Undirbúningsfundur fyrir Heimsþing Lútherska heimssambandsins

24. mars 2023

Undirbúningsfundur fyrir Heimsþing Lútherska heimssambandsins

Sr. Þuríður Björg fyrir miðri mynd-mynd LWF/Albin Hillert

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is  þá verður Heimsþing Lútherska heimssambandsins haldið í Kraków  í Póllandi í september.

Heimsþingið var síðast haldið í Windhoek í Namibíu í maí 2017 á 500 ára afmælisárinu, þegar minnst var mótmæla Marteins Lúthers í Wittenberg árið 1517.

Mikill undirbúningur er ævinlega undir heimsþingin, enda koma mörg hundruð manns saman frá öllum heimshornum.

Ísland tekur þátt í undirbúningsfundum, bæði með Norðurlöndunum og Evrópulöndum.

Nú stendur yfir undirbúningsfundur fyrir Evrópulöndin í Oxford í Englandi og þar eru fyrir Íslands hönd sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, sem situr í stjórn Lútherska heimssambandsins, Magnea Sverrisdóttir djákni og verkefnastjóri samkirkjumála á Biskupsstofu og sr. Árni Þór Þórsson, sóknarprestur í Vík.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Þuríði í Oxford og spurði hana um hvað fundurinn í Oxford sé núna?

Sr. Þuríður Björg sagði:

„Á þessum fundi sem haldinn er í Oxford í Bretlandi koma fulltrúar frá Evrópu saman til að undirbúa sig fyrir þingið og taka fyrir mál sem við viljum færa inná þingið.“

 

Nú situr þú í stjórn LWF, hve lengi hefur þú setið þar?

„Á heimsþinginu, sem haldið er á sex ára fresti, er meðal annars kosin stjórn til 6 ára, en Þjóðkirkjan á þar einn fulltrúa.

Ég hef setið í stjórninni síðan á heimsþinginu í Windhoek í Namibíu árið 2017 en í haust tekur nýr fulltrúi við.


Hver er yfirskrift heimsþingsins í ár?


Yfirskrift þingsins er ,,one body, one spirit, one hope" sem vísar í bréf Páls til Efesusmanna 4:4-6 þar sem segir ,,Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur."

Það er áskorun fyrir kirkjurnar að lifa og starfa saman, sameinuð sem einn líkami, einn andi og að hafa eina von, í heimi þar sem svo margar áskoranir eru fyrir hendi og margt sem aðskilur okkur.

Þetta er sérstaklega flókin umræða hér þar sem við erum með fulltrúa bæði frá Lúthersku kirkjunum í Rússlandi og Lúthersku kirkjunni í Úkraínu þar sem ríkir stríð í augnablikinu.

Guðfræðileg umræða um réttlátt stríð og um frið og ýmis mál tengd stríðinu í Úkraínu er óumflýjanleg.

Eins eru loftslagsmál og jafnréttismál á dagskrá, sem einnig getur reynst erfitt að tala um í tengslum við þema þingsins.

En þess vegna erum við hér, til að ræða þessar áskoranir og tækifærin sem við höfum hér á þessu svæði."

 

Hverjir verða fulltrúar Íslands á heimsþinginu?


„Á þingið í haust fara biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir, Magnea Sverrisdóttir djákni, dr. Arnfríður Guðmundsdóttir og  sr. Árni Þór Þórsson, auk mín“

sagði sr. Þuríður Björg að lokum.

Undirbúingsfundinum í Oxford lýkur í dag og því mun kirkjan.is birta skilaboð og áhersluefni fundarins eftir helgi.

Lútherska heimssambandið var stofnað í Lundi í Svíðþjóð eftir síðari heimsstyrjöldina árið 1947 í þeim tilgangi að samræma störf lútherskra kirkna.

Lútherska heimssambandið er myndað af 149 kirkjum í 99 löndum og eru meðlimir kirknanna um 77 miljónir lútherskra.

Árið 2022 var það sjötta stærsta kristna samfélagið í heiminum.

Lútherska heimssambandið leggur mesta áherslu á hjálparstarf, en starfar einnig á sviði samkirkjumála, og vill stuðla að samtali milli trúarbragða og leggur stund á guðfræði og mannréttindi.

Auk þess styður það við þróunar- og kristniboðsstarf.

 

slgMyndir með frétt

Evrópufundur LWF - mynd:LWF/Albin Hillert
 • Biskup

 • Fundur

 • Guðfræði

 • Hjálparstarf

 • Lútherska heimssambandið

 • Prestar og djáknar

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Þjóðkirkjan

 • Trúin

 • Úkraína

 • Umhverfismál

 • Alþjóðastarf

Grafarvogskirkja

Þau sóttu um

19. jún. 2024
...Grafarvogsprestakall
Langamýri 2.jpg - mynd

Tvö laus herbergi á Löngumýri

19. jún. 2024
...vegna forfalla
Egilsstaðakirkja

Fjölbreytt afmælishátíð Egilsstaðakirkju

19. jún. 2024
...50 ár frá vígslu kirkjunnar