Fólkið í kirkjunni: Tók við af foreldrum sínum

10. júlí 2022

Fólkið í kirkjunni: Tók við af foreldrum sínum

Gyða Valgeirsdóttir, kirkjuhaldari og bóndi - mynd: hsh

Það fyrsta sem blasir við þegar komið er í Miklaholt í Eyja-og Miklaholtshreppi, Snæfellsnesi, er lítil og svipsterk kirkja sem stendur traustum fótum inni í kirkjugarðinum.

Uppi á ás skammt frá kirkjunni er snoturt timburhús á einni hæð. Þar býr kirkjuhaldarinn, Gyða Valgeirsdóttir, bóndi. Foreldrar hennar voru þau Valgeir Elíasson (1906-1992) og Guðlaug Jónsdóttir (1907-1997), bændur í Miklaholti. Þess má geta að föðurbróðir Gyðu var sr. Sigurvin Elíasson (1918-2016), síðast prestur á Skinnastað.

Hún er fædd á næsta bæ, Litlu-Þúfu, en flutti ársgömul með foreldrum sínum í Miklaholt 1939. Þar hefur hún búið síðan. Sr. Þorsteinn Lúther Jónsson, eftirmaður hins kunna klerks, sr. Árna Þórarinssonar á Stóra-Hrauni, skírði hana og fermdi.

Þegar komið er inn í bæ býður Gyða upp á kaffi og kleinur ásamt flatbrauði með hangikjöti. Gyða er snör kona í snúningum, talar hreint út um alla hluti og það er stutt í brosið. Nýkomin úr Borgarnesi úr klippingu. Ein af þeim velunnurum kirkjunnar sem hrópar ekki á torgum úti um það sem hún leggur til hennar. Hún er í sóknarnefnd og syngur í kirkjukórnum.

Allt í röð og reglu

„Já, ég hugsa um kirkjuna og gæti að henni,“ segir hún. „Móðir mín sá um hana lengst af og ég tók við af henni.“ Hún segist ekki hafa verið há í loftinu þegar hún fór út í kirkju með móður sinni til að þrífa og undirbúa fyrir helgihald.

Gyða sýnir tíðindamanni kirkjunnar.is merkilega innbundna skjalabók sem geymir ýmis plögg er snerta kirkjuna. „Þetta er frumeintakið,“ segir hún, „annað eintak er í Þjóðskjalasafninu.“ Í þessa bók er til dæmis skráð nákvæmlega hverjir gáfu fé á sínum tíma til að reisa kirkju aftur í Miklaholti.

Kirkja hefur verið í Miklaholti frá því um 1200. Eins og aðrir staðir geymir Miklaholt kirkjusögu. Miklaholtsprestakall var kennt við staðinn, síðan var nafninu breytt í Söðulsholtsprestakall og nú er það sameinað Staðastaðarprestakalli.

Kirkjan í Miklaholti er ekki sóknarkirkja - er stundum kölluð Miklaholtskapella. En hún var það. Árið 1934 var samþykkt að reisa sóknarkirkju Miklaholtssóknar að Fáskrúðarbakka – hún var vígð 1936. Kirkjan í Miklaholti var rifin. Þessu kunnu margir illa og gekkst bóndinn, sóknarnefndarmaðurinn og organistinn, í Miklaholti, Magnús Sigurðsson (1883-1979), fyrir fjársöfnun til að reisa kirkju aftur í Miklaholti. Miklaholtskirkja var svo vígð 1946. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna. Turn og forkirkja byggð við 1961.

Gyða sló kirkjugarðinn svo áratugum skipti og tók við því verki af föður sínum. Nú er hún hætt því. Bóndinn í Stóru-Þúfu sér nú um það.

„Það var allt annað að slá garðinn eftir að hann var sléttaður,“ segir hún. Tíðindamaður kirkjunnar. is og Gyða eru sammála því að garðurinn hafi verið á sínum tíma óvenju erfiður yfirferðar til sláttar. Nú er hann hvanngrænn og fara öll leiðin vel. Á sum þeirra á eftir setja upp legsteina en öll eru leiðin skráð vandlega í legstaðaskrá. Tíðindamaður og Gyða ganga um garðinn og signa yfir nokkur leiði fólks sem þau þekktu. Síðan nemur Gyða staðar við eitt leiðið þar sem auður hvílustaður er og segir: „Og svo verð ég hér.“ Gyða segist vona að einhver taki við af sér sem kirkjuhaldari þegar hún hrökkvi upp af eins og hún segir og brosir við.

