Fermingar ársins

21. júní 2022

Fermingar ársins

Ferming í Háteigskirkju í apríl 2022 - mynd: hsh

Fermingarfræðslan er einn mikilvægasti þáttur í fræðslustarfsemi þjóðkirkjunnar. Grundvallarfræðsla um kristna trú og gildi hennar. Þúsundir ungmenna streyma á hverju ári í fermingarfræðslu kirkjunnar og fræðslan er með margvíslegu sniði. Hún er eitt besta tækifæri kirkjunnar til að miðla boðskap sínum og mikilvægt að standa þar vel að verki.

Nú er langflestum fermingum lokið á þessu ári en þó skal þess getið að alltaf er eitthvað um sumar- og haustfermingar. Þegar er farið að auglýsinga fermingarfræðslu fyrir fermingarbörn næsta árs, 2023.

Kirkjan.is kannaði fjölda fermingarbarna í prófastsdæmum landsins 2022 og er hann þessi:

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra 535
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 906
Kjalarnessprófastsdæmi 791
Vesturlandsprófastsdæmi 187
Vestfjarðarprófastsdæmi 66
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 81
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi 323
Austurlandsprófastsdæmi 100
Suðurprófastsdæmi 319
Samtals: 3.308.

Árið 2008 fæddust lifandi börn alls 4.835. Samtals fermast kirkjulega 68, 42% af börnum landsins og þá eru fríkirkjusöfnuðir ekki taldir með.

Undanfarin fimm ár hefur verið gerð könnun á meðal foreldra fermingarbarna í Kjalarnessprófastsdæmi. Sr. Stefán Már Gunnlaugsson, héraðsprestur, hefur haft umsjón með henni. Niðurstöður þessar könnunar hafa verið afar jákvæðar og fram kemur að mikil ánægja er með fermingarstarfið. Kjalarnessprófastsdæmi er eina prófastsdæmið sem stendur fyrir könnun af þessu tagi.

Niðurstöður fyrstu könnunarinnar voru gefnar út í bæklingi og vöktu mikla athygli. Síðan hefur verið greint frá niðurstöðum kannananna á heimasíðu Kjalarnessprófastsdæmisins. Eins hefur sr. Stefán Már kynnt á hverju ári niðurstöður meðal presta og djákna sem fólk hefur verið mjög ánægt með.

Sr. Stefán Már segir að niðurstöður kannananna séu nokkuð svipaðar frá ári til árs. Sumt vegur kannski þyngra annað árið en ekki eins mikið hið næsta. Það var helst á kórónuveirutímanum sem neikvæðara hljóð var í fólki.

Spurningalistar eru sendir út til foreldra og forráðamanna fermingarbarnanna. Svarhlutfall er gott, allt upp í 45%. Fjöldi fermingarbarna er á áttunda hundraðið í prófastsdæminu og þýðið um 1200 manns.

„Niðurstöður könnunarinnar hverju sinni geta  verið verkfæri í höndum fræðaranna og safnaðanna,“ segir sr. Stefán Már, „menn spyrja sig hvað þeir geti gert betur og hvað eigi að forðast og hvað eigi að endurtaka.“

Fram kemur að flestir vilja að börnin læri að signa sig, læri trúarjátninguna, sögur um Jesú og bænir. Sum barnanna hafa engan trúarlegan bakgrunn en koma samt til kirkjunnar og fermast. Meirihluti barnanna hefur þó sótt sunnudagaskóla að einhverju marki og lært sitthvað þar. Svo eru þau býsna mörg sem hafa farið í kristilegar sumarbúðir.

Nánar er hægt að lesa um niðurstöður fermingarkönnunar fyrir árið 2021: Fermingar - 2021 - Kjalarnessprófastsdæmi - könnun.pdf

hsh


  • Ferming

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

  • Fréttin er uppfærð

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall