Alþjóðlegi söfnuðurinn á Íslandi

6. janúar 2023

Alþjóðlegi söfnuðurinn á Íslandi

Sr. Ása Laufey og sr. Toshiki

Á nýársdag kom út hirðisbréf Biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur eins og kirkjan.is hefur þegar sagt frá.

Í bréfinu kemur fram skýr afstaða biskups til flóttafólks og hælisleitenda.

Þar kemur fram að hér á landi starfi Alþjóðlegur söfnuður innan vébanda Þjóðkirkjunnar.

Fréttaritari kirkjan.is fór því a stúfana og spurði sr. Toshiki Toma og sr. Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur nánar um starf Alþjóðlega safnaðarins.

Sr. Ása Laufey sagði:

„Alþjóðlegi söfnuður Þjóðkirkjunnar er með aðstöðu í Breiðholtskirkju.

Saga hans spannar nær átta ár, þegar Seekers bænastundir hófust í Laugarneskirkju í apríl árið 2015.

Það var sr. Toshiki Toma, sem hefur starfað sem prestur innflytjenda fyrir þjóðkirkjuna frá árinu 1996 sem kom því á fót.

Mikil breyting varð á starfinu árið 2015 þegar fjölgaði í hópi hælisleitenda og flóttafólks hér á landi.

Sá hópur hefur leitað í auknum mæli í þjónustu kirkjunnar.“

Sr. Toshiki segir:

„Seekers bænastundirnar hafa líka verið starfandi í Hjallakirkju, Háteigskirkju, Keflavíkurkirkju og Breiðholtskirkju þar sem prestar kirknanna hafa komið að starfinu eftir þörfum.

Hópur þeirra sem sótti bænastundirnar stækkaði ört og því kom upp sú hugmynd að stofna Alþjóðlegan söfnuð Þjóðkirkjunnar, sem hefur verið með aðstöðu í Breiðholtskirkju frá 2018.

Starf safnaðarins er fjölbreytt og felur í sér margvíslega þjónustu við hóp innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda hér á landi, sem felur í sér meðal annars sálgæsluviðtöl og aðstoð eða ráðgjöf vegna margs konar málefna sem fólk þarfnast.“

Og Ása og Toshiki segja bæði:

„Við bjóðum upp á skírnarfræðslu fyrir þau sem leita til okkar og vilja taka skírn.

Við höfum fengið ábendingar um að fólk vill fá meiri fræðslu um kristna trú og því erum við að skipuleggja að bjóða upp á fyrirlestra eða námskeið um ákveðnar persónur og bækur Biblíunnar þar sem fólk getur einnig viðrað sínar eigin vangaveltur um efnið.“

Hvaðan er fólkið sem sækir starfið?

„Það er fjölbreyttur hópur fólks sem kemur saman hjá Alþjóðlega söfnuðinum þar sem oft eru saman komin fimm til tíu þjóðerni í sunnudagsmessu safnaðarins.

Þetta er fólk sem hefur ólíkan menningarlegan bakgrunn, en á það sameiginlegt að vilja tilheyra kirkjunni í nýju heimalandi.

Oft koma til okkar ferðamenn sem eru að leita að helgihaldi á ensku og það er alltaf gaman fyrir okkur þegar nýtt fólk kemur, en helgihaldið fer allt fram á ensku.

Við gefum okkur alltaf góðan tíma fyrir messukaffi þar sem fólk getur spjallað saman og við fáum þá líka tækifæri til að heyra hvaða verkefni fólk er að takast á við hverju sinni.

Safnaðarmeðvitundin er góð þar sem fólk lætur neyð náungans sig varða, fólk sem vill aðstoða bræður sína og systur sem þurfa á því að halda með þeim hætti sem þau eru fær um að leggja til.

Þá erum við einnig mjög heppin að það er hópur sjálfboðaliða í söfnuðinum sem aðstoðar okkar við frágang eftir helgihaldið.

 

En þið eruð tvö sem þjónið þessum stóra hópi?

Toshiki segir:

„Já, núna eru tveir starfandi prestar innflytjenda þar sem söfnuðurinn er ört stækkandi en sr. Ása Laufey var ráðin í mars 2021 en hafði þá verið söfnuðinum innan handar frá árinu 2018 í Háteigskirkju þar sem Seekers bænastundir voru haldnar vikulega.“

 

Og sr. Toshiki segir að lokum:

"Mig langar að leggja áherslu á það að Alþjóðlegi söfnuðurinn er hluti af Þjóðkirkjunni og tilgangur okkar er alls ekki að móta nýja kirkju innan Þjóðkirkjunnar.

Alþjóðlegi söfnuðurinn er tákræn tilraun til að byggja upp Þjóðkirkjuna á 21. öldinni með fólki af erlendum uppruna og því viljum við og þurfum að vinna með öllum öðrum söfnuðum á landinu."

 

slg


 • Biblían

 • Flóttafólk

 • Fræðsla

 • Kærleiksþjónusta

 • Kirkjustarf

 • Námskeið

 • Prestar og djáknar

 • Safnaðarstarf

 • Sálgæsla

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Sjálfboðaliðar

 • Þjóðkirkjan

 • Alþjóðastarf

Sr. Steinunn Anna

Sr. Steinunn Anna Baldvinsdóttir ráðin til Seljasóknar

24. maí 2024
...var vígð í Skálholti á annan í hvítasunnu
Sr. Guðlaug Helga

Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir ráðin í Mosfellsprestakall

24. maí 2024
...var vígð í Skálholti á annan í hvítasunnu.