Þjónusta kirkjunnar þegar áföll verða

30. mars 2023

Þjónusta kirkjunnar þegar áföll verða

Páskaliljur í glugga á Fáskrúðsfirði-mynd sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir

Ekki hefur farið framhjá okkur Íslendingum að miklar hörmungar hafa dunið á Austfirðingum að undanförnu, en mikil snjóflóð hafa fallið víða á Austfjörðum.

Neskaupstaður hefur orðið verst úti og var einangraður í nokkra daga vegna óveðurs og snjóflóðahættu.

Þegar slík hætta er á ferðum er áberandi hvað fólk stendur þétt saman og hve fólk er tilbúið að hjálpa eftir þörfum.

Prestar svæðisins hafa verið á vaktinni og sr. Bryndís Böðvarsdóttir ein fjögurra presta í Austfjarðarprestakalli býr í Neskaupstað og var í fjöldahjálparstöðinni þar þegar fréttaritari kirkjan.is hringdi í hana daginn sem snjóflóðið féll á íbúðablokk og særði nokkra þó ekki hafi nokkur týnt lífi, Guði sé lof.

Sr. Benjamín Böðvarsson býr á Reyðarfirði, sr. Arnaldur Bárðarson býr í Heydölum ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Jóhannsdóttur djákna.

Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir býr á Fáskrúðsfirði og er sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli.

Í Austurfréttum er sagt frá því hvert er hægt að leita eftir sálrænum stuðningi?

Þar segir:

„Á Austurlandi starfar samráðshópur um áfallahjálp sem veitir sálrænan stuðning á tímum eins og nú þar sem hundruð manns hafa þurft að rýma heimili sín Seyðisfirði, Eskifirði og í Neskaupstað vegna snjóflóðahættu.

Á vegum hópsins hefur einnig verið gefið út fræðsluefni sem aðgengilegt er á netinu.

Prestar í Fjarðarbyggð og Múlaþingi, á Seyðisfirði og á Héraði eru til viðtals í síma fyrir áfallahjálp eða sálgæslu eins og óskað er eftir:

Arnaldur Arnold Bárðarson, Breiðdalsvík 766 8344, arnaldur.bardarson@kirkjan.is
Benjamín Böðvarsson, Reyðarfirði 861-4797, benjamin.hrafn.bodvarsson@kirkjan.is
Bryndís Böðvarsdóttir, Neskaupstað 897-1773, bryndis.bodvarsdottir@kirkjan.is
Ingibjörg Jóhannsdóttir, djákni, 7601033, ingajo67@gmail.com
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Fáskrúðsfirði 897-1170, srjona@simnet.is
Kristín Þórunn Tómasdóttir, Egilsstöðum; 8624164, kristin.tomasdottir@kirkjan.is
Sigríður Rún Tryggvadóttir, Seyðisfirði; 6984958, sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.iss
Þorgeir Arason, Egilsstöðum; 8479289, thorgeir.arason@kirkjan.is

Auk þess er hægt að leita til Heilbrigðisstofnunar Austurlands og til Félagsþjónustunnar í Fjarðarbyggð og Félagsþjónustunnar í Múlaþingi fyrir ráðgjöf og upplýsingar.

Hjálparsími Rauða Krossins er alltaf opinn 1717, og þar er einnig hægt að nálgast netspjall

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarprest í Austfjarðarprestakalli í morgun og spurði hana um þjónustu prestanna.

“Það eru mjög sérstakar aðstæður hér á fjörðunum og við fyrstu tíðindi af snjóflóðum í Neskaupstað á mánudaginn, var hugsunin erfið að komast ekki þangað til að taka þátt í að veita sálræna aðstoð á staðnum.

Þá var allt ófært milli staða og hefur nánast verið síðan, auk þess sem hættuástand er ekki bundið einum stað.

Það er til dæmis verið að rýma einhver hús hér á Fáskrúðsfirði, á  Eskifirði og Stöðvarfirði núna vegna hættu á krapaflóðum.

En hugurinn hefur óneitanlega verið aðallega hjá Norðfirðingum.

Ég þekki það þaðan, hvað samtakamátturinn, samkenndin og samstaðan einkennir yfirbragð.

Allt samfélagið þar leggst á eitt, hjálpast að og fólk hlúir strax hvert að öðru.

Við prestarnir erum í góðu samstarfi við aðra viðbragðsaðila um sálræna aðstoð.

Prófastur okkar, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir boðaði til fundar á teams hjá samráðshópi um áfallahjálp.

Við áttum upplýsandi og góðan fund og tókum stöðuna saman, ásamt fulltrúum bæjaryfirvalda, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, yfirsálfræðingi HSA, Þjóðkirkju, Rauða Krossi, Almannavörnum og lögreglustjóra.

Í framhaldi þess fundar voru settar fram aðgengilegar upplýsingar um okkur öll, sem veitum aðstoð við áföllum, með nöfnum, símanúmerum og netföngum okkar allra.

Þær upplýsingar má finna hér.

Prestur, staðsettur í Neskaupstað, er sr. Bryndís Böðvarsdóttir og hún hefur farið í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Egilsbúð ásamt fleirum viðbragðsaðilum.

Hún fór líka í Breiðablik í gær að hitta elstu borgarana.

Það reynir á prestinn sem býr á staðnum við þessar aðstæður.

Sr. Benjamín Hrafn, búsettur á Reyðarfirði, hefur heyrt í fólki á Eskifirði, varðandi líðan þeirra vegna ofanflóðahættu þar.

Ennþá er hættuástand og kringumstæður þannig að við prestarnir höfum hvert okkar verið á sínum stað og sinnt okkar þjónustu aðallega í gegnum síma.

Á öllum stöðunum er fólk, sem áður hefur lent í svipuðum aðstæðum, eða þekkir vel til þeirra og nú rifjast upp gömul sár og erfið reynsla.

Við erum að veita þá aðstoð, sem óskað er eftir, hvert á sínum stað núna í góðu samstarfi við aðra viðbragðsaðila.

Næsti samráðsfundur hópsins um áfallahjálp er boðaður á morgun.

Eftir því sem dögum fjölgar í þessari óvissu er fólk eðlilega farið að þreytast og við erum viðbúin því.

Það eru frábærir sjálfboðaliðar frá RKÍ og öðrum viðbragðsaðilum að sinna fólki.

Sú sálræna aðstoð sem við veitum mun vara áfram svo lengi sem þörf verður á henni.

Í því hættuástandi, sem við erum að upplifa, er svo auðfundið hve þétt er haldið um alla þræði og vel unnið hjá frábærum sjálfboðaliðum RKÍ og öllum viðbragðsaðilum, bæði hér á stöðunum og í góðri tengingu við aðila fyrir sunnan.

Það veitir öryggi og hlýju í óvissunni, að öll umgjörðin er mörkuð af kærleika og samhjálp.

Fyrir það veit ég að við erum öll þakklát hér fyrir austan.

Að lokum má geta þess að aðstæður hafa verið svo erfiðar í Neskaupstað að ekki hefur verið hægt að halda bænastund í kirkjunni, en prestarnir horfa til þess að það verði mögulegt á næstu dögum.

Og svo eru páskar framundan og upprisuboðskapurinn mun hljóma og vorið vonandi á næsta leiti"

sagði sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sóknarprestur í Austfjarðarprestakalli.

 

Myndirnar með fréttinni tók sr. Jóna Kristín í morgun í kringum Króksholt 1 á Fáskrúðsfirði í morgun.slgMyndir með frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Hjálparstarf

Skálholtsdómkirkja

Kosning hafin í vígslubiskupskjöri

07. jún. 2023
......hófst kl. 12:00 á hádegi
Bústaðakirkja í Fossvogsprestakalli - mynd: hsh

Sumarstarf kirkjunnar í Fossvogsprestakalli

05. jún. 2023
...... kvöldmessur í Bústaðakirkju
Skálholtsdómkirkja

Framboðsfundur vegna vígslubiskupskosninga

03. jún. 2023
.....í Skálholtsumdæmi