Sungið fyrir kirkju

Sungið fyrir kirkju

Meðal þátttakenda í söngvakeppninni voru nokkrar ömmur, sem kepptu fyrir hönd Rússlands. Ástæðan fyrir því að þær tóku þátt í keppninni er sú að þær vonast til að safna fé fyrir nýrri kirkju í þorpinu sínu. Þær sömdu lagið sjálfar, það fjallar um að nú skuli gleðjast.
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
27. maí 2012
Flokkar

Það var sungið á ýmsum tungumálum í Bakú í Azerbaijan í síðustu viku þegar söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva fór þar fram.

Sumir þátttakendur sungu á móðurmálum sínum en flestir sungu á ensku, vegna þess að fleiri skilja það tungumál en önnur.
En þegar hlustað er á tónlist þarf maður ekki að kunna hin og þessi tungumál heldur hlusta og upplifa tónlista í huga, hjarta og sál.

Meðal þátttakenda í söngvakeppninni voru nokkrar ömmur, sem kepptu fyrir hönd Rússlands.

Ástæðan fyrir því að þær tóku þátt í keppninni er sú að þær vonast til að safna fé fyrir nýrri kirkju í þorpinu sínu.
Þær sömdu lagið sjálfar, það fjallar um að nú skuli gleðjast.

Eftir einni ömmunni er haft að: „Ömmur hafa ekkert með dýrð eða auð að gera.

Markmið okkar er að reisa kirkjuna."

Ég er reyndar ekki sammála henni með að ömmur hafi ekkert með dýrð eða auð að gera því mörg höfum við fengið í arf ýmsan auð frá ömmum, eins og bænirnar.

Lagið var flutt á Udmurt en það er finnskt-úgrískt tungumál, sem talað er af 500.000 manns.

Þrátt fyrir að fáir þeirra, sem hlustað hafa á þetta lag og séð á skjáunum hafi skilið texta þess þá varð lagið í öðru sæti í úrslitakeppninni í gærkvöldi.

Út af hverju?

Var það vegna þess að flytjendurnir sungu af einlægni og gleði hjartans?

Það gerðu vafalaust aðrir keppendur í gærkvöldi og síðustu kvöld í Bakú.

Leyfðu og leyfa ömmurnar rússneskum heilögum anda að leiða sig áfram?

Það er við hæfi á aðfangakvöldi hvítasunnuhátíðarinnar, hátíð heilags anda að leyfa honum að leiða sig.
___________________

Hver voru takmörk keppendanna í gærkvöldi?

Mörg efalaust, en sennilega var takmark þeirra ekki að safna fé til að reisa kirkju í þorpinu eða bænum sínum.

Orðið kirkja merkir “það sem tilheyrir Drottni” eða “það sem Guð á”.

Kirkjan er heilög, það merkir, frátekin fyrir hinn heilaga, fyrir Guð.

Fyrst og fremst er átt við það fólk, sem Drottinn hefur helgað sér, tekið frá fyrir sig”.

Almenn þýðir að kirkjan nær til alls fólks um víða veröld, og á himni og á jörðu, liðinna kynslóða og ókominna.

Í kirkjunni eiga allir að rúmast, sá sem leitar, sá sem efast, sá sem er trúviss og sannfærður, svo fá dæmi séu nefnd.
Samfélög nútímans eru tæknivædd og fjölþætt.

Samfélag kirkjunnar á að mæta leiðsögn, boðun.

Biblían, hefðin og reynsla kynslóðanna á samleið sinni með Kristi.

Spurningar um lífið, tilveruna, dauðan, tilgang og merkingu hljóma og mæta sögum og athöfnum, sem visa til þeirrar áttar þar sem svarið er að finna.

Og spurningar þeirra, sem leita til kirkjunnar eru margar?

Hvar er Guð?

“Af hverju tók Guð barnið mitt, af hverju ekki mig?”, spurði móðir prest fyrr í þessum mánuði.

“Af hverju tók Guð manneskju, sem er í blóma lífsins?”, spurði maður sama prest á þriðjudagskvöldið var.

“Ég skil ekki tilganginn með þessu.”, sagði manneskja, sem missti maka sinn á síðasta ári.

Nægar eru spurningarnar og vangavelturnar í kirkjunni.

Hverju er svarað, hvernig og hver svarar?
_________________
Textar hvítasunnunar flytja boðskap um kærleika Guðs og fyrirheitisorð Jesú, þegar hann kvöldið fyrir dauða sinn gaf þeim fyrirheitið um sendingu andans.

“Andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, hann mun kenna yður allt.”, segir Jesús.
Heilagur andi á að kenna okkur.

Margir eru þessa daganna að útskrifast úr ýmsum skólum landsins.

Viðkomandi eru búin að afla sér tiltekins forða þekkingar.

Þau fagna árangrinum og horfa fram á við lífinu.

Hvað vil ég? er spurning í hugum og hjörtum margra.

Ákvarðanir um framtíðarnám hafa verið teknar eða er verið að taka.

En í guðspjalli dagsins er talað um “skóla andans”.

Hvers konar skóli er það?

Reynslan í “skóla lífsins” er mörgum mikils virði.

“Skóli andans!”

Hann stefnir ekki að því að afla nemendum sínum tiltekins forða lærdóms né þekkingar.

Hann stefnir að því að gera okkar að betra fólki, að betri manneskjum.

Bestu fræin okkar verða að fá að bera ávöxt.

“Hver, sem elskar mig, mun varðveita mitt orð, og faðir minn mun elska hann, og til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.”

Páll postuli ritar til dæmis nokkrum ártatugum síðar:
“Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.”

Takmark hinnar kristnu manneskju hlýtur að vera að Kristur fái lifað í henni.

Ólík erum við, komum víða að, tölum ýmiss tungumál, við erum ekki eins.

Pétur postuli, sem Kristur vildi reisa kirkju sína á var ör, áhrifagjarn og hrösull.

Sál var blindur ofsækjandi Jesú Krists og gekk fram með ákafa í osóknum sínum gegn hverjum, sem aðhylltist Jesú.

En Sál varð Páll, sem var tryggur og trú þjónn Guðs.

Andi Krists bjó í þeim öllum.

Það var og er gefið er af gnægð eins og Jóhannes segir í upphafi guðspjalls sins:
“Af gnægð hans höfum vér allir fengið og það náð á náð ofan.”
_______________
Margir finna auð í Jesú Kristi.

Allir fá að þroskast í “skóla andans”, hver eftir sínu upplagi, þannig að það besta í þeim fái notið sín.

Að verða fyrir áhrifum Krists, þannig að hann geri sér bústað í hjörtum okkar er sá skóli, sem kennir vanlærða list: listina að lifa.

Lifa, svo að lífið öðlist fyllinga sína og jafnvel sjálfur dauðinn verði okkur lífið sjálft.

Námsefnið í “skóla andans” er það, sem Jesús hefur sagt og andi hans minnir okkur á það og veitir okkur skilning á orðum hans.

Andi hans vill kenna okkur að heimfæra orð Krists til lífsins sjálfs.

Þann lærdóm öðlast fólk með samstarfi mannsálarinnar og anda Drottins sjálfs.

Ekki á bara að vera heyrandi orðsins heldur gerandi.

Áhugasamur nemandi, hann eða hún leitar jafnan til kennara sins, þegar námsefnið er of flókið.

Og með leiðbeiningu og hjálp verður verkefnið leyst.

En samstarf verður að vera og meginþáttur milli anda manneskju og anda Guðs er bænin.

Bæn með einlægu hjarta, þar sameinast tvö hjörtu, hjarta Krists og hjarta manneskjunnar.

Biðjum hann um að vera með okkur yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.