Stöðugleiki í kirkjustarfi

12. júlí 2022

Stöðugleiki í kirkjustarfi

Breiðholtskirkja - mynd: hsh

Margt í kirkjustarfi breytist þegar sumarið gengur í garð. En sumt breytist ekki.

Bæna- og kyrrðarstundir Breiðholtskirkju í hádeginu á miðvikudögum standa eins og stafur á bók. Falla ekki niður. Meira að segja í kórónuveirufaraldrinum var kirkjan alltaf opin og stundin á sama stað.

Í bæna- og kyrrðarstundinni er höfð um hönd guðsþjónusta, fyrirbænir lagðar fram og gengið til altaris. Allir geta gengið að þeim vísum á sama tíma og á sama degi. Þessi stund á sér djúpar rætur í safnaðarstarfi Breiðholtskirkju. Fer ekki hátt og er vel þegin.

„Það eru allir komnir í sumarfrí og verða fram í ágúst, nema nýi kirkjuvörðurinn okkar, Hrafn Sveinbjarnarson ,“ segir Vigdís V. Pálsdóttir, fyrrverandi formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar. Þessar samverur hafa verið eins og akkeri í starfi kirkjunnar og ekkert hreyft við þeim.

Samveran er alla jafnan í höndum héraðsprestsins, sr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar og Valgerðar Guðmundsdóttur. Sr. Sigurjón Árni blæs af mikilli list í saxófóninn og hefur þjónað til altaris en Valgerður séð um veitingar. Nú er saxófónleikarinn sr. Sigurjón Árni í sumarfríi.

„Síðasta miðvikudag var á borðum kakósúpa og heimabakað bakkelsi að hætti Valgerðar,“ segir Vigdís ánægð. Þau sem sækja samveruna láta smávegis fé af hendi rakna til kirkjustarfsins og leggja í körfu en Valgerður afhendir það kirkjuverðinum.

„Mæting er svona þegar flest er hátt í þrjátíu manns,“ segir Vigdís.

Þetta er samfélag bænar og kyrrðar. Samfélag trúar, samtals og kirkjulegrar vináttu. Safnaðarstarf sem er til fyrirmyndar.

Stundin hefst á morgun kl. 12.00 - eins og alltaf.

hsh

 


  • Kirkjustarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra