Gott er að þurfa ekki að vita

Gott er að þurfa ekki að vita

Píratar hafa lagt til lagafrumvarp á Alþingi um að afnema 5. grein laga um Kristnisjóð, ákvæðið sem tryggt hefur sóknum Þjóðkirkjunnar “ókeypis lóðir undir kirkjur “sínar og safnaðarheimili í þjettbýli. Þar sem einungis er talað um kirkjur í ákvæðinu gildi ekki um þetta atriði ákvæði stjórnarskrár um stuðning við Þjóðkirkjuna...
fullname - andlitsmynd Geir G Waage
07. október 2016

Píratar hafa lagt til lagafrumvarp á Alþingi um að afnema 5. grein laga um Kristnisjóð, ákvæðið sem tryggt hefur sóknum Þjóðkirkjunnar “ókeypis lóðir undir kirkjur “sínar og safnaðarheimili í þjettbýli. Þar sem einungis er talað um kirkjur í ákvæðinu gildi ekki um þetta atriði ákvæði stjórnarskrár um stuðning við Þjóðkirkjuna.

Nú eru lög þessi um Kristnisjóð. Þau urðu ekki til úr lausu lofti og eru heldur ekki runnin frá stjórnarskrárákvæðinu.

Með lögum frá Alþingi frá árinu 1907 var kirkjum landsins gert að afhenda jarðeignir sínar í umsjá ríkisins, sem tók við fjárhaldi þessara eigna kirknanna. Stofnaður var Prestlaunasjóður í vörzlu ríkisins, sem selja átti og leigja þessar kirkjueignir og kosta af þeim rekstri embættislaun presta. Ekki verða hjer rakin örlög þess sjóðs eða meðferð hans í vörzlu ríkisins, heldur látið nægja að vísa til endanlegs uppgjörs þeirrar meðferðar allrar í samningi ríkis og kirkju frá 1997 sem gera má ráð fyrir að alþingismenn pírata hafi heyrt af.

Nú varðveitti íslenzka ríkið sem fjárhaldari þessara eigna þær eins og það ætti þær sjálft: Seldi og gaf og ráðstafaði nánast með hreinni vildarhyggju í anda pírata. Meðal annars var tekin upp sú venja að afhenda jarðir og önnur landsrjettindi án endurgjalds undir þjettbýli. Mun mikill meirihluti pláza og bæja umhverfis landið hafa risið á landi úr fjárhaldi ríkisins, sem fengið var með þessum hætti fyrir lítið. Örlætisgjörningar bæjarstjórnar Reykjavíkur handa öðrum trúfjelögum en sóknum Þjóðkirkjunnar, hvíla einnig á slíkum örlætisgjörningum ríkisins við Reykjavíkurbæ, því fjölmörg hverfi þar hafa risið á landi úr jarðeignasjóði þeim, sem íslenzka ríkið tók að sjer að varðveita fyrir Þjóðkirkjuna með lögum frá Alþingi árið 1907. Það er að vísu fyrir tíð pírata, en veröldin mun þó jafnvel vera enn eldri.

Ákvæði laganna um Kristnisjóð, sem píratar vilja þakka stjórnarskránni hafa ekkert með hana að gjöra, heldur það samhengi, sem hjer hefur verið lýst: Talið var sjálfsagt að kirkjan nyti þeirra rjettinda að fá að byggja á sinu eigin landi, því fjárhald gefur ekki eignarrjett og þá að minnsta kosti siðferðilega skyldu til þess að gæta hagsmuna þess, sem með rjettu átti það, sem ráðstafað var.

Á bak við lögin um Kristnisjóð eru að minnsta kosti 25 prestsembætti, sem ríkinu bar að kosta skv. lögunum frá 1907, auk jafn margra prestssetursjarða með gögnum og gæðum sem lögð höfðu verið niður um svipað leyti og lögin voru sett. Líta ber á lögin um Kristnisjóð með sama hætti og samkomulag ríkis og kirkju frá 1997 sem lögfest er í þjóðkirkjulögunum: Um er að ræða kaup kaups, afhendingu eigna gegn greiðslu: Greiðslan eru ákvæði laganna um Kristnisjóð, þar með talinn rjettur Þjóðkirkjusafnaða til þeirrar aðstöðu sem. 5. gr. laganna greinir.

Í öndverðum haustmánuði 2016 Geir Waage sóknarprestur í Reykholti

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu