Jól í skugga sorgar

29. nóvember 2022

Jól í skugga sorgar

Kertaljós

Um áratugaskeið hefur verið haldin sérstök samvera á aðventu fyrir syrgjendur.

Á samverunni er fólki sem er að takast á við sorg boðið til stundar þar sem hægt er að finna sorginni farveg í aðdraganda jólahátíðarinnar.

Samveran er öllum opin og fer fram í Háteigskirkju 1. desember kl. 20:00.

Fréttaritari kirkjan.is grennslaðist fyrir um þessa samveru hjá sr. Gunnari Rúnari Matthíassyni sjúkrahúspresti á Landsspítalanum og Magneu Sverrisdóttur djákna og verkefnastjóra kærleiksþjónustusviðs á Biskupsstofu.

Fyrsta spurningin sem kom í hugann var að spyrja þau um hverjir það væru sem stæðu að þessari samveru.

Magnea sagði: „Það er Landspítalinn og Þjóðkirkjan sem standa að þessari samveru.“


Hvað fer fram á samverunni?

Sr. Gunnar svarði:

„Á samverunni kemur saman fólk sem hefur misst ástvini og á samfélag með öðrum sem deila sömu kjörum.

Þarna verður líka starfsfólk sjúkrahússins sem hefur séð á eftir mörgum einstaklingum og við eigum stund saman þar sem þessi veruleiki okkar er ekki settur til hliðar heldur er einmitt það sem sameinar okkur.“

Er þetta vel sótt?

Magnea:

„Já þetta hafa verið mjög vel sóttar samverur enda er það stór hópur fólks sem á um sárt að binda.“

Kemur fólk á öllum aldri eða er þetta aðallega eldra fólk?

Sr. Gunnar Rúnar:

„Nei ég álít þetta ekki vera samveru þar sem fyrst og fremst eldra fólk kemur saman.

Það er frekar að fólk komi með einhverjum öðrum, vini eða fjölskyldumeðlim svo nokkrir koma saman og styrkja þannig hvert annað.“


Hvað er mikilvægast fyrir syrgjendur að hafa í huga í aðdraganda jóla?

Magnea:

„Það getur verið erftitt að horfa fram til jóla þegar aðstandandi hefur fallið frá.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að jólin eiga sér margar birtingarmyndir.

Þegar við stöndum í erfiðum sporum er skynsamlegt að hlúa að sjálfum sér, tala við aðstandendur sína eða fagfólk og takast á við erfiðar tilfinningar.“


Að lokum var spurningu beint til sr. Gunnars Rúnars og hann spurður hver væri að hans mati ástæða þess að jólin og jólaundirbúningurinn sé erfiður fyrir syrgjendur?

Hann sagði:

„Jólin eru ekki aðeins trúarleg hátíð, heldur fasti og ritúal í almannaksárinu sem hefur komið á venjum og hefðum sem fjölskyldur leggja sig fram um að halda ár eftir ár.

Þarna er ég ekki aðeins að vísa til allrar fyrirhafnarinnar í undirbúningi heimils og fjölskylduboða, heldur hefða sem komist hafa á, s.s. tónleika, óformlegs hittings, sameiginlegra bæjarferða með tilheyrandi kakó, kaffi og kannski mat.

Allt eru þetta viðburðir sem við deilum með öðrum og því verður svo sárt þegar skarð kemur í hópinn, að við tölum nú ekki um þegar sá eða sú sem skipuleggur og heldur utan um allt hefur látist eða er í næsta hring og hefur ekki þrek til að halda utan um allt vegna þessa.

Það er engin leið að víkja sér undan missinum, skarðið í hópinn er svo hrópandi hvert sem tilefnið er.“

 

Samveran er eins og áður sagði í Háteigskirkju fimmtudagskvöldið 1. desember kl. 20:00

 

slg





  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Fræðsla

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall