Kirkjuþing: Ný stjórn Þjóðkirkjunnar kjörin, ný prestaköll og ályktað um sóknargjöld

Eins og sagt var frá á kirkjan.is var 67. kirkjuþing sett nýliðna helgi og stóðu þingfundir fram á þriðjudag s.l. Þingstörf hófust á skýrslu biskups og umræðum þar um. Biskup lýsti yfir áhyggjum af fjárhag sókna í skýrslu sinni, og tók allsherjarnefnd undir þær áhyggjur í nefndaráliti sínu. „Kirkjuþing lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu sókna landsins í ljósi skerðingar á sóknargjöldum samkvæmt framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar,“ segir m.a. í álitinu.
Þar segir jafnframt: „Með hliðsjón af orðum dómsmálaráðherra í ávarpi hennar við setningu kirkjuþings í Dómkirkjunni, þar sem hún lýsti efasemdum um að breyting yrði gerð á þessum lið frumvarpsins, hvetur kirkjuþing Alþingi eindregið til að taka málið til skoðunar og leiðrétta þá skerðingu sem orðið hefur á sóknargjöldum á undanförnum árum.
Skerðingin hefur þegar haft veruleg áhrif á starfsemi og starfsmannahald safnaðanna og einnig á nauðsynlegt viðhald kirkjubygginga vítt og breytt um landið.“
Kirkjuþing samþykkti jafnframt undir lok þingstarfa eftirfarandi ályktun:
Kirkjuþing lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við þjóðkirkjusöfnuðum um allt land ef ekki kemur til veruleg hækkun á sóknargjöldum fyrir næsta ár. Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að sóknargjöld verði enn á ný skert sem mun hafa veruleg áhrif á fjárhag sókna landsins.
Ljóst er að þjóðkirkjan gegnir mikilvægu andlegu, félagslegu og menningarlegu hlutverki í samfélaginu með öflugri starfsemi fyrir fólk á öllum aldri. Skerðing á sóknargjöldum mun hafa bein áhrif á þjónustu kirkjunnar í nærsamfélaginu. Kirkjuþing skorar á stjórnvöld að hækka sóknargjaldið fyrir næsta ár og minnir á að samkvæmt lögum um sóknargjöld ætti gjaldið að vera kr. 2765 á mánuði.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 var lögð fram og samþykkt af kirkjuþingi. Þá voru samþykktar tvær tillögur biskupafundar um breytt skipulag prestakalla. Mosfells- og Reynivallaprestakall verða að nýju sameinuðu prestakalli sem fær nafnið Esjuprestakall. Tilheyra Brautarholts-, Lágafells og Reynivallasóknir þessa nýju prestakalli.
Þá munu þrjú prestaköll í Borgarfirði, Borgar-, Reykholts- og Stafholtsprestaköll, verða að Borgarfjarðarprestakalli. Báðar breytingarnar taka gildi 1. janúar n.k. Kirkjuþing samþykkti jafnframt breytingu á nafni Patreksfjarðarprestakalls, sem heitir nú Vesturbyggðarprestakall.
Stjórn Þjóðkirkjunnar var kjörin á kirkjuþingi og er hún kjörin til haustsins 2026. Aðalmenn í stjórn úr röðum leikmanna eru Árni Helgason, Einar Már Sigurðarson og Rúnar Vilhjálmsson sem jafnframt var endurkjörin formaður stjórnar. Varamenn þeirra eru Anna Guðrún Sigurvinsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Aðalmenn úr röðum vígðra þjóna í stjórninni eru sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Þuríður Björg W. Árnadóttir. Varamaður þeirra er sr. Guðni Már Harðarson.
Hægt er að sjá öll mál sem liggja fyrir kirkjuþingi og skoða upptökur af umræðum frá þinginu hér.


