Í þjónustu við heimskirkjuna

Þann 1. september s.l. tók sr. Árni Svanur Daníelsson við nýrri stjórnendastöðu á skrifstofu framkvæmdastjóra Lútherska heimssambandsins í Genf.
Þessi nýja staða varð til við skipulagsbreytingar í höfuðstöðvum heimssambandsins. Frá og með þessum tíma mun skrifstofa framkvæmdastjórans halda utan um tengsl við kirkjur og aðrar kirkjudeildir og leiða samhæfingu og skipulag á sviði samskipta, fjármála, mannauðsmála og áætlanagerðar. Stjórn heimssambandsins tók ákvörðun um þessar breytingar á fundi sínum í Addis Ababa, Eþíópíu, í júní síðastliðnum. Próf. Arnfríður Guðmundsdóttir á sæti í stjórninni fyrir hönd þjóðkirkjunnar og er jafnframt varaforseti sambandsins á Norðurlöndunum.
„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að takast á við þetta verkefni næsta árið. Við erum að leiða saman tvö teymi og það liggur mikið við að vel takist til. Verkefnin sem eru fram undan eru bæði nátengd og frábrugðin því sem ég hef gert á undanförnum árum,” sagði sr. Árni Svanur í samtali við kirkjan.is. „Á þessu ári byrjuðum við að vinna eftir nýrri stefnu sem setur vonina á oddinn. Við erum líka að hefja undirbúning fyrir næsta heimsþingi Lútherska heimssambandsins sem verður í Ágsborg í Þýskalandi 2030,” bætti hann við. „Þetta er tímabundin ráðning, til eins árs og svo sjáum við til hvað framtíðin ber í skauti sér.”
Sem skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmdastjóra mun sr. Árni Svanur leiða samhæfingu og skipulag. Hann mun áfram sitja í framkvæmdastjórn heimssambandsins og mun starfa náið með sr. Anne Burghardt, framkvæmdastjóra sambandsins.
Frá 2016 hefur sr. Árni Svanur starfað sem samskiptastjóri Lútherska heimssambandsins. Í því starfi tók hann þátt í að undirbúa viðburði vegna 500 ára afmælis siðbótarinnar í Lundi og Malmö árið 2016, þar sem Frans páfi og leiðtogar Lútherska heimssambandsins minntust siðbótarinnar saman og lögðu drög að nánara samstarfi lútherskra og rómversk kaþólskra á sviði hjálparstarfs og þróunaraðstoðar. Hann tók einnig þátt í að undirbúa heimsþing sambandsins í Windhoek í Namibíu árið 2017 og í Kraká í Póllandi árið 2023.
Sr. Árni Svanur er kvæntur sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur, sóknarpresti í Skálholti. Þau eiga sex börn, tvo ketti og einn hund.
Lútherska heimssambandið leiðir saman 154 lútherskar kirkjur í 99 löndum sem saman telja meira en 78 milljón meðlimi. Það vinnur umfangsmikið starf á sviði guðfræði, kirkjutengsla, leiðtogaþjálfunar, samkirkjumála og hjálparstarfs og er málsvari réttlætis og friðar. Þjóðkirkjan hefur verið meðlimur Lútherska heimssambandsins frá stofnun þess árið 1947.