Útimessa í Þönglabakka í Fjörðum

28. júlí 2022

Útimessa í Þönglabakka í Fjörðum

Sr. Gunnar Einar messar í Þönglabakka - mynd:Erla Valdís Jónsdóttir

Þönglabakki er eyðibýli við Þorgeirsfjörð, á norðanverðum skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar var prestssetur fram á tuttugustu öld. Bærinn fór í eyði 1944 og var kirkjan þá rifin.

Enn sér móta fyrir grunninum af henni, og hlaðinn kirkjugarðurinn er enn þar í kring. Þar er eitt leiði merkt, með hvítum marmaralegsteini.
Árlega er messað í kirkjugarðinum í júlímánuði sem næst Ólafsmessu en 29. júlí er dánardagur Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs, en í kaþólskum sið var hún tileinkuð honum ásamt um 70 öðrum kirkjum á Íslandi.F

Fjöldi manns lagði leið sína að Þönglabakka í Fjörðum þar sem messað var 24. júlí s.l. Sr. Gunnar Einar Steingrímsson sem er sóknarprestur í Laufási messaði þar nú í síðasta sinn því hann lætur af störfum 1. september n.k. og fer til þjónustu í Noregi.
Um aldamótin 1900 bjuggu í Þorgeirsfirði um 100 manns á 11 bæjum, en byggðin þar átti sér samfellda sögu í þúsund ár, alveg frá landnámsöld.

Í þessari sveit voru andstæðurnar miklar; hin mikla og gjöfula sumardýrð annars vegar og hins vegar hinar grimmustu vetrarhörkur.

Látra-Björg lýsti þessu þannig:
Fagurt er í Fjörðum,
þá frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiski nýtt.
En þegar veturinn tekur að þeim sveigja
veit ég enga verri sveit um veraldarreit.
Menn og dýr þá deyja.
Látra-Björg eða Björg Einarsdóttir (1716–1784) skáldkona, er talin fædd í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd en fór með foreldrum sínum, Margréti Björnsdóttur og Einari Sæmundssyni að Látrum á Látraströnd árið 1722. Foreldrarnir fluttu þaðan aftur þremur árum síðar en Björg varð eftir, þá 9 ára. Á Látrum átti hún að líkindum heima fram um miðjan aldur og var því kennd við þann bæ. Á seinni hluta ævinnar gerðist hún förukona og flakkaði milli sveita. Hún lést á vergangi í Svarfaðardal í Móðuharðindunum 1784 og var jarðsett að Upsum.

slg

                                                                Messukaffi í blíðunni

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir

Sóknarprestsskipti

29. sep. 2023
.....í Fossvogsprestakalli
Bústaðakirkja með bleiku yfirbragði í október - mynd: hsh

Bleikur október í Bústaðakirkju

29. sep. 2023
.......er auk þess listamánuður
Gæðastund í kapellunni

Kyrrðardagar kvenna

28. sep. 2023
......haldnir á Löngumýri