Aðventa Gunnars Gunnarssonar

22. desember 2023

Aðventa Gunnars Gunnarssonar

Nú þegar komið er að lokum aðventunnar og hin helga hátíð jólanna fer að ganga í garð má huga að því sem er mörgum andleg uppbygging á þessum tíma árs.

Mörg okkar njóta fallegrar tónlistar og talaðs orðs á aðventukvöldum safnaðanna, aðrir fara á jólahlaðborð eða bjóða gestum heim.

Eins og fram hefur komið víða þá byrjum við að skreyta og setja upp jólaljósin miklu fyrr en áður tíðkaðist.

Þó lestur góðra bóka tilheyri heldur jóladögunum, en aðventunni hafa mörg tekið upp þann sið að lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson rithöfund á aðventunni.

Við messu nú á aðventunni minnti sr. Bjarni Þór Bjarnason sóknarprestur á Seltjarnarnesi á viðtal sem þáverandi fréttaritari kirkjan.is sr. Hreinn Sk. Hákonarson tók við dr. Gunnlaug A. Jónsson um þetta mikla, en þó litla ritverk.


Dr. Gunnlaugar er prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræði Háskóla Íslands, en hann kenndi ritskýringu og guðfræði Gamla testamentisins um árabil.

Hann les söguna á hverju ári og þáverandi fréttaritari spurði hann fyrst hvort hann hefði tölu á því hve oft hann hefði lesið söguna.

Dr. Gunnlaugur sagði þá fyrir þremur árum:

„Árin eru að minnsta kosti orðin fjörutíu og ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi aldrei misst úr ár og í einhver fáein skipti lesið oftar en einu sinni.“

Um innihald bókarinnar segir dr. Gunnlaugur:

„Það myndu líklega flestir segja að það sé aðeins ein aðalpersóna í sögunni og það er Benedikt sjálfur.

En eftir því sem hann les söguna oftar þá segist hann taka sífellt betur eftir hve hans mikilvægu förunautar, hundurinn Leó og sauðurinn Eitill, hafi mikil og sterk persónueinkenni.

Það er talað um þá sem bestu vini Benedikts og allir þrír ganga þeir undir hinu trúarlega heiti þrenningin.“

Dr. Gunnlaugur segir það vera áberandi hve sterkum persónueinkennum Leó er málaður og hann verði fyrir vikið afar minnistæður.

“Í upphafi göngu þeirra félaganna upp á fjöll og firnindi er tekið fram að hann sé fremstur og Benedikt talar um hann sem félagann fágæta.

Honum er og lýst sem mesta myndarpáfa.

Hann leikur á als oddi, hann heilsar upp á húsmóðurina á Botni, ratar á sæluhúsið, gerir sig heimakominn og nýtur tilverunnar og lætur hvorki angrast né espast.

Sakleysi hans og trúnaðartraust er borið saman við stopula trú mennskra manna,“ segir dr. Gunnlaugur.

„Benedikt og hann skipta freðnum matnum bróðurlega.

Uni Leó aðgerðum Benedikts hins vegar ekki sem best lætur hann það í ljósi og kveinkar sér en annars staðar fagnar hann með glöðu gelti.

Og þegar um lífið er að tefla í nístandi frostinu er það Leó sem tekur allt í einu að krafsa á ólíklegum stað og finnur þar jarðholuna þeirra og þar með eru þeir hólpnir.

Loks halda þeir Benedikt og Leó jólin hátíðleg í grýtunni.“

Þannig er að mati dr. Gunnlaugs hlutur Leós í sögunni sannarlega mikill og eftirminnilegur og hafi hann þó aðeins fátt eitt nefnt.

„Hinir trúarlegu drættir sögunnar snerta mig mikið og sterkt og hinar biblíulegu vísanir eru svo margar og áhugaverðar,“ segir dr. Gunnlaugur.

„Aðventa hefur af sumum verið kölluð kristin dæmisaga, um að breyta eftir Kristi.

Aðrir hafa varað lesandann við að setja sig í slíkar stellingar við lesturinn og enn aðrar telja söguna fyrst og fremst fjalla um íslenska hetjulund.“

Dr. Gunnlaugur segir í viðtalinu að Gunnar dragi upp ákveðna hliðstæðu milli árlegrar ferðar Benedikts upp á fjöll og firnindi á aðventusunnudaginn og innreiðar Jesú í Jerúsalem.

Hliðstæðan við hið biblíulega stef um hirðinn og hjörð hans sé dæmi um augljós biblíuleg einkenni.

„Fyrir mér birtist boðskapur sögunnar skýrast þar sem Benedikt veltir fyrir sér merkingu hugtaksins aðventa, sem fól í sér mikla helgi fyrir honum“ segir dr. Gunnlaugur.

„En jafnframt það að einhvers væri vant og undirbúningur einhvers betra.

Þá segir einnig að eftir því sem árin færðust yfir Benedikt hafi líf hans verið orðin ein aðventa.“

„Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni, ef ekki ófullkomin þjónusta, sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting – undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“

„Þetta finnst mér góður boðskapur og ég upplifi þetta sem kjarnann í þessari annars margræðu sögu,“ segir dr. Gunnlaugur.

„Aðventan er ekki bara bið eftir einhverju, heldur jafnframt ákvörðun um að láta gott af sér leiða.

Það finnst mér okkur öllum hollur og kristilegur boðskapur“

sagði dr. Gunnlaugur að lokum.

Þess má geta að hægt er að hlusta á Aðventu á Storytel.

Þar er hún í frábærum flutningi Róberts Arnfinnssonar leikara og tekur aðeins rúmar tvær klukkustundir.

 

slg

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Menning

  • Trúin

  • Biblían

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut