Músin hljóp um altarið...

Á morgun, þriðjudaginn 9. ágúst kl. 19.30, verða tónleikarnir Kvöldstund með klarinettum í Hvalsneskirkju í Reykjanesbæ.
Grímur Helgason og Kristín Þóra Pétursdóttir munu leika á klarinett einleiksverk og dúetta frá Mozart til okkar tíma.
Þetta eru síðustu tónleikarnir í Hvalsneskirkju á þessu sumri. Tónleikarnir hafa verið vel sóttir og afar mikil ánægju með þá enda þeir fjölbreyttir og metnaðarfullir.
Á morgun munu sem sé klarinettin hljóma suður með sjó. Kirkjan.is ræddi stuttlega við Grím Helgason, klarinettuleikara. Hann sagði dagskrána vera mjög fjölbreytilega og stæði yfir í um tæpa klukkustund.
Kirkjan.is staldraði við tvennt í dagskránni með fullri virðingu fyrir höfundum annars efnis en það voru tvær af fimm þjóðvísum sem fluttar verða: Einn Guð í hæðinni og Músin hljóp um altarið og beit í kertið...
„Snorri Sigfús Birgisson á heiðurinn af íslensku þjóðlögunum við þjóðvísurnar fimm sem við leikum,“ segir Grímur, „hann útsetti þessi íslensku þjóðlög fyrir tvær flautur en við fengum leyfi hans til að leika þau á klarinett.“ Þar munu tvær klarinettraddir tvinnast saman og hreyfast hliði við hlið.
Einn Guð í hæðinni, huggarinn þinn.
Líknsamur hann huggi þig, litli ljúfurinn.
Hann sem kom í heiminn og huggaði þig.
Þú sem grætur sáran með sorgfullt geð.
Texti síðarnefnda þjóðkvæðisins er skemmtilegur en hann hljóðar svo:
„Músin hljóp um altarið og beit í kertið
og sagði hæina hó
með litlar lappir og lifrauða skó.
Viðrini veit ég mig vera
vesenis tesenis tera
hallara stallara stötinn
himbriminn hljóðar á fótinn.
(Halldóra B. Björnsson: Jörð í álögum. Þættir úr byggðum Hvalfjarðar, Reykjavik 1969, bls. 124. Úr þulum Eyjólfs tónara.)
Grímur segir að allstór hópur hér á landi hafi atvinnu af klarinettleik og kennslu.
W. A. Mozart (1756-1791)
Sex stuttir dúettar KV 487 Allegro Menuetto & Trio Adagio Polonaise Larghetto Allegro
Béla Kováks (1937-2021)
Hommage á Manuel de Falla, fyrir piccolo klarinett í Es
Béla Kováks Hommage á J. S. Bach, fyrir bassaklarinett
Igor Stravinsky (1882-1971)
Þrír þættir fyrir einleiksklarinettu
Snorri Sigfús Birgisson (1954)
Fimm íslensk þjóðlög:
Einn Guð í hæðinni
Hættu að hrína Mangi minn
Músin hljóp um altarið
Inni Kola, amma bola
Sofðu þér nú sætan dúr
Bernhard Crusell (1775-1838)
Duetto op. 6 Nr. 2
Allegro agitato ma non troppo
Siciliano
Rondo alla Svedese.
Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Sumartónar í Hvalsneskirkju og eru styrktir af Uppbyggingasjóði Suðurnesja og Tónlistarsjóði. Aðgangseyrir er 2500.
Magnea Tómasdóttir er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar í Hvalsneskirkju.
hsh