Fjölbreytt afmælishátíð Egilsstaðakirkju

19. júní 2024

Fjölbreytt afmælishátíð Egilsstaðakirkju

Egilsstaðakirkja

Sunnudaginn 16. júní voru 50 ár liðin frá vígslu Egilsstaðakirkju, en hún var vígð þann 16. júní árið 1974 af dr. Sigurbirni Einarssyni þáverandi biskupi Íslands.

Þá var sóknarprestur á staðnum dr. Gunnar Kristjánsson fyrrum prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi og sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós.

Kirkjuafmælinu var fagnað með hátíðarmessu í kirkjunni, en auk þess með ýmsum viðburðum, eins og afar athylgisverðri sýningu í Sláturhúsinu/Mennigarmiðstöð.

Í upphafi messunnar flutti formaður sóknarnefndar, Eydís Bjarnadóttir ávarp, en hún er einnig formaður afmælisnefndar.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir predikaði við hátíðarmessuna.

Prestsþjónustu önnuðust auk biskups, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir prófastur í Austurlandsprófastsdæmi og prestur í Egilsstaðaprestakalli, sr. Þorgeir Arason sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli, sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprstakalli, sr. Ólöf Margrét Snorradóttir og sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson fyrrum prestar í Egilsstaðaprestakalli og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrrum vígslubiskup á Hólum.

Meðhjálparar voru Guðrún María Þórðardóttir og Íris Randversdóttir.

Kór Egilsstaðakirkju söng undir stjórn organistans Sándor Kerekes.

Einsöng söng Hlín Pétursdóttir Behrens, Mairi L. McCabe lék á fiðlu og víólu og Virág Kerekesné Mészöly lék á óbó.

Adrian Peacock, bassi söng frumsamda bassaaríu, sem organistinn Sándor Kerekes samdi í tilefni kirkjuafmælisins.

Í lok messunnar var Hermann Eiríksson heiðraður fyrir ómetanlegt framlag sitt til kirkjustarfsins í yfir 50 ár.


Að messu lokinni bauð Kvenfélagið Bláklukka í afmæliskaffi kirkjunnar í Hlymsdölum.

Þar ríkti mikil gleði, enda voru sungin gleði- og sumarlög undir stjórn sr. Kristínar Þórunnar við undirleik Sándors Kerekes.

Eftir kaffið voru kirkjugestir hvattir til að ganga yfir að Sláturhúsinu/Mennigarhúsi og sjá sýningu sem þar hefur verið sett upp í tilefni afmælisins.

Yfirskrift sýningarinnar er Sæl eru þau sem búa í húsi þínu.

Þar eru sýndir munir og myndir sem tengjast stóru stundunum í lífi fólks í gleði og sorg.

Þar er áhersla lögð á persónulega tengingu við kirkjulegar athafnir á stóru lífsstundunum, meðal annars heimagerða skírnarkjóla, fermingarföt, brúðkaupsklæði og umbúnað um líkkistur.

Hugmyndina að sýningunni á Elísa Petra Benjamínsdóttir.

Fréttaritari kirkjan.is spurði hana hvernig það hafi komið til að hún fékk þessa hugmynd.

Elísa sagði: „Það var af því að amma mín varð 90 ára í janúar og þá héldum við svona afmælissýningu fyrir hana sem við kölluðum Handverk í 90 ár og þannig kom þessi hugmynd eiginlega upp.

Við vorum með þetta í sama sal og sýningin er í Sláturhúsinu.

Ég nefndi þetta við sr. Kristínu Þórunni og henni fannst þetta góð hugmynd.“

Margt fleira verður í boði í tilefni kirkjuafmælisins.

Þar má nefna Afmælishátíð barnanna  8. september, sem mun marka upphaf sunnudagaskólans næsta vetur.

Afmælistónleikar Egilsstaðakirkju verða þann 5. október.

Er það samstarfsverkefni fólks úr ýmsum áttum.

Málþing um Austurlandsskáldin verður fyrr þann sama dag, þann 5. október í Vallaneskirkju.

Þar taka til máls dr. Gunnar Kristjánsson fyrrum sóknarprestur í Vallanesi, Kristján B. Jónasson og Margrét Eggertsdóttir.

Annað sem nefna má og tengist afmælishátíðinni er að afmælisnefnd Egilsstaðakirkju fékk Björgu Björnsdóttur í samstarfi við Hjalta Stefánsson og Heiði Ósk Helgadóttur hjá Tókatækni ehf. til að vinna heimildarmyndina Guðshús á Gálgaási.

Myndin byggir á viðtölum Bjargar við Dagnýju Sigurðardóttur, Jóhann Guðmundsson, Gunnhildi Ingvarsdóttur, Unnar Elísson, Þórhall Eyjólfsson og sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson um aðdraganda kirkjubyggingarinnar.

Myndin er sýnd í Sláturhúsinu en verður síðan aðgengileg á youtube rás Egilsstaðakirkju.

Myndir frá afmælishátíðinni á sunnudaginn má sjá hér fyrir neðan.

 

slg


Myndir með frétt

 • Fræðsla

 • Heimsókn

 • Kirkjustaðir

 • Kirkjustarf

 • List og kirkja

 • Messa

 • Prestar og djáknar

 • Prófastur

 • Safnaðarstarf

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Þjóðkirkjan

 • Tónlist

 • Trúin

 • Biskup

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð