Aðventuhátíðir um allt land

29. nóvember 2024

Aðventuhátíðir um allt land

Barokkbandið Brák

Fyrsti sunnudagur í aðventu er á sunnudaginn, þann 1. desember.

Þá verður mikið um dýrðir í kirkjum landsins og gott að fylgjast með því hvað um er að vera í heimakirkjunni á heimasíðum kirknanna.

Þegar samfélagsmiðlar eru skoðaðir má sjá ótrúlega fjölbreytni í því sem fram fer í kirkjunum.

Í Hallgrímskirkju í Reykjavík eru á sunnudaginn tónleikar, sem nefndir hefa verið Bach á aðventunni.

Á sunnudaginn kl. 17:00 verða flutt verk eftir J.S. Bach; einsöngskantata, einleikskonsert á sembal og kantata fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara.

Leikið verður á upprunahljóðfæri í barokkstillingu en Hallgrímskirkja hefur um árabil verið leiðandi í flutningi barokktónlistar á upprunahljóðfæri á Íslandi.

Flytjendur verða:

Barokkbandið Brák

Alfia Bakieva, konsertmeistari

Kór Hallgrímskirkju

Steinar Logi Helgason, stjórnandi

Halldór Bjarki Arnarson, einleikari á sembal

Einsöngvarar verða Harpa Ósk Björnsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Bragi Bergþórsson og Fjölnir Ólafsson.

Svanhildur Óskarsdóttir segir í frétt frá Hallgrímskirkju:

„Verkin þrjú sem hljóma á þessum tónleikum samdi Johann Sebastian Bach (1685–1750) í Leipzig en þangað fluttist hann ásamt konu og börnum vorið 1723 til þess að taka við kantorsstöðu við Tómasarkirkjuna.

Fjölskyldan kom sér fyrir í rúmgóðri íbúð í skóla kirkjunnar og Bach tók til óspilltra málanna við að skipuleggja starfið framundan.

Hann hafði með höndum kennslu við skólann og sá einnig um tónlistarflutning við fjórar kirkjur í borginni.

Þeir skólapiltar sem bjuggu á heimavist í Tómasarskólanum fengu mat sinn og húsaskjól gegn því að syngja við guðsþjónustur og aðrar athafnir í kirkjunum.

Bach tók þjálfun þessara ungu tónlistarmanna strax föstum tökum, því þeir skyldu ráða við flutning verka hans sem voru talsvert meira krefjandi en þá tíðkaðist yfirleitt í kirkjum landsins.

Í Leipzig setti Bach sér það verkefni að semja kantötur til flutnings á öllum sunnudögum og hátíðum kirkjuársins, nema á föstutímum þar sem látlausari tónlist var höfð um hönd.

Þessar tónsmíðar áttu sinn stað í guðsþjónustunni milli guðspjalls og prédikunar og eru samdar fyrir söngvara og hljómsveit.

Yfirleitt skiptist söngurinn milli kórs og einsöngvara en Bach samdi einnig kantötur þar sem aðeins er gert ráð fyrir einum söngvara eða tveimur.

Um hljóðfæraleikinn sá bæjarbandið í Leipzig, u.þ.b. tugur fjölhæfra tónlistarmanna sem þáðu laun frá borginni, en þegar kraftar þess hrukku ekki til sótti Bach liðsstyrk meðal stúdenta háskólans og hljóðfæraleikara í hljómsveit tónlistarfélags borgarinnar, Collegium musicum.

Hljómsveitin var vettvangur veraldlegrar tónsköpunar og hélt vikulega tónleika á einu stærsta kaffihúsinu í bænum þar sem hljómuðu bæði söngverk og hljóðfæramúsík.

Bach varð fljótlega forsprakki þessa félagsskapar og þar voru ýmsir konsertar hans fluttir, meðal annars röð sembalkonserta.

Það var alsiða á tímum Bachs að tónskáld endurnýttu tónhugmyndir og jafnvel heila kafla úr verkum og í sembalkonsertunum bregður stundum fyrir efni sem einnig hljómar í kantötum hans.

Það voru því fráleitt skörp skil milli þeirra verka sem Bach ætlaði til flutnings í kirkju annars vegar og á kaffihúsi hins vegar og undir þau öll ritaði hann orðin Soli Deo Gloria - Guði einum til dýrðar.

Kantötur Bachs hafa verið nefndar óperur sálarinnar og það er auðskilið þegar hlustað er á sólókantötuna Jauchzet Gott in allen Landen - Fagnið fyrir Guði í öllum löndum BWV 51.

Hún útheimtir óhemju færni af hálfu einsöngvarans og ótrúlegt að hugsa sér að skólapiltur hafi valdið því hlutverki á dögum Bachs sem þó hefur væntanlega verið tilfellið.

Trompethlutverkið er ekki síður virtúósískt og bæði flúrsöngurinn og hljóðfærapartarnir sýna að Bach þekkti vel til í heimi barokkóperunnar.

Upphafsþátturinn er sannkölluð gleðisprengja þar sem trompet og einsöngvari kasta á milli sín flúrlínum lofsöngsins.

Sönglesið og arían sem á eftir fylgja mynda síðan áhrifamikið mótvægi því þau eru full af auðmýkt og innileika.

Söngvarinn minnir okkur á að „þótt magnlítill munnur hljóti að stama“ geti „jafnvel fáfengileg lofgjörð“ fallið Drottni í geð og í aríunni er lögð áhersla á þakklæti til Guðs fyrir gæsku hans og föðurtryggð.

Sálmalagið Sei Lob und Preis mit Ehren - Lof sé og dýrð með háum heiðri, sem er lofgjörð til heilagrar þrenningar, syngur einsöngvarinn við listilega fléttaðan undirleik strengja og sembals og í lokaaríunni snýr trompetinn aftur og krýnir glæsilegan Hallelúja-söng.

Sembalkonsertinn í d-moll BWV 1052 er meðal þeirra konserta sem frumfluttir voru af Collegium musicum í Leipzig á árunum um og upp úr 1730.

Þeir sættu nokkrum tíðindum því fólk átti því ekki að venjast að semballinn væri í einleikshlutverki með hljómsveit að baki sér; algengara var að heyra hann styðja á hógværan en ómissandi hátt við laglínuhljóðfærin.

Það sýndi sig þó í meðförum Bachs að hljóðfærið átti fullt erindi upp á dekk.

Sembalkonsertarnir eru allir umritanir á konsertum fyrir önnur hljóðfæri, oftast fiðlu eða óbó.

Það er ekki vitað fyrir hvaða hljóðfæri d-moll konsertinn var hugsaður áður en sembalgerðin varð til; stungið hefur verið upp á fiðlu eða orgeli.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því allir þrír þættir verksins voru upphaflega samdir fyrir kantötur.

Þeir fyrri tveir hljóma í kantötu BWV 146 og lokaþátturinn er upphafskafli kantötu BWV 188 — í báðum tilvikum fer orgel með sólópartinn. Með því að setja þessa þrjá þætti saman í einleikskonsert skapaði Bach volduga heild.

Útþættirnir eru kröftugar ritornello-smíðar þar sem upphafsstef snýr aftur í nýrri og nýrri tóntegund á milli þess sem einleikarinn leikur listir sínar.

Miðjuþátturinn hefst á því að hljómsveitin og semballinn kynna saman bassalínu sem er síðan endurtekin undir öllu því sem á eftir fer. Ofan á þessum bassa fær einleikshljóðfærið frelsi til þess að kanna tónefnið með ómældu flúri og skreytingum.

Bach og a.m.k. tveir synir hans voru miklir spunameistarar á hljómborðið og konsertinn veitir einleikaranum svo sannarlega tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Kantatan Nun komm der Heiden Heiland - Komin er vor eina von BWV 62 var samin á öðru ári Bachs í Leipzig og frumflutt fyrsta sunnudag í aðventu 1724.

Hryggjarstykkið í henni er gamall aðventusálmur sem á íslensku birtist fyrst í Hólabókinni 1582 og byrjar þar svo:

„Nú kom heiðinna hjálparráð, helgasta þetta meyjar sáð“.

Fyrsta erindi sálmsins hljómar í forleiknum þar sem sópranar syngja laglínuna - cantus firmus, en hinar kórraddirnar kasta á milli sín bútum úr henni sem Bach leikur sér með á alls konar máta.

Líkt og prédikun er útlegging á guðspjallstexta má segja að Bach útleggi sálminn í tónlistinni:

Undrun og gleði mannkyns yfir komu frelsarans er túlkuð í dansandi línum bæði kórs og hljóðfæra.

Að forleiknum loknum koma einsöngvararnir til skjalanna og túlka texta sem er vandlega hugsað framhald af sálmversinu um komu frelsarans.

Tenórinn býður okkur, í aríu sinni, að tigna þetta mikla undur er Drottinn birtist meðal manna.

Bassasöngvarinn tekur síðan við og hyllir kraft frelsarans sem kominn er til að umbreyta veikleika okkar í sigurstyrk eins og segir í textanum.

Það er undursamlegt að þessi kraftur skuli búa með reifabarni í jötu, en þangað leiða sópran og alt okkur, í tvísöng sem fagnar sigri ljóssins yfir myrkrinu, áður en allir flytjendur sameinast í lokaerindi aðventusálmsins.“


Barokkbandið Brák og Kór Hallgrímskirkju munu einnig flytja hluta efnisskrárinnar í útvarpsmessu á tónleikadegi, fyrsta sunnudag í aðventu 1. desember kl. 11.00.

Sjá myndir af flytjendum tónlistarinnar hér fyrir neðan.


slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Leikskólabörn í Egilsstaðakirkju

Mikil ánægja með skólaheimsóknir á aðventunni um allt land

13. des. 2024
...bæði í kirkjum og skólum
Liljuhafar í Egilsstaðakirkju-sjá nöfn í frétt

Glaðir Liljuhafar

13. des. 2024
...á Héraði
Jólagleði salurinn.jpg - mynd

Einlæg vinátta verður til

12. des. 2024
...á jólagleði Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma