Biskup Íslands auglýsir starf prests við Garðaprestakall

27. mars 2024

Biskup Íslands auglýsir starf prests við Garðaprestakall

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Garðaprestakall, Kjalarnessprófastsdæmi. Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf í síðastalagi 1. ágúst n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024. Tengla á þessar heimildir er að finna á heimasíðu kirkjunnar hér.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Garðaprestakall skiptist í tvær sóknir, Garðasókn og Bessastaðasókn. Garðasókn nær yfir öll hverfi Garðabæjar að Álftanesinu undanskildu. Í Garðasókn eru tvö prestsembætti en frá hausti 2021 til hausts 2023 hefur að auki verið einn prestur til bráðabirgða. Gert er ráð fyrir að nýr prestur hafi fyrstu þjónustu í Garðasókn. Í Bessastaðasókn er einn prestur með fyrstu þjónustu. Heildarfjöldi íbúa í Garðabæ er tæplega 19.500 m.v. 1 desember s.l. Þrjár kirkjur eru í prestakallinu, Bessastaðakirkja, Garðakirkja í Görðum á Álftanesi og Vídalínskirkja.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr.

Framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf. Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar. Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum. Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni. Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.
Með umsókn skal fylgja umsögn frá tveimur aðilum sem ekki tengjast umsækjanda fjölskylduböndum eða nánum vinatengslum.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall. Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 898 9701 eða á netfangið hans.al@kirkjan.is. Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknar frestur er til miðnættis 10. apríl 2024

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar. Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Garðaprestakall – þarfagreining

Þarfagreining vegna fyrirhugaðs prestsembættis í Garðaprestakalli.

Gert er ráð fyrir að ráðið verði í fjórða prestsembættið í Garðaprestakalli árið 2024. Prestakallið skiptist í tvær sóknir, Garðasókn og Bessastaðasókn. Í Garðasókn eru tvö prestsembætti en frá hausti 2021 til hausts 2023 hefur að auki verið einn prestur til bráðabirgða á meðan beðið er eftir að fjórða prestembættið fáist í prestakallið. Gert er ráð fyrir að sá prestur hafi fyrstu þjónustu í Garðasókn. Í Bessastaðasókn er einn prestur með fyrstu þjónustu þar en hann er jafnframt prófastur Kjalarnessprófastsdæmis og að er auki djákni í 60% starfshlutfalli.

Garðasókn nær yfir öll hverfi Garðabæjar að Álftanesinu undanskildu. Flest allir íbúar búa í þéttbýli en nokkrir bæir eru þó enn eftir á sunnanverðu Álftanesi. Talsverð uppbygging átt sér stað í Garðabæ á undanförnum árum og hefur m.a. nýtt hverfi, Urriðaholt, byggst upp á skömmum tíma. Búast má við áframhaldandi vexti bæjarins.

Safnaðarmeðlimir sem greiddu sóknargjöld voru tæplega ellefu þúsund 1. desember sl. eða 9.366 í Garðasókn og 1.399 í Bessastaðasókn. Heildarfjöldi íbúa í Garðabæ var 19. 496 og voru þar af 15.287 16 ára og eldri. Hátt hlutfall bæjarbúa er skráð í Þjóðkirkjuna eða 70,5% í Garðasókn og 70,0% í Bessastaðasókn. Íbúafjöldi síðastliðin 20 ár hefur vaxið frá 0,6% til 6,1% milli ára og ef litið er til nýlegrar mannfjöldaspár Byggðastofnunar er ekki ólíklegt að íbúar Garðabæjar verði u.þ.b. 23.000 innan þriggja ára. Það þýðir að greiðandi safnaðarmeðlimir í Garðaprestakalli verði þá orðir u.þ.b. 16.000.

Yfir vetrartímann er messað í Vídalínskirkju hvern sunnudag kl. 11 og í Garðakirkju kl. 11 fyrsta sunnudag í mánuði. Sunnudagaskólar eru hvern sunnudag í Urriðaholtsskóla kl. 10 og í Safnaðarheimilinu kl. 11. Af öðru reglulegu starfi má nefna foreldramorgna, kyrrðarbænastundir, opin hús, helgistundir á hjúkrunarheimilunum Ísafold og Vífilsstöðum, fermingarfræðslu, barna- og kórastarf, TTT starf í Urriðaholti, Æskulýðsfélag Garðasóknar og Örninn – samverur barna og foreldra sem hafa farið í gegnum missi. Fullorðinsfræðsla Garðasóknar er í gegnum bænahópa, sorgarhópa og fræðslu í beinu streymi. Í kirkjunni eru starfræktir sex kórar: tveir barnakórar, unglingakór, Gospelkór Jóns Vídalín, Kór Vídalínskirkju og Garðakórinn – kór eldri borgara. Kórarnir æfa í hverri viku frá ágúst fram í maí.

Í Garðasókn eru sjö grunnskólar, 14 leikskólar, einn fjölbrautaskóli og tvö hjúkrunarheimili. Prestar og starfsfólk sóknarinnar eru í tengslum eða í þjónustu við allar þessar stofnanir og þá sérstaklega hjúkrunarheimilin en þar er m.a. mánaðarleg þjónusta allt árið. Einnig situr sóknarprestur í áfallateymi Garðabæjar sem eykur sálgæsluhlutverk kirkjunnar.

Garðasókn er gamall og rótgróinn söfnuður sem rekur sögu sína langt aftur í aldir en Garðasókn var endurvakin árið 1960. Þá tók til starfa sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé. Aðalverkefni sóknarnefndarinnar var að styðja við og fylgja eftir frumkvæði Kvenfélags Garðahrepps um endurbyggingu Garðakirkju.
Þrjár kirkjur eru í Garðaprestakalli. Í Bessastaðasókn er Bessastaðakirkja, reist úr grjóti sem tekið var úr Gálgahrauni og var hún vígð árið 1796, kirkjan er á forræði forsetaembættisins og er því ekki hefðbundin sóknarkirkja. Bessastaðasókn hefur átt gott samstarf við embættið í gegnum árin um notkun hennar. Kirkjan er meðal elstu steinbygginga landsins.

Í Garðasókn eru tvær kirkjur, Garðakirkja í Görðum á Álftanesi, sem er sóknarkirkja Garðasóknar, byggð 1879-1880, endurvígð 20. mars 1966 og Vídalínskirkja sem var vígð 30. apríl 1995. Kirkjan er kennd við Jón biskup Vídalín í Görðum sem var prestur frá 1696 til 1698 er hann var vígður biskup að Skálholti.
Vídalínskirkja er hönnuð af Skúla H. Norðdahl arkitekt en hann hannaði einnig safnaðarheimilið sem byggt var fyrr. Grunnflötur fyrstu hæðar er 502 fm en samtals er grunnflötur byggingarinnar 746 fm og rúmmál hennar 5044 rúmmetrar. Kirkjan rúmar allt að 300 manns í sæti en unnt er að opna inn í safnaðarheimilið og geta þá yfir 500 manns verið við athöfn.

Organisti er í fullu starfi við Garðasókn en auk þess er organisti í hálfu starfi við Bessastaðasókn. Auk organista starfa í fullum stöðum hjá í Garðasókn framkvæmdastjóri og kirkjuhaldari sem einnig sér um safnaðarheimilið og Garðakirkjugarð. Þá er æskulýðsfulltrúi og verkefnastjóri í fullu starfi og starfskraftur í 80% stöðu við ræstingar og kirkjuvörslu.

Nýr prestur sinnir æskulýðsstarfi og hefur yfirumsjón með barna- og æskulýðsstarfi Garðasóknar ásamt presti sóknarinnar. Nýr prestur þarf að sinna starfi með foreldrum. Presturinn þarf einnig að koma að fullorðinsfræðslu safnaðarins, mótun helgihaldsins og kynningarmálum safnaðarins. Prestur þarf að hafa getu til að leiða sorgar- og bænahópa. Nauðsynlegt er að viðkomandi hafi ríka hæfni í mannlegum samskiptum, geti unnið í teymi með öðru starfsfólki kirkjunnar en sé einnig sálfstæður í vinnubrögðum. Starfinu fylgja viðbótarskyldur við prestakallið, önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag. theol/cand. theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.


  • Starf

  • Prestar og djáknar

Matur.jpg - mynd

Hjálpumst að heima og heiman

04. des. 2024
...árleg jólasöfnun Hjálparstarfsins
HAìDEGISTOìNLEIKAR copy.png - mynd

Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?

03. des. 2024
...hádegistónleikar í Hallgrímskirkju
Prestur og biskup Íslands

Gamalli hefð haldið við

02. des. 2024
...messa í Háskólakapellunni á fullveldisdaginn