Laust starf sóknarprests við Hofsprestakall

14. október 2024

Laust starf sóknarprests við Hofsprestakall

Hofskirkja í Vopnafirði

Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi.

Tímabundinn afleysing í Þórshafnarsókn, Langanesprestakalli fylgir og er unnin í samstarfi við prófast Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis.

Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Hofsprestakall

Í Hofsprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi eru þrjár sóknir, Vopnafjarðarsókn, Hofssókn og Skeggjastaðasókn.

Heildarfjöldi íbúa er 755 og þar af eru sóknarbörn 502.

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 698 4958 eða á netfangið sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni, s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 28. október 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Þjóðkirkjan hvetur öll kyn til að sækja um starfið.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Þarfagreining fyrir Hofsprestakall í Vopnafirði

Í Hofsprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi eru þrjár sóknir, hver með sína sóknarkirkju. Vopnafjarðarsókn og Hofssókn sem tilheyra Vopnafjarðarhreppi og Skeggjastaðasókn sem tilheyrir Langanesbyggð.

Vopnafjarðarsókn er stærst, með 557 íbúa og þar af 384 í þjóðkirkjunni.

Vopnafjarðarkirkja var vígð 1903 og stendur í hjarta bæjarins.

Þar er safnaðarheimili með góðri aðstöðu fyrir safnaðarstarf.

Þar er skrifstofa sóknarprests, aðstaða fyrir organista, eldhús, samkomusalur og viðtalsherbergi.

Messur eru um 18 á ári.

Safnaðarstarf prestakallsins fer að mestu fram í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju.

Við Vopnafjarðarkirkju er kirkjuvörður í 20% starfshlutfalli og organisti starfar við bæði Vopnafjarðar- og Hofskirkju.

Öflugt kórastarf hefur verið starfrækt við báðar kirkjur.

Á Vopnafirði er grunnskóli, leikskóli og framhaldsskóladeild auk tónlistarskóla.

Þar er heilsugæsla og hjúkrunarheimilið Sundabúð.

Sóknarprestur starfar með innviðum sveitafélagsins og í samstarfi við íþróttafélagið Einherja og aðra aðila sem koma að tómstundum barna.

Hofssókn er næst stærst með 121 íbúa, þar af 83 í þjóðkirkjunni.

Hof er fornt höfðingja, kirkju og prestssetur.

Hofskirkja var vígð 19. desember 1901 en á Hofi hefur verið kirkja frá því á miðöldum.

Við Hofskirkju stendur nýbyggð safnaðarstofa sem nýtist söfnuðinum.

Lögð hefur verið áhersla á uppbyggingu Hofs sem sögustaðar undanfarin ár og reiknað er með því að nýr sóknarprestur taki þátt í þeirri uppbyggingu.

Á Hofi er prestsetur sem stendur sóknarpresti til boða.

Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, það er byggt 1934 en hefur verið vel við haldið.

Húsið er á þremur hæðum með stóran sólpall og útsýni út dalinn.

Hlunnindi af jörðinni renna til Þjóðkirkjunnar, en sóknarprestur hefur haft umsjón með hlunnindagæslu jarðarinnar, þar á meðal veiðihlunninda Hofsár og rjúpnaveiði í landi Hofs.

Í Hofskirkju er messað um það bil sex sinnum á ári en þar fara fram athafnir reglulega.

Skeggjastaðasókn í Bakkafirði er minnst með 75 íbúa, þar af 35 í þjóðkirkjunni.

Skeggjastaðakirkja er elsta timburkirkja á Austurlandi, byggð árið 1845.

Kirkjan stendur við gamla prestsetrið á Skeggjastöðum sem nú er í útleigu.

Söfnuðurinn hefur aðgang að kjallara hússins þar sem munir safnaðarins eru geymdir.

Messað er á Skeggjastöðum á stórhátíðum en þar fara einnig fram athafnir reglulega.

Umfang þjónustunnar:

Áhersla er á barna- og unglingastarf.

Mikil áhersla hefur verið á það seinustu nítján ár og er það ósk safnaðanna að því starfi verði viðhaldið.

Sóknarprestur sinnir sálgæslu við sóknarbörn í sorg og gleði og aðstoðaðar lögreglu, heilsugæslu og skólakerfið í málum sem krefjast aðkomu sálgæslu.

Sóknarprestur hefur viðveru og mánaðarlegar helgistundir á hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði og sinnir sálgæslu við íbúa þar.

Sóknarprestur þarf að vera sjálfstæður í störfum sínum og hafa frumkvæði að nýjungum í safnaðarstarfi og helgihaldi.

Sóknaprestur hafi vilja til þess að tengjast sóknarbörnum sínum og taka þátt í samfélaginu.

Mikilvægt er að sóknarprestur sé með bílpróf og hafi aðgang að bíl þar sem um fjallvegi er að fara milli sókna.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af Vopnafjarðarkirkju og Skeggjastaðakirkju.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prestsbústaðir

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Sr. Árni Þór Þórsson

Sr. Árni Þór ráðinn

01. nóv. 2024
...prestur innflytjenda
Sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir

Sr. María ráðin

01. nóv. 2024
...í Reykholtsprestakall
Lindakirkja

Afleysing prests í Lindaprestakalli

01. nóv. 2024
...auglýst laus til umsóknar