Skírnarskógar

8. nóvember 2022

Skírnarskógar

Undir birkitré

Þjóðkirkjan hefur bæst í hóp þeirra sem taka höndum saman varðandi endurheimt skóglendis á Íslandi.

Samvinna er milli Þjóðkirkjunnar og Skógræktarinnar um þetta verkefni.

Var þessu samvinnuverkefni hrundið af stað við barnaguðsþjónustu í Bústaðakirkju.

Hreinn Óskarsson, fulltrúi Skógræktarinnar afhenti Biskupi Íslands frú Agnesi M. Sigurðardóttur fjölda birkifræja til sáningar.

Biskup Íslands sagði af því tilefni:

„Hvert barn sem skírt er, fær afhent fallegt kort frá skírnarskóginum en hvert kort inniheldur u.þ.b. þúsund birkifræ.

Við höfum í hyggju að eiga í nánara samstarfi við Skógræktina í framtíðinni.

Við erum að setja af stað verkefni þar sem við fáum fermingarbörn um allt land til þess að safna birkifræjum.

Þannig getum við skilað Skógræktinni aftur þeim fræjum sem við fengum frá þeim.“

 

Á hverju ári eru nokkur þúsund barna borin til skírnar og má því gera ráð fyrir að skírnarskógurinn vaxi og dafni með sáningu fjölda birkifræja um allt land.

Í barnaguðsþjónustunni í Bústaðakirkju lýstu Hreinn og frú Agnes því í einföldu máli hversu mikilvægt það er að planta trjám og endurheimta skóglendi á Íslandi.

Þau sögðu börnunum einnig hversu duglegt eitt tré væri þegar kemur að því að kolefnisjafna heila mannsævi.

Barnið stækkar um leið og birkitréð vex og dafnar.

Frú Agnes lýsti því hvernig tréð getur orðið risastórt, miklu stærra en barnið sem sáði því.

Hreinn benti börnunum á það að trén sem vaxa í kringum kirkjuna hafi eitt sinn verið pínulítil fræ.

Núna eru þau orðin myndarleg tré sem gefa skjól fyrir veðri og vindum.
.
Hreinn sagði þetta vera fallegt innlegg í uppeldi barna að læra að sá fræjum og safna þeim.

Þannig læra þau að hlúa að náttúrunni sem er svo mikilvæg og dýrmæt.

 

Skálholtsútgáfan sér um dreifingu kortanna sem innihalda fræin.

Í tengslum við skírnarskóginn kemur einnig út falleg skírnarbók sem ber nafnið Undir birkitré.

Innan á kápu bókarinnar er vasi sem prestarnir geta sett skírnarskógarkortið í.

Bókin er minningabók barnsins og gestabók fyrir skírnarveisluna.

Þar má líma myndir af barninu á ýmsum aldursskeiðum, skrifa skemmtilegar og skondnar minningar, geyma sónarmyndina og hárlokk svo fátt eitt sé nefnt.

Í henni eru líka fallegar bænir og vers, stuttar biblíusögur og margt fleira.

Hönnuður kortsins og bókarinnar er Halla Sólveig Þorgeirsdóttir teiknari.

 

slg


  • Biskup

  • Ferming

  • Fræðsla

  • Kirkjustarf

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skírn

  • Umhverfismál og kirkja

  • Barnastarf

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta