Mikilvægra tímamóta í kirkjusögunni minnst

30. september 2024

Mikilvægra tímamóta í kirkjusögunni minnst

Sr. Auður Eir prédikar

Mikil hátíðahöld voru um helgina í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því fyrsta konan sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð til prestsþjónustu í þjóðkirkjunni.

Það var sunnudaginn 29. september árið 1974 að þrír guðfræðikandidatar voru vígðir af biskupi Íslands Sigurbirni Einarssyni.

Það voru Auður Eir, Jón Þorsteinsson, fyrrum sóknarprestur á Mosfelli og Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti.

Tímamóta prestsvígslu fyrstu konunnar var minnst bæði á laugardag og sunnudag.

Málþing var haldið í Vídalínskirkju þar sem Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðaprestakalli bauð fólk velkomið.

Sr. Bjarni Karlsson las ritskýringu Sigurvins Lárusar Jónssonar prests í Garðaprestakalli á guðfræði Auðar.

Þar kom fram að gleði og vinátta væri undirtónn í allri ritskýringu hennar.

Hélt hann því fram að guðfræði Auðar væri einstök á heimsvísu, en það var Sigurvin Lárus sem átti frumkvæði að málþinginu.

Þvínæst hélt erindi Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor við Guðfræði og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Bar erindi hennar yfirskriftina Guðsmynd og mannskilningur.

Sagði hún að eitt merkasta framlag Auðar fælist í vinnu hennar við að umbreyta guðsmynd og mannskilningi kristninnar.

Þá flutti erindi Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor við sömu deild.

Sagði hún að Auður væri alger frumkvöðull í feminiskri guðfræði.

Ræddi hún aðallega um guðsþjónustuform Kvennakirkjunnar sem mótað hefur verið undir leiðsögn Auðar.

Skoðaði hún það út frá bókinni Göngum í Guðs hús.

Ræddi hún um bænirnar og hvernig textar biblíunnar hafa verið umorðaðir í bókum hennar.

Lagði hún áherslu á að Kvennakirkjan væri siðbótarkirkja.

Þá hélt Auður Eir ræðu þar sem hún brást við þeim erindum sem flutt höfðu verið.

Að erindunum loknum var viðstöddum boðið í súpu í safnaðarheimili Vídalínskirkju.


Sunnudaginn 29. september á vígsludaginn sjálfan var haldin ráðstefna í Háteigskirkju á vegum Félags prestsvígðra kvenna og Kvennakirkjunnar.

Ólöf Margrét Snorradóttir prestur í Garða og Saurbæjarprestakalli setti ráðstefnuna og sagði að nú hefðu 120 konur hlotið prestsvígslu og þrjár hlotið biskjupsvígslu.

Þann 1. júlí síðast liðinn voru á launaskrá hjá þjóðkirkjunni 131 prestur, þar af nokkrir í hlutastörfum.

Af þeim eru 65 konur og 66 karlar í föstu starfi og tvær konur í tímabundnum störfum.

Þrjú erindi voru á ráðstefnunni og voru þau flutt af konum af þremur kynslóðum.

Auður Eir hélt fyrsta erindið, vígð árið 1974 eins og áður kom fram.

Lýsti hún aðstæðum í kirkjunni þegar hún vígðist og afstöðu til kvenna í prestsþjónustu.

Annað erindið hélt Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Laugardalsprestakalli, en hún var 40. konan sem fékk vígslu.

Það var árið 1998.

Lýsti hún aðstæðum í kirkjunni þegar hún vígðist og á þeim 26 árum sem hún hefur starfað sem prestur.

Að lokum hélt Helga Bragadóttir prestur í Digranes og Hjallaprestakalli erindi um aðstæður í kirkjunni þegar hún vígðist, en hún var 113. konan í hópi vígðra kvenna og vígðist árið 2022.

Afar áhugavert var að heyra í þessum konum og ákafar umræður sköpuðust eftir hvert erindi og lá mörgum konum ýmislegt á hjarta varðandi reynslu sína af störfum innan kirkjunar.

Eftir ráðstefnuna bauð Félag prestsvígðra kvenna í kaffi og súkkulaðiköku í safnaðarheimilinu.

Að því loknu var gengið til guðsþjónustu Kvennakirkjunnar í Háteigskirkju þar sem prestsvígðrar konur klæddust hempum.

Fjölmargar konur tóku þátt í helgihaldinu og Auður Eir flutti ógleymanlega prédikun.

 

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar bæði á laugardag í Vídalínskirkju og á sunnudag í Háteigskirkju.


slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

Forseti Íslands flytur hugvekju

Forseti fjallaði um áskoranir í lífi ungs fólks

14. okt. 2024
...á kirkjudegi í Bessastaðasókn
Hofskirkja í Vopnafirði

Laust starf sóknarprests við Hofsprestakall

14. okt. 2024
...auk þess tímabundin afleysing á Þórshöfn
Guðrún biskup í ræðustól

Biskup Íslands í Prag

11. okt. 2024
...á Evrópufundi Lútherska heimssambandsins