Afstaða Biskups Íslands er skýr gagnvart flóttafólki og hælisleitendum

4. janúar 2023

Afstaða Biskups Íslands er skýr gagnvart flóttafólki og hælisleitendum

Barn á flótta

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is þá kom hirðisbréf Biskups Íslands út á nýársdag og hefur það nú einnig komið út í rafrænu formi sem nálgast má á kirkjan.is.

Bréfið er afar aðgengilegt og þegar gluggað er í það má sjá mörg athyglisverð atriði.

Einn kaflinn ber yfir skriftina:

Fólk á flótta.

Þar segir biskup:

„ Stærstu viðfangsefni mannkyns nú um stundir eru málefni flóttamanna og hlýnun jarðar.

Milljónir manna eru á flótta frá heimalandi sínu vegna ófriðar að ýmsu tagi.

Fólk á flótta leitar eftir alþjóðlegri vernd hér á landi eins og í öðrum ríkjum Evrópu.

Sumir hafa fengið hana, aðrir ekki.

Það þarf ekki að koma á óvart að fjallað er um flóttafólk og hælisleitendur í Biblíunni því vandamálið er ekki nýtt af nálinni.

Í 3. Mósebók segir t.d.:

„Þegar landi þinn lendir í kröggum og kemst ekki af í samfélaginu skaltu veita honum hjálp eins og aðkomumanni eða gesti svo að hann haldi lífi ykkar á meðal.“

Í 5. Mósebók segir:

„Þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og synir þínir og dætur, þrælar þínir og ambáttir ásamt Levítunum, aðkomumönnunum munaðarleysingjum og ekkjum sem búa í borg þinni.“ (16:14.)

Við erum líka minnt á gestrisnina, t.d. hjá Pétri postula sem segir í fyrra bréfi sínu:

„Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla.“ (4:9.)

Og í Hebreabréfinu erum við minnt á að gleyma ekki gestrisninni:

„Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.“ (13:2.)

Kærleiksboðskapur Jesú minnir okkur líka á að við eigum öll sama rétt til lífs hvar sem við fæðumst á jörðinni og okkur ber að elska Guð, hvert annað og bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum.

Í þeim anda höfum við tekið á móti fólki sem flúið hefur Úkraínu vegna stríðsástandsins og er það vel.

Þjóðkirkjan hefur lagt fram krafta sína til að búa þeim griðastað og bjóða þau velkomin.

Það hefur bæði verið í einstaka sóknum og söfnuðum, sem og hjá alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholtskirkju í Reykjavík."

Næsti kafli ber yfirskriftina:

Kirkjan og mannúðin.

Þar segir biskup:

„ Það er hlutverk kirkjunnar að hlúa að samfélags- og mannúðarmálum og vera rödd kærleika, virðingar og umburðarlyndis.

Kirkjan beitir sér og á að beita sér í þágu þeirra sem standa höllum fæti.

Á kirkjuþing 2019 bárum við biskupar kirkjunnar upp þingsályktun um mótun stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum fólks á flótta, hælisleitenda og innflytjenda.

Samþykkt var að skipa þriggja manna starfshóp til að móta stefnuna.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Prestur innflytjenda hóf störf hjá þjóðkirkjunni í nóvember árið 1996.

Síðustu ár hefur starf hans aukist í takt við fjölgun hælisleitenda til Íslands.

Er nú svo komið að hann þjónar hælisleitendum í þremur kirkjum, Háteigskirkju, Breiðholtskirkju og Keflavíkurkirkju.

Frá haustdögum 2018 hefur hann haft skrifstofuaðstöðu í Breiðholtskirkju og alþjóðlegur söfnuður er að myndast með reglulegu helgihaldi og auknu safnaðarstarfi, s.s. skírnarfræðslu og safnaðarkvöldum.

Árið 2015 fór prestur innflytjenda af stað með reglulegt helgihald og móttöku hælisleitenda í fjórum kirkjum undir nafninu Seekers.

Fjórir prestar á höfuðborgarsvæðinu vinna nú náið með presti innflytjenda.

Frá 2015 hefur prestur innflytjenda skírt um 60 flóttamenn.

Af þeim voru 19 sendir utan en 28 fengu hæli á Íslandi.

Þessir 28, ásamt tugum annarra kristinna flóttamanna, eru kjarni þess safnaðar sem er að vaxa í Breiðholtskirkju.

Nefnd á vegum þjóðkirkjunnar fór utan og kynnti sér málefni fólks á flótta hjá Alkirkjuráðinu og Lúterska heimssambandinu.

Þá voru mynduð tengsl við CCME (The Church’s Commission for Migrants in Europe), sem eru samtök kirkna í Evrópu sem sinna málefnum innflytjenda og fólks á flótta.

Mikilvægt er að starfshópurinn svari þeirri spurningu hvernig best sé að kirkjan taki á móti hælisleitendum og flóttafólki og hvernig kirkjan vill búa að þeim sem koma til landsins, ásamt þeim sem snúist hafa til kristinnar trúar og látið skírast.

Einnig kanni hópurinn hvernig megi skipuleggja starf stuðningsaðila og stuðningsfjölskyldna sem aðstoða flóttafólk, ásamt annarri aðstoð.

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum og á kirkjuþingi 2021–2022 var samþykkt þingsályktun um stefnu þjóðkirkjunnar í málaflokknum sem byggð er á vinnu starfshópsins.“slg


 • Biblían

 • Biskup

 • Flóttafólk

 • Hjálparstarf

 • Kærleiksþjónusta

 • Kirkjustarf

 • Lútherska heimssambandið

 • Prestar og djáknar

 • Safnaðarstarf

 • Sálgæsla

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Þjóðkirkjan

 • Úkraína

 • Alþjóðastarf

Grafarvogskirkja

Þau sóttu um

19. jún. 2024
...Grafarvogsprestakall
Langamýri 2.jpg - mynd

Tvö laus herbergi á Löngumýri

19. jún. 2024
...vegna forfalla
Egilsstaðakirkja

Fjölbreytt afmælishátíð Egilsstaðakirkju

19. jún. 2024
...50 ár frá vígslu kirkjunnar