákni - mynd: Pétur Ragnhildarson

Kristín ráðin

09. ágú. 2022
...djákni í Grafarvogssókn