Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda

28. mars 2023

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda

Bjarni Gíslason í nýjum jakka frá Úganda

Í gær þann 27. mars komu vinir Hjálparstarf kirkjunnar saman í Grensáskirkju.

Vinir Hjálparstarfsins hittast yfir hádegisverði síðasta mánudag mánaðarins og eru allir velkomnir að vera með.

Tilkynna þarf þátttöku á help@help.is svo nógur matur sé á borðum.

Í hádegisverðinum sagði Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins frá ferð sinni til Úganda, en hann kom heim úr þeirri ferð daginn áður.

Bjarni er fæddur og upp alinn í Eþjópíu, en foreldrar hans Gísli Arnkelsson og Katrín Guðlaugsdóttir voru kristniboðar þar um tíu ára skeið frá 1961-1971.

Bjarni hefur starfað sem framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar síðan 2014, en byrjaði sem fræðslu- og upplýsingafulltrúi árið 2007.


Fréttaritari kirkjan.is spurði Bjarna:

Nú ert þú nýkominn heim frá Úganda. Hver var tilgangur ferðarinnar?

„Tilgangur ferðarinnar var að fylgja eftir tveimur verkefnum í þróunarsamvinnu sem Hjálparstarfið er með í samstarfi við innlenda aðila í Úganda.

Það er ekki nóg að fá skýrslur og myndir.

Við viljum fara á staðina, hitta samstarfsfólk og þau sem taka þátt í verkefnunum og heyra beint frá þeim hvað þeim finnst og sjá með eigin augum það sem hefur verið gert.

Við erum með rammasamning við Utanríkisráðuneytið sem styður vel við þessi verkefni og þeim samningi fylgir eftirlitshlutverk sem við tökum alvarlega.“


Um hvaða verkefni er að ræða og hvar í Úganda eru þau?

"Annað verkefnið er í Kampala höfuðborg Úganda.

Við rekum smiðjur í þremur fátækrahverfum þar sem ungmenni á aldrinum 13-24 ára fá tækifæri til náms.

Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess.

Einnig er mikilvægt að þau taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við UYDEL  Uganda Youth Development Link.

Í smiðjunum geta ungmennin valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Um það bil 500 ungmenni útskrifast árlega.

Hitt verkefnið er í suður Úganda í héruðunum Rakai og Lyantonde.

Skjólstæðingar verkefnisins eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIVsmitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri, einnig fjölskyldur sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum lífa við erfiðar aðstæður.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti.

Reistir eru kamrar við hlið húsanna og fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu.

Aðgengi fólks að hreinu vatni er aukið með því að koma upp 5000 lítra vatnstönkum við hlið íbúðarhúsanna.

Fjölskyldurnar fá geitur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika til að afla sér tekna.

Reist eru hús með öllu fyrir átta fjölskyldur árlega.“


Hafa þessi verkefni staðið í langan tíma?

„Verkefnið í Kampala hófst árið 2017 og verkefnið í Rakai og Lyantonde hófst árið 2001.“


Hvað er brýnast að Hjálparstarf kirkjunnar geri núna í Úganda?

„Fyrst og fremst að tryggja að þessi verkefni haldi áfram svo fleiri fái tækifæri til betra lífs.“


Geturðu nefnt okkur einhver dæmi um hvernig hjálpin frá okkur nýtist í Uganda?

„Christine í Lyantonde er einstæð móðir með sjö börn, eitt barnanna er fatlað.

Hún bjó í slæmu húsnæði en varð svo fyrir því að allt brann til kaldra kola.

Hún fékk hús með öllu í fyrra og sagði við okkur þegar við hittum hana:

„ég bjó við erfiðar aðstæður, en núna er ég í sjöunda himni, ég er alsæl“.

Assraf er annað dæmi: hann lærði í einni smiðjunni í Kampala að sauma föt.

Í dag kennir hann saumaskap í smiðjunni og er með eigin rekstur þar sem hann hannar og saumar föt.“


slg





Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Alþjóðastarf

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta