Ályktanir presta- djáknastefnu 2025

Presta- og djáknastefnu ársins 2025 lauk í gær en hún var sett í Seltjarnarneskirkju á mánudaginn s.l. Áberandi á dagskrá stefnunnar að þessu sinni voru umræður og vinnnustofur um vinnu Handbókanefndar og efnt var til umræðu um hempuna. Ný heimasíða var kynnt viðstöddum auk þess sem Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ’78 ávarpaði stefnuna.
Í lok stefnunnar voru eftirfarandi ályktanir jafnframt samþykktar, og eru þær birtar hér í heild sinni.
Ályktun 1:
Presta- og djáknastefna haldin í Seltjarnarneskirkju 28.-30. apríl 2025 hvetur íslensk stjórnvöld eindregið til að sýna öllum börnum og unglingum samstöðu og mannúð og taka af mildi og miskunnsemi á málum allra þeirra barna er eiga allt sitt undir ákvörðunarvaldi íslenskra stjórnvalda.
Vígðir þjónar Þjóðkirkjunnar lofa í vígsluheiti sínu að standa vörð um börn og unglinga, styðja, hjálpa, styrkja og þjóna bágstöddum og þeim er minna mega sín. Vígsluheitið er byggt á orði Drottins en bæði í Gamla- og Nýja testamentinu er að finna kröfu um kærleika til alls fólks óháð þjóðerni, kyni, efnahag eða nokkru því er mismunað getur fólki.
Tvöfalda kærleiksboðorðið er mikilvægur grundvöllur sem Jesús kenndi og öll ungmenni læra í fermingar- og skírnarfræðslu: „Þegar farísear heyrðu að Jesús hafði gert saddúkea orðlausa komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi reyna hann og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt. 22.34-40)
Íslensk stjórnvöld eru hvött til þess að ígrunda fordæmi ákvarðana sinna gagnvart öllum börnum og unglingum er vaxa og dafna á Íslandi. Nú sem aldrei fyrr ríður á að kærleika, fyrirgefningu, miskunnsemi og náð verði sáð í hjörtu allra landsmanna.
Presta- og djáknastefna lýsir yfir samstöðu með þeirri fjölskyldu sem hefur tekið drenginn Oscar Anders Florez Bocanegra að sér, veitt honum heimili og vill leiða hann í ástríku uppeldi til bjartar framtíðar hér á Íslandi. Presta- djáknastefna tekur undir þá bón þeirra um að hann fái dvalarleyfi/landvistarleyfi hér á landi.
Ályktun 2:
Presta- og djáknastefna 2025 haldin í Seltjarnarneskirkju 28.-30. apríl beinir því til biskups Íslands og kirkjuþings að gerð verði úttekt á barna- og unglingastarfi innan kirkjunnar og í framhaldinu verði farið í átak til að efla starfið í samstarfi við æskulýðssamböndin og svæðisstjóra æskulýðsmála.
Ályktun 3:
Presta- og djáknastefna, haldin í Seltjarnarneskirkju í apríl 2025, lýsir yfir verulegum áhyggjum af stöðu vígðrar þjónustu á landsbyggðinni.
Undanfarin ár hefur víða verið skorið niður í prestsþjónustu á landsbyggðinni, og loforð um að stöðugildum yrði ekki fækkað við sameiningu prestakalla hafa verið svikin. Þá hefur reynst erfitt að manna auglýst prestsstörf á landsbyggðinni, sem hefur óhjákvæmilega leitt til skertrar þjónustu við sóknarbörn og aukins álags á starfandi þjóna. Stefnan hvetur biskup Íslands til þess að bregðast við stöðunni eins og unnt er og tryggja þjónustu þjóðkirkjunnar um land allt í samræmi við mannauðsstefnu hennar.
Einnig skorar presta- og djáknastefna á Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands að koma á fjölbreyttari námsleiðum, þar á meðal fjarnámi, til að auðvelda fólki að stunda nám í guðfræði óháð búsetu.