Þungarokks-messa

7. júlí 2022

Þungarokks-messa

VIð hæfi að birta töffaralega mynd af klerki sem er potturinn og pannan í skipulagningu Þungarokks-messunnar: Mynd: Benjamín Hrafn Böðvarsson

Það verður heldur betur mikið um að vera á Norðfirði um næstu helgi. Það er ekki aðeins hátíðin Eistnaflug sem stendur yfir heldur boðar Norðfjarðarkirkja til Þungarokks-messu – eða Metal-messu - í Norðfjarðarkirkju sunnudaginn 10. júlí kl. 11.00.

Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson, prestur þar eystra, er potturinn og pannan í öllum undirbúningi. Fyrirmynd messunnar er finnsk og því liggur beinast við að spyrja prestinn unga hvort hann hafi sótt slíka messu í Finnlandi.

„Nei, reyndar ekki en mig langar mikið til að vera viðstaddur eina slíka hjá Haka Kekäläinen,“ segir sr. Benjamín Hrafn, „ég hef aðeins verið í sambandi við hann og fengið smá ráðleggingar varðandi messuna.“ Hann segist hafa látið næga í bili að fylgjast með finnsku messunum í gegnum streymi, og auk þess hafi hann séða alla heimildaþætti um Metal-messuna.

Hverjir munu flytja þungarokkið í messunni?
„Þar sem Þungarokks-messan er svona ný af nálinni þá hef ég ekki enn náð að semja við íslenska þungarokkhljómsveit að flytja þungarokkssálmana,“ segir sr. Benjamín Hrafn, „en stuðst verður við upptökur af þungarokkssálmum erlendra hljómsveita.“ Íslenska þýðingu á sálmunum verður að finna í sálmaskránni.
Geturðu gefið dæmi um þungarokkssálm?

„Já, ég nefni tvo. Annar er How great thou art, (Hve mikill ert þú Guð), sem er þekktur enskur sálmur, í útsetningu hljómsveitarinnar Becoming the archetype. Hinn sálmurinn er eftir ungan tónlistarmann frá Virginíu í Bandaríkjunum, Ben S. Dixon, og ber lagið titilinn Psalm 46 Lord of hosts en ég hef verið í sambandi við hann og fékk sérstakt leyfi til að nota lagið í messunni.“

Eitt íslenskt lag verður í messunni sem kemur frá hljómsveitinni Dimmu en söngvari hennar, Stefán Jakobsson, gaf leyfi til að nota það.

Eins og í hefðbundinni messu þá verður inngöngusálmur, dýrðarsöngur og lofgjörðarvers, allt í þungarokks-útgáfu, auk fleiri sálma en sr. Benjamín Hrafn nefnir. Og að sjálfsögðu verður altarisganga í messunni.

Sr. Benjamín Hrafn segist ekki geta sagt neitt til um hvort fjölmenni verði við messuna eða ekki en bætir við: „Ég vonast bara til að sjá sem flesta, sérstaklega aðra aðdáendur þungarokks sem líklega verða staddir á Eistnaflugshátíðinni í ár.“

Og prédikunin?
„Það verður opnað fyrir hugrenningatengsl þungarokks við harmsálma Gamla testamentisins en ég hef mikið verið að rannsaka harmsálmana og finn margt sameiginlegt með þeim og innihaldi texta í þungarokki - alveg frá upphafi þungarokksins,“ segir sr. Benjamín Hrafn í lokin.

Eitt er víst að nú bætist nýtt messuheiti á listann sem kirkjan.is tók saman á sínum tíma.

hshÍ Norðfjarðarkirkju