Kindur eru ekki heimskar

Kindur eru ekki heimskar

En rollur eru ekki heimskar, þær eru bara dæmalaust sjálfhverfar og agalausar, það er fátt sem reynir meira á þolinmæðina en að reka fé af fjalli, stjórnlaust hleypur það undan manni og getur jafnvel fremur valið að steypast fram af bjargbrún en að fylgja vegi smalans. En það orsakast ekki af heimsku heldur sjálfskaðandi þrjósku og vantrú.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
18. apríl 2010
Flokkar

Það var ekki oft sem ég sá föður minn skipta skapi þegar ég var barn, það gerðist þó helst þegar hann hljóp á eftir rollum sem höfðu í þingeyskri ósvífni sinni læðst niður í kartöflugarðana í Laufáshólmunum og rótað upp dýrindis uppskeru af blóðrauðum kartöflum, til þess eins að sýna fram á að þær væru réttbornir erfingjar þessa land. Þá sá ég gjarnan undir hælana á þéttvöxnum föður mínum þar sem hann hreinlega hoppaði af stað jafn rauður og kartöflurnar í framan og beitti jafnvel sínum svæsnasta orðaforða á hlaupunum, sem hljómaði eitthvað á þessa leið, “fjárans rollurnar”. Ég man líka eftir sjálfsmyndarkreppu íslenska fjárhundsins okkar sem hét Plokkson eftir gömlum hershöfðingja, sá vildi að sjálfsögðu standa undir nafni en um leið og rolluskjáturnar höfðu skynjað viðkvæmt sálarlíf hans sem bjó að baki voldugu geltinu, tóku þær að snúast gegn honum og jafnvel höggva til hans, þ.e.a.s þær hyrndu og svo jörmuðu þær hæðnislega þegar hann lagði niður eyrun og skottið og hljóp ýlfrandi heim. Síðan þá hef ég átt mjög erfitt með að sjá myndina af góða hirðinum með bústnu, sætu lömbin, í rómantísku ljósi. Meira að segja amerísku ljósgeislamyndirnar sem ég fékk í sunnudagaskólanum á Grenivík vöktu með mér gremju en líka samúð með Jesú þar sem hann stóð svo ástríkur og gefandi mitt í þessum stygga félagsskap sauðfésins, ég er nefnilega ekki tilbúin að trúa því að þingeyska sauðféið hafi verið eitthvað verra en það ameríska a.m.k á ég erfitt með að trúa því að ameríska jarmið hafi hljómað betur í eyrum. En rollur eru ekki heimskar, þær eru bara dæmalaust sjálfhverfar og agalausar, það er fátt sem reynir meira á þolinmæðina en að reka fé af fjalli, stjórnlaust hleypur það undan manni og getur jafnvel fremur valið að steypast fram af bjargbrún en að fylgja vegi smalans. En það orsakast ekki af heimsku heldur sjálfskaðandi þrjósku og vantrú. Sauðfé hefur alltaf verið sauðfé, hvort sem litið er aftur til Palestínu árið 33 eftir Krist eða þingeyjarsýslu árið 2010. Það skyldi þó ekki vera að Jesú hafi þótt gæta ákveðinna líkinda með mannskepnunni og sauðféinu? Við vitum að öll hans orð, líkingar og dæmisögur voru fylltar merkingu svo djúpri raunar að hún verður ótæmandi uppspretta sjálfsskoðunar mann fram af manni og öld fram af öld. Það voru engar tilviljanir í orðavali Jesú: “Ég er góði hirðirinn, góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina, leigliðinn sem ekki er hirðir og ekki á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim af því að hann er leiguliði og honum er ekki annt um sauðina.” Atburðir páskana færa sönnur á þessi orð frelsarans, hann lagði einmitt líf sitt í sölurnar fyrir sauðina, hann fleygði sér í gin úlfsins svo sauðirnir mættu lifa og njóta uppskerunnar, auðlindanna, fegurðarinnar og friðarins sem fórnin veitti.

Við erum eign Guðs, í þeirri staðreynd felst hin eilífa von okkar, ljósgeislamyndirnar varpa ekki raunsannri birtu á þá þjáningu og það erfiði sem Kristur lagði á sig svo við mættum lifa farsælu lífi, þær eru vissulega saklausar glansmyndir gerðar til að sveipa guðspjöllin ævintýraljóma, en veruleiki hirðisins er nístandi sár og kaldur, einkum þegar lömbin taka að stökkvað af stað í sitthvora áttina, tvístruð af úlfinum sem býr í hjarta leiguliðans. En við erum eign Guðs, það sannar krossinn hér og nú og um ókomna tíð og ekkert fær því breytt, þess vegna mun úlfinum aldrei takast að tvístra svo sauðunum að þeir rati aldrei heim, Guði sé lof fyrir það. Og svo afhjúpar Guð leiguliðann aftur og aftur þangað til að sannleikurinn gerir okkur frjáls. Um leið og lóan sneri heim og söng vorið inn í gróður jarðar opinberaðist þjóðinni sannleikurinn um sjálftökuféið og agalausu hjörðina sem var tilbúin að steypast fram af bjargbrúninni við að gæta eigin hagsmuna. Og nú liggur sannleikurinn fyrir, svart á hvítu í bókstaflegri merkingu og við erum fegin, líka undrandi, á vissan hátt yfirgengin en mest af öllu fegin að fá sannleikann upp á yfirborðið og geta rætt staðreyndir en ekki getgátur, geta rætt afdrifarík en líka lærdómsrík mistök, geta gert upp fortíð sem fæst okkar langar til að lifa aftur, jafnvel þó henni hafi verið gefið nafnið góðæri sem í raun er rangnefni, því góðæri er eitthvað sem vísar til gæða og hugtakið gæði á við um innihaldsríkt líf sem borið er uppi af jöfnuði, virðingu og samvinnu. Við lestur á áttunda hefti skýrslunnar sem fjallar um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna hjó ég eftir gríðarlega innihaldsríkri setningu sem fangar að mínu mati rót vandans en þar segir orðrétt á blaðsíðu 10: “Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta að viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óháð því hvert það er.” (Salvör Nordal, Kristín Ásgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason, 2010) Af þessu má ráða að tæknileg hugsun hafi ráðið för í stjórnun fjármálakerfisins og gæðin hafi fyrst og síðast verið metin eftir fjárhæðum. Þetta vekur mann líka til umhugsunar um viðbrögð samfélagsins, spegla þau afstöðu til gæða eftir fjárhag eða siðferði, ef enginn þjóðfélagsþegn hefði tapað fjármunum við fall bankanna, hefði þá reiðin verið jafn mikil og raun ber vitni, hefði búsáhaldabyltingin átt sér stað eða hefðum við látið okkur fátt um finnast? Þetta þurfum við hvert og eitt að skoða í hjarta okkar. En hefurður skoðað myndirnar framan á rannsóknarskýrslunni? Það eru einmitt nokkurs konar ljósgeislamyndir, draumkenndar myndir af íslenskri náttúru, fagurri , friðsælli og ósnortinni, og þegar þú handleikur hvert hefti án þess að lesa innihaldið þá gæturðu sem næst haldið að inntakið væri saklaust og gott, mannvænlegt og heilbrigt, að vísu er hvorki að finna bústið sauðfé né sællega menn á myndunum en engu að síður gjöfult land í ævintýralegum ljóma. Og svo flettir maður skýrslunni og sér að þetta fallega land hefur fóstrað marga leiguliða sem sauðirnir hafa treyst, treyst fyrir vetrarforða sínum og öruggu skjóli.

Jesús sagði eitt sinn við lærisveina sína að það væri á engan hátt aðdáunarvert að elska sína nánustu, það væri bara sjálfsagt og krefðist engrar fyrirhafnar, það gerðu tollheimtumenn sem og aðrir er ekki rækjust vel í samfélaginu. Aðal áskorun hins kristna manns er að elska mannkynið, finna sig vera hluta af heild, einum líkama, einu hjarta, finna í alvörunni til samhygðar með öðrum í erfiðleikum þeirra eða þjáningum og leita leiða til að gera líf þeirra bærilegra, en líka að gleðjast af einlægni yfir sigrum annarra og líta á þá sem sameiginlega gjöf, stundum er nefnilega meiri áskorun að vera vinur í gleði en raun. Vera áhugsamur um náungann, forvitinn, langa til að vita hvað manneskjan við hlið þér er að ganga í gegnum, ef vera kynni að þið gætuð deilt reynslu og létt hvor annarri lífið. Vera áhugasamur af umhyggju og löngun til að bæta sjálfan sig sem manneskju. Jesús leggur einmitt áherslu á þetta í guðspjallinu þar sem hann segir: “Ég á líka aðra sauði, sem ekki eru úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.” Nú þegar við horfum fram á veginn og hefjumst handa við að móta samfélagið eftir raunverulegum, lífgefandi gildum sem hafa fylgt okkur í meira en 1000 ár, þá eru það þessi orð frelsarans sem við skulum grópa í vitund okkar og hjartalag, já ein hjörð, einn hirðir. Það er engin tilviljun að siðfræðingar hafi verið kallaðir til að vinna að rannsókn efnahagshrunsins því eins og áður hefur komið fram þá liggur rót vandans í siðferðislegum viðmiðum og gildum sem mynduðu skakkann samfélagsgrunn er að lokum hrundi. Eitt af þessum viðmiðum fólst í misskilningi á málshættinum gamla, “hver er sinnar gæfu smiður” kannski fólst misskilningurinn þar í túlkuninni á orðinu gæfa, hvað það merkir að vera gæfusamur. Er það að koma ár sinni vel fyrir borð, eiga meira en nóg fyrir sig og sína nánustu, mikið meira en nóg eða er gæfusamur maður sá sem leitar leiða til að stuðla að hamingju annarra, um leið og sinni eigin? Þeir sem hafa komist í kast við lögin með afdrifaríkum afleiðingum fyrir aðra eru gjarnan kallaðir ógæfumenn, þeir eru ógæfusamir af því að þeir hafa skert lífsgæði annarra og um leið eigin, jafnvel þó þeir hafi á einhvern máta hagnast á því um stund, sá sem brýst inn á heimili og rænir eigum annarra, hagnast vissulega um stund en er um leið ógæfumaður vegna skaðans sem hann veldur sér og þeim sem tapar eigunum, hið sama gildir um þann sem brýst inn í líkama annars manns, sá rænir og tapar um leið. Við erum nefnilega einn líkami, ein þjóð í alheiminum, ein hjörð, við tilheyrum ekki bara hvert öðru heldur eru lífsgæði okkar samofin, já ein hjörð og einn hirðir. Alheimshreyfingin sem við köllum kirkju hefur hirðishlutverki að gegna í veröldinni. Með orðum Jesú Krists, bænasamfélaginu og guðdómlegri nærverunni í sakramentunum býr kirkjan yfir mætti til að sameina tvístraða hjörð og boða von fyrir dauða og upprisu Jesú Krists. Og kirkjan er engin ljósgeislamynd með bústnum lömbum sem hvíla í örmum hennar, kirkjan finnur sér farveg í öllum kimum mannlegrar tilveru, þökk sé andanum heilaga sem blæs þar sem hann vill og leiðir kirkjuna áfram um fjöll og dali, hóla og höf. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.