Þrír prestar settir í embætti í sömu athöfn

23. september 2024

Þrír prestar settir í embætti í sömu athöfn

Prestarnir þrír með prófasti

Það ríkti mikil gleði í Lágafellskirkju í gær, sunnudaginn 22 september þegar innsetningarguðsþjónusta allra presta safnaðarins fór fram.

Segja mætti að met hafi verið slegið í Mosfellsbænum þar sem haft var á orði að mögulega væri þetta í fyrsta skipti í sögu þjóðkirkjunnar þar sem þrír prestar eru settir inní söfnuð í sömu athöfninni.

Prófastur Kjalarnesprófastdæmis, sr. Hans Guðberg Alfreðsson þjónaði fyrir altari og setti þau sr. Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn, sr. Guðlaugu Helgu Guðlaugsdóttur og sr. Henning Emil Magnússon inní störf sín og færði þeim erindsbréf.

Henning Emil hefur starfað hjá söfnuðinum frá 1. ágúst 2022 og Arndís tók við starfi sóknarprests 1. ágúst 2023.

Guðlaug Helga bættist svo í hóp prestanna um síðustu hvítasunnu þegar hún vígðist til prests í Skálholtskirkju.

Mikill söngur einkenndi þessa fallegu guðsþjónustu þar sem allt starfsfólk og prestar safnaðarins tóku þátt.

Andrea Gréta Axelsdóttir kirkjuvörður og meðhjálpari og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir nýráðinn framkvæmdastjóri safnðaðarins lásu ritningarlestra.

Auk prestanna lásu Bogi Benediktsson æskulýðsfulltrúi og Kristján Júlíus Kristjánsson kirkjukórsfélagi bænir.

Kirkjukór Lágafellssóknar leiddi kirkjugesti í söng undir stjórn Árna Heiðars Karlssonar organista.

Guðlaug Helga flutti prédikun og talaði út frá textum dagsins og tengdi þá við áföllin sem dunið hafa á samfélaginu okkar undanfarið.

Að athöfninni lokinni bauð sóknarnefnd Lágafellssóknar kirkjugestum til kaffisamsætis í safnaðarheimili sóknarinnar.

Þar færði prófastur prestunum bækur og Rafn Jónsson sóknarnefndarformaður færði þeim blóm.

Að sögn Arndísar var gerður góður rómur að guðsþjónustunni og samverunni á eftir og gengu öll glöð útí sólríkan daginn að veisluhöldum loknum og hún segir:

„Hjá Lágafellssókn hefur starfað öflugur hópur síðustu misserin og mikil gróska hefur verið einkennandi fyrir safnaðarstarf og endurnýjun í helgihaldi.

Það má því með sanni segja að framtíð kirkjunnar sé björt í Mosfellsbænum“ segir Arndís.


slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Sr. Árni Þór Þórsson

Sr. Árni Þór ráðinn

01. nóv. 2024
...prestur innflytjenda
Sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir

Sr. María ráðin

01. nóv. 2024
...í Reykholtsprestakall
Lindakirkja

Afleysing prests í Lindaprestakalli

01. nóv. 2024
...auglýst laus til umsóknar