Kirkjuþing unga fólksins

Kirkjuþing unga fólksins

Við eigum að skapa unga fólkinu vettvang fyrir eigin mál til umræðu. Þannig eflum við ungmennalýðræði og gerum unga fólkinu kleift að láta rödd sína heyrast. Raddir og skoðanir fullorðna fólksins eiga ekki að óma í gegnum vinnu unga fólksins sem situr þingið, okkar hlutverk er leiðbeina og styðja við.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
16. febrúar 2012

Byrjað var að undirbúa Kirkjuþing unga fólksins af fullum krafti í septemberbyrjun 2011. Undirbúningsvinnan fólst í að senda út boðsbréf og hafa samband við prófasta og héraðspresta til að kanna jarðveginn varðandi hugsanlega fulltrúa ungs fólks á þingið frá hverju prófastdæmi fyrir sig. Þá fór einnig af stað málefnavinna og undirbúningur þingmála og ályktana til flutnings á þinginu. Ekki gekk það eins hratt og vænst var að finna fulltrúa og má segja að það hafi sett nokkurt strik í reikninginn að tilnefningar á fulltrúum voru að berast fram á síðustu stundu og kom það niður á miðlun upplýsinga til fulltrúanna en gæta þurfti þess að allir fulltrúarnir hefðu öll gögn undir höndum þegar kom að þingdegi og þeir þar af leiðandi búnir að setja sig vel inn í málin svo umræða gæti átt sér stað. Tvö prófastdæmanna náðu því miður ekki að senda inn fulltrúa að þessu sinni, Vesturlandsprófastdæmi og Vestfjarðarprófastdæmi en öll hin prófastdæmin uppfylltu sinn fulltrúafjölda ásamt því að KFUM og K sendu þrjá fulltrúa. Alls voru það 25 fulltrúar sem sátu þingið og tel ég það ágætis niðurstöðu. Aðstaða og umhverfi, fjármál og framtíð Ákveðið var að taka fyrir þrjú mál sem snerta aðstöðu og umhverfi ungmenna í kirkjustarfi, fjármál og framtíð barna- og ungmennastarfs og má nálgast þau hér á þessari slóð: http://kirkjuthing.is/kuf/2011, ásamt myndum, fréttum og ræðum. Í þetta sinn voru þingmálin ákveðin fyrirfram að mestu leyti af verkefnisstjóra og einnig var valið fyrirfram hverjir væru framsögumenn þingmála ásamt því að nefndarformenn voru valdir fyrirfram. Þá var það einnig ákveðið fyrirfram hver yrði forseti kirkjuþingsins og varð fyrir valinu Jónína Sif Eyþórsdóttir og stóð hún sig með mikilli prýði. Þingið sjálft gekk vel á þingdegi og fulltrúarnir allir sem einn, tóku til máls og létu skoðanir sínar óhikað í ljós. Eiga þessir ungu fulltrúar mikið hrós skilið og það voru sönn forréttindi að vinna með þeim á þessum degi. Einnig nutum við ómetanlegrar aðstoðar starfsfólks biskupsstofu á þingdegi og þakka ég þeim fyrir frábært samstarf. Einnig ber hér að þakka biskupi Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni og forseta kirkjuþings, Pétri Hafstein, fyrir samstarfið en nærvera þeirra á þingdegi var unga fólkinu mikils virði og vona ég að áframhald verði á þessu góða samstarfi. Dagurinn endaði á Bænarý í Grensáskirkju og var það virkilega góður endir á frábærum degi. Efla lýðræði unga fólksins og finna málefnum þeirra farveg Um framhaldið má margt segja og ýmislegt má læra af þessu fyrsta Kirkjuþingi unga fólksins sem haldið er í samræmi við starfsreglur nr. 952/2009  um Kirkjuþing unga fólksins. Það á að vera markmið með þessari þróunarvinnu að þingið verði sjálfstætt í þeim skilningi að málefni og val á fulltrúum á þingið komi frá unga fólkinu sjálfu sem er virkt í kirkjustarfi. Við eigum að vinna okkur frá því að handvelja fólk út um allt land og stefna að því að ungt fólk sé lýðræðislega kjörið til setu á Kirkjuþingi unga fólksins líkt gerist á hinu almenna kirkjuþingi. Einnig eigum við að skapa unga fólkinu vettvang til að koma fram með sín mál til umræðu á þinginu og að málefnavinnan verði á þeirra höndum, þannig vinnum við að því að efla ungmennalýðræði og gerum unga fólkinu kleift að láta rödd sína heyrast. Raddir og skoðanir okkar fullorðna fólksins eiga ekki að óma í gegnum vinnu unga fólksins sem situr þingið, okkar hlutverk er miklu fremur að vera til staðar og leiðbeina og styðja við. Til að þetta geti gerst þarf að vinna að því að KUF sé á hverju vori, líkt og starfsreglur segja til um, tryggt fjármagn til að sinna þessu málefni og einnig þarf að leggja heilmikla vinnu í að undirbúa jarðveginn heima í héruðum. Stefna á að því að undirbúin verði einhvers konar héraðsþing ungs fólks í prófastdæmunum, annað hvort í tengslum við héraðsfundi eða sjálfstætt, þar sem hvert prófastdæmi skapar sínu unga fólki vettvang til að undirbúa þingmál og kjósa sína eigin fullltrúa. Kirkjuþing unga fólksins mun ekki standa undir nafni sem æðsti lýðræðisvettvangur ungs fólks innan kirkjunnar nema þetta sé tryggt. Þá þarf líka að finna þessum málefnum og tillögum unga fólksins farveg innan kirkjunnar og að niðurstöður KUF verði teknar til umræðu innan kirkjuráðs líkt og starfsreglurnar segja til um, þær verði ræddar af fyllstu alvöru og þær fái örugga málefnalega meðferð. Fjármunum væri vel varið í mannauð Allt þetta kostar peninga, vinnu og tíma, en þegar spurt er þessa dagana að því hvað heyri til forgangsatriða kirkjunnar þegar til framtíðar er litið, er vinsælt að nefna barna- og unglingastarf. Nú þarf að standa við stóru orðin, efla og leggja rækt við þetta mikilvægasta starf kirkjunnar. Tryggja þarf að fagfólk og þekking á þessu starfi haldist innan kirkjunnar og vettvangur ungs fólks sé þannig tryggður. Ef við eflum ekki þessar stoðir verður enginn vöxtur og þróun. Þetta kostar okkur peninga en til lengri tíma litið eru það peningar sem koma margfalt til baka í mannauði og ríkri Þjóðkirkju af ungu fólki sem er tilbúið til að láta til sín taka og berjast fyrir hönd kirkjunnar sinnar af því að þeim var treyst og á þau var hlustað. Kirkjuþing unga fólksins er mikilvægur vettvangur á þessari vegferð.

Höfundur var verkefnisstjóri Kirkjuþings unga fólksins 2011 og er æskulýðsfulltrúi í Akureyrarkirkju.