Ábæjarkirkja í Austurdal 100 ára

1. ágúst 2022

Ábæjarkirkja í Austurdal 100 ára

Ábæjarkirkja - mynd: slg

Það var norðan nepja í Austurdal í Skagafirði í gær þegar haldið var upp á 100 ára afmæli kirkjunnar.

Sr. Dalla Þórðardóttir þjónaði fyrir altari og predikaði í hátíðlegri stund í kirkjunni. Í predikun sinni lýsti hún því hve þrá fólks er greinileg eftir því að komast til þessarar stundar sem er árviss viðburður um verslunarmannahelgina.

Inni í kirkjunni fengu sæti um 30 manns, en um 70 manns sátu úti í kirkjugarðinum eða kúrðu undir suðurvegg kirkjunnar í betra skjóli. Hróbjartur Jónasson sá um að koma hljóði til þeirra sem úti voru. Sameiginlegur kór Miklabæjar- og Flugumýrarsókna leiddu safnaðarsöng og Sveinn Árnason lék á orgel.

Sr. Ólafur Hallgrímsson á Mælifelli sem þjónaði kirkjunni í 25 ár las guðspjallið og ávarpaði viðstadda í lokin og afhenti kirkjunni að gjöf þjónustubiblíu. Auk þess var kirkjunni færð að gjöf ljósprentuð útgáfa af Guðbrandsbiblíu. Það voru hjónin í Hraungerði Kristín Jónsdóttir og Þórarinn Eggertsson, sem gáfu biblíuna, en Kristín er systir Helga heitins á Merkigili.

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum blessaði söfnuðinn í lokin.

Eftir guðsþjónustuna var haldið heim að Merkigili þar sem Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps var með hlaðið veisluborð.

Ábæjarkirkja

Unnið upp úr ÁGRIPI AF SÖGU Í FORTÍÐ OG NÚTÍÐ sem sr. Dalla Þórðardóttir flutti við 100 ára afmæli kirkjunnar.

Fyrst er getið um kirkju á Ábæ í Auðunarmáldaga frá árinu 1318, en vera má að þó hafi hér staðið kirkja fyrr. Heimildir benda til þess að kirkja hafi ekki staðið þar samfellt frá því.

Hafist var handa við undirbúning og byggingu núverandi kirkju þegar rauðaviðarkirkjan sem reist hafði verið 1842 og vígð árið eftir, var að falli komin, svo að hún þótti ekki lengur hæf fyrir samkomur. Vandi var fólki á höndum og reyndar um það rætt hvort nokkuð skyldi leggja fé, tíma og fyrirhöfn til nýrrar kirkju, enda voru þá einungis þrír bæir í byggð í dalnum.

En söfnuðurinn var ekki reiðubúinn að búa án Guðs húss og var hafist handa um byggingu þessarar kirkju árið 1921. Að ári eða eða í 16. sumarviku, sem þá bar upp á 6. ágúst árið 1922, var kirkjan vígð og hefur nú löngum verið messudagur Ábæjarkirkju, sem næst þeim degi, og frá árinu 1986 hefur messudagurinn verið sunnudagur í verslunarmannahelgi.

Það var Guðjón Samúelsson, sá mikilhæfi arkitekt sem teiknaði Ábæjarkirkju. Guðjón Samúelsson var fæddur 1887 og lést árið 1950. Hann varð húsameistari ríksins árið 1920 , almennt er talið að Ábæjarkirkja sé fyrsta kirkjan , sem hann teiknaði. Pétur Ármannssonar ritar í bók sinni, sem ber heitið Guðjón Samúelsson, húsameistari , sem út kom árið 2021, um kirkjuna og þar segir m.a:

,,Ábæjarkirkja er einstök í byggingarsögunni, sem tilraun til að útfæra byggingarlag íslenskrar torfkirkju í steinsteypu. Varðveittir eru tveir uppdrættir af misstórum kirkjum á Ábæ, dagsettir í apríl 1920. Veggir eru í báðum tilvikum úr steinsteypu og torfhleðsla utan á langveggjum og torf á þaki. Kirkjan, sem talin er minnsta guðshús landsins úr steinsteypu, var reist eftir minni teikningunni. Hún er eigi að síður aðeins stærri en rauðaviðarkirkjan, rúmar um 30 manns í sæti.“ Hér lýkur tilvitnun.

Kirkjan er látlaust hús, hliðarveggir eru gluggalausir en í stað altaristöflu er fyrir altari stór gluggi, sem veitir birtu inn en heiður himinn og græn hlíðin mæta augum þeirra er að bekkjum sitja.

Eftir að Helgi Jónsson, bóndi á Merkigili, lést í gilinu af slysförum í janúarmánuði árið 1997 varð sóknin mannlaus og kirkjan missti einn sinn helsta velgjörðarmann. Það var Helga heitnum mikið áhugaefni að hin árlega guðsþjónusta yrði sem mannflest og vel til hennar vandað; hann lét þá endurbæta veginn heim að kirkjunni, vann að því sjálfur og fékk menn sér til hjálpar, keypti ýmislegt þarflegt til kirkjunnar, og þegar heim í Merkigil var komið var það honum gleði að fólk tæki lagið á hlaðinu.

Í tilefni af aldarafmælinu fóru fram nokkrar umbætur, svo að kirkjan mætti taka enn betur búin á móti sínu fólki. Í fyrra var reist ný girðing um garðinn, það gerði Bjartmar Halldórsson og hans flokkur, en girðinguna gaf sr. Ólafur Þór Hallgrímsson á Mælifelli og fyrrum sóknarprestur á Mælifelli. Ábæjarkirkja hefur ævinlega verið honum kær og hefur hann ekki látið af, þrátt fyrir embættislok, að minna á þarfir hennar og er það þakkarvert.

Nú er kirkjan í umsjón prófasts, í hátt við það sem kveðið er á um í starfsreglum, en þegar sókn verður mannlaus fellur kirkjuhúsið undir umsjón viðkomandi prófasts , eins og segir orðrétt í 5. grein þessara starfsreglna. Ef um er að ræða kirkju í mannlausri sókn eða kirkju sem hefur verið yfirgefin og engum er til að dreifa sem getur talist lögmætur umráðandi, er prófastur umráðandi kirkjunnar uns annað hefur verið ákveðið.

slg


Agnar H. Gunnarsson las meðhjálparabæn


Sr. Ólafur Þór Hallgrímsson las guðspjall og ávarpaði viðstadda


Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum blessaði söfnuðinn


Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps sá um veitingar með glæsibrag


  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra