Ályktun Heimsþings Lútherska Heimssambandsins

21. september 2023

Ályktun Heimsþings Lútherska Heimssambandsins

Forseti og nýkjörnir varaforsetar LWF

Þrettánda Heimsþingi Lútherska Heimssambandsins lauk 19. september með ályktun þar sem aðildarkirkjurnar strengdu þess heit að styrkja sambandið sín á milli með því að fagna einingu í fjölbreytileikanum og þjóna náunganum með áherslu á þjónustuna við Krist.

Fulltrúarnir sögðu að þeir sneru nú til síns heima meðvitaðri um hvaða þýðingu það hefur að vera í samfélagi kirkna.

„Þar sem við erum kirkjur í sístæðri siðbót, þá erum við kölluð til að vinna að friði í heiminum, friði milli fólks og landa og friði við alla sköpunina.“

Í ályktuninni var áhersla lögð á yfirskrift og innihald þingsins, sem var Einn líkami, einn andi, ein von.

Fulltrúarnir sögðu að þau myndu hlýða kallinu um að ganga saman sem kirkjur í samfélagi sem játar eina trú og vitnar um trú sína á erindi Guðs í heiminum.

Þau hétu því að gera betur á sviði umhverfismála og hvernig fjármagni er skipt þegar fólk þjáist og er útskúfað og jörðin þjáist undan loftlagsbreytingum.

Yfirskrift þingsins lagði áherslu á mikilvægi guðfræðivinnu á þinginu.

Í ályktuninni lögðu fulltrúarnir áherslu á mikilvægi sterkari guðfræðimenntunar til að gera fólk hæfara til að takast á við erfið viðfangsefni án þess að koma með of einföld svör.

„Ábyrg guðfræði byggir á samfélagi án aðgreingar“  og „ gefur rými til að endurhugsa kraft eins anda“ eins og það er orðað í ályktuninni.


Fulltrúar á þrettánda Heimsþinginu heimsóttu fyrrum útrýmingrbúðirnar í Auschwitz- Birkenau.

Í ályktuninni staðfestu þau það sem Heimsþingið 1984 í Budapest sagði um að antisemitismi væri í algerri mótsögn við fagnaðarerindi Jesú Krists.

Þau staðfestu áframhaldandi skuldbindingu til að lifa í samræmi við hinn lútherska arf í kristinni trú og kærleika til Gyðinga.

Heimsþingið benti á að kirkjur í sumum heimshlutum búa við að málfrelsi er ekki virt og hafa verið ofsóttar fyrir að berjast fyrir réttlæti og mannréttindum.

Meðlimir þessara kirkna hörmuðu slíkan mismun óháð því hvar hann fer fram og kölluðu eftir því að Lútherska Heimssambandið ræddi um málið.

„Vonin er nálaraugað sem við horfum í gegnum þegar við fylgjum Kristi“ sagði ennfremur í ályktuninni.

Fulltrúarnir staðfestu að Lútheranar myndu halda áfram köllun Guðs með boðun og kærleiksþjónustu, bæði á heimavelli og um allan heim.

Þingið skoraði á aðildarkirkjurnar að finna nýjar leiðir til að boða „djarfa von sem byggir á trú á Guð“ og þjóna fólki í neyð, þar með talið innflytjendum, fólki á flótta og þeim sem hafa orðið fyrir áföllum.

500 ára afmæli Ágsborgarjátningarinnar verður árið 2030.

Þingið lýsti yfir gleði sinni á „möguleikum þess að játningin geti sameinað kirkjur og haldið líkama Krists, kirkjunni, saman.“

Evangelísku kirkjunni í Póllandi, sem kennd er við Ágsborgarjátninguna, var þakkað af alhug fyrir móttökurnar.

Bæði kirkjuleiðtogum, söfnuðum og sjálfboðaliðum var einlæglega þakkað fyrir stórkostlega gestrisni meðan á þinginu stóð.

„Pólska lútherska kirkjan hefur sannarlega sýnt okkur að allar kirkjur eiga mikinn mannauð sem við getum deilt með hverju öðru.“

Ályktunina í heild sinni má lesa hér  á ensku.

 

slg



  • Ályktun

  • Flóttafólk

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Alþjóðastarf