Miklaholtskirkja er björt að innan og þar er engu ofaukið.

„Altaristaflan er eftir Kurt Zier og sýnir brúðkaupið í Kana,“ segir Gyða.

Kurt Zier (1907-1969) var þýskur gyðingur og kom til Íslands 1939 og var á flótta undan nasismanum. Síðar varð hann skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans í Reykjavík. Altaristaflan er gjöf til kirkjunnar.

Tíðindamaður kirkjunnar.is og kirkjuhaldarinn veltu því fyrir sér hvort svo gæti verið að þetta væri eina verkið í íslenskri kirkju eftir Kurt Zier. Kannski væri sú ástæða fyrir altaristöflunni hans í Miklaholti að dr. Róbert Abraham Ottósson (1912-1974), tónlistarmaður, sem var af gyðingaættum og flýði líka undan nasistum og settist hér að, var tengdasonur Magnúsar í Miklaholti sem stóð fyrir kirkjubyggingunni. Ekki ólíklegt að Kurt og dr. Róbert hafi þekkst – og altaristöflu borið á góma – hver veit – og Kurt slegið til. Altaristaflan sem var í gömlu kirkjunni er nú yfir dyrum í kirkjuskipi. Hún er frá 1728.

Í forkirkju er snarbrattur stigi upp í turn en þar eru þrjár klukkur að sögn Gyðu – og ein þeirra úr gömlu kirkjunni.

Hver er hringjari hér?

„Það er nú ég,“ segir hún.

Margir velunnarar bjarga kirkjunni

Miklaholtskirkja á marga fallega muni. Glæsilegur hökull, rauður, eftir Unni Ólafsdóttur (1897-1983), kirkjulistakonu, er geymdur í skáp bak við prédikunarstólinn. Voldugur skírnarfontur er eftir myndhöggvarann Ragnar Kjartansson (1923-1988). Á altari eru veglegir altarisstjakar og tveir fallegir ljósahjálmar hanga í kirkjulofti. Grafskrift með gullnu letri frá seinni hluta 18. aldar og sálmatöflu (söngtöflu) sem sagan segir að Sölvi Helgason (1820-1988) hafi málað. Þá er altarið úr gömlu kirkjunni og sömuleiðis prédikunarstóllinn.

Gyða segir að Miklaholtskirkja eigi marga velunnara og það bjargi henni. Fólk sé alltaf boðið og búið til að aðstoða með það sem þurfi að laga. Nýlega voru til dæmis gefnir nýir ofnar í kirkjuna til minningar um systur hennar, Elínu Rósu Valgeirsdóttur (1936-1998) og mág, Guðbjart Alexandersson (1931-2021). Synir þeirra, Alexander og Valgeir, gáfu ofnana.

Þá er til minningarsjóður sem Magnús Sigurðsson frá Miklaholti stofnaði 1966 um konu sína, Ásdísi M. Sigurðardóttur (1884-1965) frá Miklaholti og í 3. grein skipulagsskrár hans segir: „Tilgangur sjóðsins er að tryggja kirkjuhald að Miklaholti á Snæfellsnesi. Skal verja tekjum sjóðsins til að viðhalda, bæta og fegra kirkju staðarins... .“

Gyða Valgeirsdóttir, bóndi, sóknarnefndarkona og kirkjuhaldari, í Miklaholti, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Miklaholtskirkja


Kirkjan er björt og stílhrein


Altaristaflan er eftir Kurt Zier - Brúðkaupið í Kana (Jóhannesarguðspjall 2.6 (5))


Altaristaflan úr gömlu Miklaholtskirkju - er frá 1728


Bekkir eru vönduð íslensk smíð - tveir gamlir ljósahjálmar


Skírnarfonturinn er eftir Ragnar Kjartansson


Hökullinn er eftir kirkjulistakonuna Unni Ólafsdóttur - hún gerði líka altarisklæði kirkjunnar


Söngtafla (sálmatafla) - Sölvi Helgason er talinn hafa gert hana


Gamall og fínlegur ljósahjálmur fyrir kerti

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut