Laust starf prests

3. september 2024

Laust starf prests

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf 1. janúar 2024.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Glerárprestakall er í sveitarfélaginu Akureyrarkaupstað.

Í prestakallinu er ein sókn, Lögmannshlíðarsókn.

Sóknin er á samstarfssvæði með Akureyrarsókn, sem myndar Akureyrarprestakall.

Í Glerárprestakalli eru tvær kirkjur, Glerárkirkja og Lögmannshlíðarkirkja.

Skrifstofuaðstaða sóknarprests og prests er í Glerárkirkju.

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 866 2253 eða á netfangið jon.armann.gislason@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni, s. 528 4000, eða á netfangið jona@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 17. september 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar. Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Þarfagreining Lögmannshlíðarsóknar

Lögmannshlíðarsókn er önnur tveggja sókna á Akureyri.

Íbúar voru um 7269 í sókninni 1. desember 2023.

Sóknin tilheyrir Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og er á Akureyri ásamt Akureyrarsókn.

Í Lögmannshlíðarsókn eru fimm leikskólar, þrír grunnskólar, þjónustukjarni fyrir fólk með fötlun og eitt öldrunarheimili.

Fyrirhuguð er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis innan sóknarmarka og má búast við um 1000 nýjum íbúðum á komandi árum.

Fjárhagsstaða safnaðarins er ágæt og engar langtímaskuldir íþyngja honum. Söfnuðurinn hefur eina starfsstöð, Glerárkirkju.

Söfnuðurinn á einnig gamla trékirkju, Lögmannshlíðarkirkju sem stendur við Lögmannshlíðarkirkjugarð.

Í húsnæði Glerárkirkju er starfræktur leikskóli á vegum Akureyrarbæjar.


Almennt um kirkjustarfið

Íbúar í póstnúmeri 603 eru eins og fyrr segir 7269 og skiptast þannig, að rúm 20% eru undir 16 ára aldri og tæp 14% eldri en 65 ára.

Styrkleikar safnaðarins felast í góðum tengslum kirkjunnar við fólkið í hverfinu, samfélaginu sem og í góðu starfsfólki og sjálfboðaliðum.

Söfnuðinum þjóna sóknarprestur og prestur í fullu starfi. Einnig starfa djákni, organisti, umsjónarmaður kirkjunnar, ráðskona safnaðarheimilis og kirkjuvörður við Glerárkirkju og á vinnustaðnum ríkir góður andi.

Þá eru nokkrir starfsmenn í hlutastörfum við tónlistarstarf kirkjunnar og barna- og æskulýðsstarf.

Auk þessa koma margir sjálfboðaliðar að starfi kirkjunnar.

Í Glerárkirkju er messa og sunnudagaskóli alla sunnudaga yfir vetrarmánuðina en yfir sumartímann erum við að þróa samstarf um sameiginlegt sumarhelgihald með Akureyrarkirkju.

Í Glerárkirkju fer einnig fram allt hópa- og fræðslustarf safnaðarins.

Glerárkirkja er vel búin til þess að þjóna fjölbreyttum hópum og eru aðgengismál í góðum farvegi.

Í kirkjunni er ágætis starfsaðstaða fyrir starfsfólk safnaðarins.

Auk helgihalds fer því fram margvíslegt barna-, unglinga- og safnaðarstarf.

Má þar nefna sunnudagaskóla, foreldramorgna, tónlistastarf fyrir börn í 1.-10. bekk, Glerungar fyrir 1. – 3. bekk, TTT fyrir 5.-7. bekk og unglingastarf fyrir 8.-10. bekk.

Þá koma nokkrir hópar AA samtakanna saman í kirkjunni.

Unglingastarf kirkjunnar er í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri.

Í kirkjunni er auk þessa boðið upp á fjölbreytt námskeið, fræðslustundir og sorgarhópastarf.

Þá hafa prestar safnaðarins sinnt samverum og guðsþjónustum á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar í samstarfi við presta Akureyrarkirkju.

Í hverfinu starfa öflug íþróttafélög ásamt fjölda annarra félagasamtaka.

Einnig hefur Kvenfélagið Baldursbrá haft fundaraðstöðu í Glerárkirkju og hefur stutt myndarlega við kirkjustarfið í sókninni til langs tíma og þá hefur Mæðrastyrksnefnd Akureyrar aðstöðu í kjallara kirkjunnar og mótttaka skjólstæðinga sem sækja stuðning til Velferðarsjóðs Eyjafjarðar er í kirkjunni.



Væntingar safnaðarins.

Sóknarnefnd Glerárkirkju vill að kirkjan sé hluti af lífi samfélagsins í hverfinu og leggur áherslu á uppbyggjandi og nærandi fræðslustarf og að til staðar sé öflugt barna- og æskulýðsstarf á vegum safnaðarins.

Því er æskilegt að prestar safnaðarins hafi þekkingu, reynslu og áhuga á starfi með ungmennum og fjölskyldum þeirra.

Söfnuðurinn leggur áherslu á mikilvægi tónlistarlífs kirkjunnar og er það kostur ef prestar nýta það við helgihald og fræðslu.

Glerárkirkja er byggð inn í íbúðahverfi og hefur söfnuðurinn áhuga á að starfið í kirkjunni endurspegli það, að hún sé hverfiskirkja.

Prestar kirkjunnar þurfa að vera meðvitaðir um þetta samhengi safnaðarstarfsins og hafa áhuga á að láta sig það varða með uppbyggilegum hætti.

Í sókninni er vilji og löngun til að ná til ungs fólks með þjónustu kirkjunnar með áherslu á starf fyrir börn og unglinga, foreldramorgna og eldriborgarastarf.

Megin áhersla sóknarnefndar Lögmannshlíðarsóknar næstu ár er að efla starf kirkjunnar með öllu fólki í sókninni, þannig að allt sóknarfólk geti fundið sér stað í kirkjustarfinu.

Að þetta verði gert m.a. með ríkari áherslu á stefnumótun safnaðarins og fjölbreytni í safnaðarstarfi og helgihaldi.

Sóknin leitar eftir presti sem er reiðubúinn að taka þátt í teymisvinnu og samstarfi við sóknarprest og annað starfsfólk kirkjunnar um uppbyggingu safnaðarstarfs.

Glerárkirkja vill styðja við framsækið starf í kirkjunni sem skapar sér sérstöðu og laðar að bæði þátttakendur og sjálfboðaliða.

Þá er bent á vef Glerárprestakalls: www.glerarkirkja.is

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Sr. Arna Ýrr, Kristín, sr. Aldís Rut og sr. Bryndís Malla

Tveir prestar settir í embætti

09. sep. 2024
...í Grafarvogskirkju
Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir

Sr. Þuríður Björg ráðin

04. sep. 2024
...í Hafnarfjarðarprestakall
Auglýsing- Guðný.png - mynd

Hausttónleikaröð tekur við af sumartónleikaröð

04. sep. 2024
...opnun á sýningunni Hallgrímshorfur