Kirkjan hreyfiafl til góðra verka

6. september 2022

Kirkjan hreyfiafl til góðra verka

Frá vinstri: sr. Árni Svanur Daníelsson, sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, Magnea Sverrisdóttir, djákni, Pétur B. Þorsteinsson, djákni, sr. Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir

Nú stendur yfir í Karlsruhe í Þýskalandi heimsþing Alkirkjuráðsins, sem er samkirkjulegur vettvangur kristinna kirkjudeilda.

Einkunnarorð þingsins er „Christ´s love moves the world to reconciliation and unity“ eða í lauslegri þýðingu „Kærleikur Guðs er krafturinn til sátta og einingar“.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir er fulltrúi Þjóðkirkjunnar á þinginu svo og formaður samkirkjunenfndar Þjóðkirkjunnar sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir.

Þingið er haldið á 8 ára fresti og er þetta er 11. heimsþingið. Það stendur frammi fyrir breyttri heimsmynd þar sem fólk þjáist af kvíða og glímir við erfiðar spurningar um heimsbyggðina fyrir komandi kynslóðir. Þessar spurningar eru um heimsfaraldurinn og afleiðingar hans, loftlagsbreytingar svo og aukið kynþáttahatur, kynjamisrétti og annað óréttlæti sem fyrirfinnst í samfélögum okkar.
Í þessum brotna heimi vill heimsþingið leggja áherslu á að kærleikur Guðs getur breytt heiminum. Heimsþingið leggur áherslu á að kærleikur hins krossfesta og upprisna Krists vinnur gegn niðurrifsöflunum.

Yfirskrift heimsþingsins er ákall til kirkna heimsins um að vinna allar saman sem ein og auk þess að vinna með fólki af öðrum trúarbrögðum sem vill vinna að réttlátum friði og sáttargjörð. Það er ákall um að kirkjurnar séu sýnilegar í sáttargjörð við Guð, sameiningu alls mannkyns og allrar sköpunarinnar.

Kirkjan.is setti sig í samband við fulltrúa Íslands á þinginu og fyrir svörum var sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir. Hún segir dagskrá þingsins vera þétta og vel skipulagða. „Hér er fjölbreytt helgihald kvölds og morgna þar sem við kynnumst ólíkum hefðum og tónlist, sem flutt er á mörgum tungumálum. Fólki er síðan skipt í hópa þar sem fram fer í samkirkjulegt samtal, en auk þess eru vinnustofur og fyrirlestrar. Hér eru samankomnar 25 kristnar kirkjudeildir frá öllum heimsálfum. Auk okkar biskups, sem erum fulltrúar Þjóðkirkjunnar situr Magnea Sverrisdóttir djákni þingið, en hún er fulltrúi samkirkjumála í Þjónustumiðstöð. Fleiri Íslendingar eru á svæðinu, sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sem er starfsmaður á vegum Alkirkjuráðsins, sr. Árni Svanur Daníelsson, sem er starfsmaður Lútherska heimssambandsins, og Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni, en hann er starfsmaður þýsku kirkjunnar."

Hin fjölmenna kirkjudeild og útbreidda, rómversk kaþólska kirkjan er ekki aðili að Alkirkjuráðinu en heimsþinginu barst kveðja frá Franz páfa. Bartholomeus 1. ávarpaði líka þingið í gegnum fjarfundarbúnað en fulltrúar rétttrúnaðarkirkjunnar eru fjölmennir á þinginu.

„Hér er fólk frá öllum heimshornum" segir sr. Ása Laufey „við heyrðum meðal annars frá ungum fulltrúa þingsins frá Úkraínu sem upplýsti okkur um að ungir menn sem væru í háskólanámi erlendis fengju að halda því áfram og væru þar með undanskyldir herskyldu. Ung kona frá Úkraínu sem nú dvelur í Póllandi sagði aðspurð að hún væri Rússum reið sem úkranískur borgari en ekki sem kristin manneskja. Þannig finnur fólk leiðir til að lifa og vinna landi sínu gagn en líta á alla sömu augum.
Þá hreifst þingið af kröftugri en kærleiksríkri ræðu Özzu Karam forseta alþjóðlegu samtakanna Religion for peace þegar hún hvatti okkur til að framfylgja boði Jesú um að elska alla. Hún sem er múslimi sagði að hún teldi sig ekki undanskylda þeirri elsku, hún væri ekki bara fyrir kristnar manneskjur heldur allar manneskjur óháð trú eða þeim sem ekki trúa á æðri mátt.“

Og sr. Ása Laufey heldur áfram: „Þó samstaða sé mikil á þinginu þá eru ekki allir alveg sammála um alla hluti, en mikil samstaða er um það að standa vörð um sköpun Guðs, en umhverfismálin eru í brennidepli hér og það eru ekki síst ungu fulltrúar þingsins sem krefjast aðgerða strax! Þau segja að tími samtals sé liðinn og nú sé runninn upp tími aðgerða, því framtíð þeirra standi í ljósum logum. Við erum minnt á það að við lifum öll í stóru samhengi sköpunarinnar og því eru það verkin okkar í sambandi við loftlagsvána sem hefur áhrif á það hvernig náungum okkar út um allan heim vegnar. Við heyrðum vitnisburði hvaðanæva úr heiminum um það hvernig fólk finnur fyrir loftslagsbreytingunum í sínu heimalandi. Íbúar lítilla eyja sjá fyrir sér að þurfa að yfirgefa heimkynni sín þegar sjávarmál hækkar. Sem dæmi má nefna að um 80.000 indverskir bændur sáu enga aðra leið en að taka eigið líf þegar uppskera brast vegna þurrka á síðastliðnu ári. Fólk finnur sig knúið í auknum mæli að gerast landflótta frá heimkynnum sínum vegna áhrifa loftslagsbreytinga, sem munu aukast á næstu árum ef við náum ekki að snúa þróuninni við.“

Og að lokum segir sr. Ása Laufey:

„Samkirkjulegt samtal er mikilvægt fyrir kirkjuna út um allan heim. Það finnur maður áþreifanlega hér á þinginu þar sem ólíkar kirkjudeildir koma saman til að eiga samtal um sameiginlega framtíð. Kirkjan út um allan heim á að vera hreyfiafl til góðra verka, minnug þess að öll erum við eitt í Kristi.“

slg

Heimasíða Alkirkjuráðsins 

Myndir með frétt

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Kirkjustarf

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Úkraína

  • Umhverfismál

  • Viðburður

  • Alþjóðastarf

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut