Múrskarðafyllir

Múrskarðafyllir

Oft eru nefndar undirstöðurnar: trú, von og kærleikur. Þessar undirstöður þarf vissuleg að reisa við og fylla í skörð múranna með þessum góða efniviði sem hin kristin gildi geyma og hafa aftur og aftur reynst duga í ólgusjó lífsins. “Þú verður nefndur múrskarðafyllir”, fallegur titill,

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum. Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Mt. 5.43-48

Haustið er gengið í garð. Vonandi höfum við átt gott sumar, já, eins og hægt er á þessum erfiðum tímum. Við getum vonandi einnig horft fram á veginn með jákvæðum hug, tilbúin í að láta gott af okkur leiða, styrkt hvort annað, leitast við að standa saman á tímum endurreisnar og uppbyggingar. Hópurinn sem stóð hér í kórdyrum í dag er dýrmætur, hópur fólks sem hefur verið kallaður til starfa eða boðið sig fram til starfa í Hallgrímskirkju. Mér reiknast til að starfsfólk, sóknarnefnd og aðrar nefndir og stjórnir safnaðarfélaga og kóra auk messuþjóna og kórfólks telji töluvert yfir 200 manns. Í rauninni alveg ótrúleg blessun og gjöf Guðs. Það verðugr spennandi að fá að starfa með ykkur öllum í vetur, ykkur sem viljið mynda þennan söfnuð, en söfnuðurinn eru allir þeir sem hingað leita og vilja eiga hér samfélag. Söfnuðurinn eru þeir sem koma til kirkjunnar sinnar til að syngja, biðja og eiga kærleikssamfélag, samfélag sem gefur af sér, leitar að leiðum til að láta gott af sér leiða. ------------

Lexía dagsins er frábær texti úr Jesajabók, orð sem vissulega passa vel inn í aðstæður okkar í dag. Reyndar er það svo, að mjög margir þessir föstu textar kirkjuársins hafa talað mjög skýrt inn í aðstæður okkar og allrar heimsbyggðarainnar undanfarna mánuði, sem undirstrikar hve Guðsorðið er alltaf nýtt og getur mætt okkur á öllum tímum við allar atstæður. Niðurlag lexíunnar eru orð sem ég staðnæmdist við, þegar ég las texta þessa sunnudags:

Drottinn mun stöðugt leiða þig, seðja þig í skrælnuðu landi og styrkja bein þín. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur. Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir, þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða og þú verður nefndur: múrskarðafyllir, sá sem reisir byggð úr rústum. Jes.58

Drottinn mun stöðugt leiða þig, - þessu megum við trúa og treysta, Drottinn mun stöðugt leiða okkur, hann bregst aldrei.

Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir. Við höfum valið ákveðnar manneskjur til endurreisnarverksins hér á landi, okkar er að standa við bakið á þeim, biðja fyrir þeim og taka á með þeim, m.a. í því að reisa við undirstöður fyrri kynslóða. Hverjar eru þær? - Jú, þær eru m.a. hinar fornu dyggðir, þær eru það sem allir textar þessa sunnudags og allra helgra daga tala um og við þurfum stöðugt að vera að skoða og læra af. Oft eru nefndar undirstöðurnar: trú, von og kærleikur. Þessar undirstöður þarf vissuleg að reisa við og fylla í skörð múranna með þessum góða efniviði sem hin kristin gildi geyma og hafa aftur og aftur reynst duga í ólgusjó lífsins. “Þú verður nefndur múrskarðafyllir”, fallegur titill, sem við viljum vonandi öll bera. Það starfa um 30 múrskarðafyllar við endurreisn kirkjuturnsins þessa dagana og því verki miðar vel, Guð blessi allt það starf. En það eru víðar skörð í múrum samfélagsins, sem við öll erum kölluð til að fylla í og ekki síst á hinu andlega sviði.

Ljóst er að margir taka upp góða siði þessi misserin sem eru skynsamlegir og gefandi á alla lund, þar má nefnda prjónaskap, en á þeim vettvangi hefur orðið eins konar vakning um allt samfélagið. Þá má nefna heimabakstur, sem einnig hefur aukist til muna. En í því sambandi fór ég í vikunni sem leið að hugsa um brauðbakstur. Flest, ef ekki öll, höfum við bakað brauð eða séð brauð bakað frá því að við vorum lítil börn. Þetta er ekki flókið, það eru tekin til nokkur efni, hveiti/heilhveiti, smjörlíki/olía, lyftiduft... Ef maður bragðar á þessum efnum, þá eru þau ekki góð út af fyrir sig, það er ekki gott að setja upp í sig matskeið af hveiti eða heilhveiti, á sama hátt finnst mér ekki gott að setja upp í mig stóra klípu af smjörlíki og japla á því, og ekki er lyftiduftið gott. En þegar búið er að hræra þetta allt saman og hnoða með mjólkurskvettu og ögn af salti, þá verður til deig, - degið er heldur ekki gott, en þegar það er sett inn í ofn, þá líður ekki á löngu þar til ilmurinn fyllir húsið og út kemur brauð sem er alla jafna mjög gott. Í ofninum verður eins konar kraftaverk, umbreyting sem gerir deigið að frábærri fæðu. Vísindamenn gætu eflaust skýrt út einhverja efnabreytingu sem þarna á sér stað, en að brauðið skuli alla jafna verða svona gott, það er erfitt að skýra.

Í þessu sambandi fór ég að hugsa um hvers vegna Jesús notaði iðulega brauð í táknmáli sínu.

Hann sagði:

Ég er brauð lífsins, ég er hið lifandi brauð sem kom niður af himni til að gefa heiminum líf

Jú, brauðið er undirstaðan í fæðu mannanna í þúsundir ára. Á sama hátt er Jesús og það sem hann stendur fyrir undirstaðan í hinu góða lífi sem Kristur kallar okkur til hér á jörð og um alla eilífð.

Þegar Jesús kvaddi lærisveina sína á skírdagskvöld, þá skildi hann ekkert eftir hjá þeim nema brauð og vín, heilaga kvöldmáltíð, sem stöðuglega átti að minna þá á nálægð og blessun hins upprisna. Hann hvatti kirkju sína til þess að koma saman, eiga borðsamfélag um brauð og vín. Þetta var ekki frumlegt, allir þekktu og þekkja gildi máltíðarinnar og hvað máltíðin getur gefið fjölskyldu og vinahópi mikið, næringarlega og ekki síður samfélagslega.

Já, ég leyfi mér að nota líkinguna áfram og minna á hvernig efnin sem hrærð eru saman í brauð-degið eru ekki endilega eitthvað sérstaklega góð, - á sama hátt er það með söfnuðinn. Okkur finnst iðulega að við séum ekkert sérstaklega góð, að við höfum oft afar lítið og lítilförlegt fram að færa, - þá skulum við muna, að það eru einmitt einstaklingar eins og við sem Guð vill nota, hann hefur gefið okkur öllum hæfileika, náðargjafir, sem hann vill nota til uppbyggingar og gleði fyrir samfélagið. Þegar söfnuður kemur saman, þá er hann eins og degið, sem Guð vermir og gerir að ljúffengu brauði, veislubrauði sem gleður, styrkir og blessar. Það er “ilmurinn” af þessu brauði, sem á að draga fleiri og fleiri inn í samfélag kirkjunnar.

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum.

Á dögum Jesú var þetta mjög algeng hugsun, að elska sína en hatast við óvinina, þessi hugsun, þessi lífsstíll hefur verið lífsseigur, þetta er undirstaða illdeilna, styrjalda og hörmunga í gervallri sögu þjóðanna. Jesús barðist gegn þessari vígslverkan haturs og hefnda, hann boðaði kærleika sem átti að umbreyta, sætta og skapa frið, ævarandi frið. Æðsta krafa kærleikans er að elska óvin sinn. Kristur fékk sinn skerf af hatrinu, óvildinni, ofbeldinu, - hann var kraminn og deyddur á krossi, - en hann sigraði dauðann, hann gaf heiminum líf með sér og því sem hann hafði fram að færa.

Við ráðum ekki við kærleiksboðið nema í Jesú nafni, nema með hjálp Guðs. Hann vill snerta okkur, hann vill nota okkur sem verkfæri sín til góðra verka, hann vill gefa okkur styrk og djörfung til að elska, jafnvel óvini okkar.

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.