Músin hljóp um altarið...

8. ágúst 2022

Músin hljóp um altarið...

Grímur Helgason og Kristín Þóra Pétursdóttir klarinettuleikarar

Á morgun, þriðjudaginn 9. ágúst kl. 19.30, verða tónleikarnir Kvöldstund með klarinettum í Hvalsneskirkju í Reykjanesbæ.

Grímur Helgason og Kristín Þóra Pétursdóttir munu leika á klarinett einleiksverk og dúetta frá Mozart til okkar tíma.

Þetta eru síðustu tónleikarnir í Hvalsneskirkju á þessu sumri. Tónleikarnir hafa verið vel sóttir og afar mikil ánægju með þá enda þeir fjölbreyttir og metnaðarfullir.

Á morgun munu sem sé klarinettin hljóma suður með sjó. Kirkjan.is ræddi stuttlega við Grím Helgason, klarinettuleikara. Hann sagði dagskrána vera mjög fjölbreytilega og stæði yfir í um tæpa klukkustund.

Kirkjan.is staldraði við tvennt í dagskránni með fullri virðingu fyrir höfundum annars efnis en það voru tvær af fimm þjóðvísum sem fluttar verða: Einn Guð í hæðinni og Músin hljóp um altarið og beit í kertið...

„Snorri Sigfús Birgisson á heiðurinn af íslensku þjóðlögunum við þjóðvísurnar fimm sem við leikum,“ segir Grímur, „hann útsetti þessi íslensku þjóðlög fyrir tvær flautur en við fengum leyfi hans til að leika þau á klarinett.“ Þar munu tvær klarinettraddir tvinnast saman og hreyfast hliði við hlið.

Textinn í Einn Guð í hæðinni er einkar fallegur:

Einn Guð í hæðinni, huggarinn þinn.
Líknsamur hann huggi þig, litli ljúfurinn.


Hann sem kom í heiminn og huggaði þig.
Þú sem grætur sáran með sorgfullt geð.

Texti síðarnefnda þjóðkvæðisins er skemmtilegur en hann hljóðar svo:

„Músin hljóp um altarið og beit í kertið
og sagði hæina hó
með litlar lappir og lifrauða skó.

Viðrini veit ég mig vera
vesenis tesenis tera
hallara stallara stötinn
himbriminn hljóðar á fótinn. 
(Halldóra B. Björnsson: Jörð í álögum. Þættir úr byggðum Hvalfjarðar, Reykjavik 1969, bls. 124. Úr þulum Eyjólfs tónara.)
Grímur byrjaði sem barn í tónlistarnámi. Hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í sjö ár og auk þess dálítið á eigin vegum. Kristín Þóra Pétursdóttir er sambýliskona hans og kennir við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hún starfar líka sjálfstætt sem klarinettuleikari og hóf sömuleiðis snemma nám í klarinettuleik eins og Grímur.

Grímur segir að allstór hópur hér á landi hafi atvinnu af klarinettleik og kennslu.

Dagskrá tónleikanna
W. A. Mozart (1756-1791)
Sex stuttir dúettar KV 487 Allegro Menuetto & Trio Adagio Polonaise Larghetto Allegro

Béla Kováks (1937-2021)
Hommage á Manuel de Falla, fyrir piccolo klarinett í Es
Béla Kováks Hommage á J. S. Bach, fyrir bassaklarinett

Igor Stravinsky (1882-1971)
Þrír þættir fyrir einleiksklarinettu

Snorri Sigfús Birgisson (1954)
Fimm íslensk þjóðlög:
Einn Guð í hæðinni
Hættu að hrína Mangi minn
Músin hljóp um altarið
Inni Kola, amma bola
Sofðu þér nú sætan dúr

Bernhard Crusell (1775-1838)
Duetto op. 6 Nr. 2
Allegro agitato ma non troppo
Siciliano
Rondo alla Svedese.

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Sumartónar í Hvalsneskirkju og eru styrktir af Uppbyggingasjóði Suðurnesja og Tónlistarsjóði. Aðgangseyrir er 2500.

Magnea Tómasdóttir er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar í Hvalsneskirkju.

hsh

 

 


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

Orgelkrakkar.jpg - mynd

Orgelkrakkahátíð í Reykjavík

22. sep. 2022
.......ókeypis hátíð
Sr. Tómas Guðmundsson

Mikill höfðingi kveður

21. sep. 2022
.....sr. Tómas Guðmundsson látinn 96 ára að aldri
Kirkjuklukkur Miðgarðakirkju

Söfnun fyrir kirkjuklukkum

20. sep. 2022
....sérstök tengsl miilli Hallgrímskirkju og kirkjunnar í Grímsey