Tónskólanum slitið

24. maí 2022

Tónskólanum slitið

Skólaslit Tónskóla þjóðkirkjunnar 2022 - þær luku áföngum frá skólanum, frá vinstri: Tuuli Rähni, lauk einleiksáfanga, Elísa Elíasdóttir, lauk kirkjuorganistaprófi, Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri, og Ave Kara Sillaots, lauk kantorsprófi - mynd: Hrefna Harðardóttir

Tónskóla þjóðkirkjunnar var slitið síðastliðinn föstudag í Hallgrímskirkju.

Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri Tónskólans, flutti skólaslitaræðu þar sem hann venju samkvæmt fór yfir það helst sem gerðist á skólaárinu.

Skólastarfið hófst í byrjun september. Kórónuveiran setti mark sitt á starfið um haustið en upp úr áramótunum fór allt að þokast í rétta átt.

Höfuðstöðvar Tónskóla þjóðkirkjunnar eru í Hjallakirkju í Kópavogi. Kennsla fór auk þess fram í Akureyrarkirkju, Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju, Langholtskirkju og Neskirkju.

Þrettán nemendur voru skráðir í nám við skólann í upphafi vetrar sem var fækkun á nemendahópnum miðað við undanfarin ár. Sagði Björn Steinar að bregðast yrði við þessari fækkun. Engin augljós skýring væri á fækkun nemenda og þetta væri í fyrsta sinn í skólastjóratíð hans sem það gerðist. Tónskólinn hyggst fara í samstarf við Orgelkrakka sem þær Guðný Einarsdóttir, organisti í Háteigskirkju, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti við Akureyrarkirkju, eru frumkvöðlar að. Starf Orgelkrakka felst í því að kenna börnum á orgel og er þetta í fyrsta sinn í sögu skólans sem slík kennsla er í boði.

Björn Steinar gat um tónleika í Hallgrímskirkju á siðbótardaginn 31. október síðastliðinn en þeir voru til heiðurs Hauki Guðlaugssyni níræðum. Tónleikarnir voru vel sóttir. Þrír fyrrverandi nemendur Hauks komu fram auk þess sem 100 manna kór söng.

Tónskólinn hefur gefið út myndband undir merkjum þjóðkirkjunnar. Í þessu myndbandi er fólki boðið inn í níu kirkjur í Reykjavíkurprófastsdæmis vestra til að hlýða á ellefu orgelleikara flytja tiltekið orgelverk. Hér má sjá frétt  um það og hlýða á orgelleikinn. 

Við skólaslitin fluttu ávörp þau sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, formaður Kirkjutónlistarráðs.

Kennarar við Tónskóla þjóðkirkjunnar auk skólastjóra eru: Guðný Einarsdóttir, sr. Hreinn S. Hákonarson, sr. Jón Helgi Þórarinsson, Laufey Helga Geirsdóttir, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Lenka Matéóvá, Magnús Ragnarsson og Eyþór Ingi Jónsson á Akureyri.

Fulltrúi á skrifstofu er Laufey Helga Geirsdóttir.

Kirkjutónlistarráð er stjórn skólans og í henni sitja þau sr. Guðmundur Karl Brynjarsson sem er formaður, Hákon Leifsson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir. Varamenn sitja fundi ráðsins auk Björns Steinars, skólastjóra, og söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Margrétar Bóasdóttur.

hshBjörn Steinar Sólbergsson flytur skólaslitaræðuna