Silfrastaðakirkja á Sauðárkróki

18. ágúst 2022

Silfrastaðakirkja á Sauðárkróki

Silfrastaðakirkja fór sér til hressingar á Sauðárkrók í fyrra - mynd: hsh

Tíðindamaður kirkjunnar.is ók fyrir nokkru í gegnum Sauðárkrók eftir hinni margfrægu Skagfirðingabraut og sá sérkennilegt hús sem minnti óneitanlega á kirkju. Með vængstýfðum turni og bíslagi allt í kring eins og sagt var í eina tíð. Skyndilega rann það upp fyrir tíðindamanni að þarna væri hin merka Silfrastaðakirkja stödd sem flutt var í fyrra frá Silfrastöðum til Sauðárkróks til viðgerðar.

„Það munaði svo sannarlega miklu að hún skyldi flutt hingað,“ sagði Björn Svavarsson, smiður og yfirumsjónarmaður með verkinu, þegar kirkjan.is ræddi við hann um málið. „Öll vinna við hana er miklu þægilegri hér en á heimastaðnum og það voru reyndar skiptar skoðanir um flutninginn en það er ekki spurning að mikið hagræði hefur verið af honum.“

Hvernig er ástand kirkjunnar?
„Hún var orðin fúin, grindin farin að gefa sig hér og þar,“ segir Björn, „fótstykkið var alveg komið að fótum fram og því hefði hvort sem var þurft að taka hana af grunninum.“ Hann segir að turninn hafi verið alveg búinn að vera því að þar hafi lekið með fram. Þá þarf að endurnýja allt járnið og setja á kirkjuna eins járn og var, flatt járn enda er hún friðuð.

Kirkjan var flutt með bíl frá Silfrastöðum og út á Krók. Taka þurfti spíruna af turninum til þess að hann slengdist ekki í háspennulínur. Þetta var vandaverk en tókst.

„Allir innanstokksmunir eru geymdir frammi í Blönduhlíð,“ segir Björn.

Hvenær verður verkinu lokið?

„Það er erfitt að segja um það,“ segir Björn, „sótt hefur verið í ýmsa sjóði til að kosta verkið.“ Þetta er dýrt verk að sögn Björns og því mikið undir styrktarsjóðum komið að þeir láta fé renna til þessa þarfa þarfaverks. Farið verður af stað í haust að endurnýja timburverk og smíða nýja glugga.

Kirkjan.is spurði svo sr. Döllu Þórðardóttur, prófast á Miklabæ, nánar út í verkið. Hún segir að fjármögnun fyrir verkið sé ekki tryggð að fullu. Kostnaður við endurbætur er nú áætlaður 50 milljónir króna. Kirkjan sjálf eigi fjármuni sem þó dugi hvergi nærri fyrir þessum endurbótum en bæði Húsafriðunarsjóður og Jöfnunarsjóðir sókna hafi styrkt verkið myndarlega og gefið vilyrði fyrir frekari stuðningi. „Í upphafi voru verkþættir áætlaðir fimm og nú er fyrsta þætti lokið,“ segir sr. Dalla. 

Sóknarbörn Silfrastaðasóknar eru nú rúmlega 35 talsins.

Silfrastaðakirkja er dæmi um menningarverðmæti og kirkjusögu sem mikilvægt er að standa vörð um. Það vilja Skagfirðingar svo sannarlega gera og eru til mikillar fyrirmyndir í því efni. Það er enginn uppgjafatónn í þeim heldur mikill sóknarhugur. Þannig á það líka að vera. Það er hins vegar dagljóst að slík gæsla kirkju- og menningarverðmæta getur ekki verið á herðum fámennra safnaða. Aðrir verða að koma þar að verki.

hsh