Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 28. desember 2021

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 28. desember 2021

Það lá eftirvænting í loftinu þegar við stigum út úr flugvélinni á flugvellinum í Lilongwe í Malawi febrúardag einn árið 2013. Ástæðan var ekki sú að nokkrir Íslendingar stigu þar færi á Afríska jörð heldur að forseti landsins var á sama tíma að koma úr ferðalagi.

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 28. desember 2021.  Jes. 62:10-12; Róm 13:11-14 Mt. 21:1-11. 

Við skulum biðja: 

Kom þú með dag á dimma jörð, 

þín væntir öll þín veika hjörð. 

Lækna þrautir og þerra tár, 

græð þú, Kristur, öll dauðans djúpu sár.  Amen 

 

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

 

Það lá eftirvænting í loftinu þegar við stigum út úr flugvélinni á flugvellinum í Lilongwe í Malawi febrúardag einn árið 2013. Ástæðan var ekki sú að nokkrir Íslendingar stigu þar færi á Afríska jörð heldur að forseti landsins var á sama tíma að koma úr ferðalagi.  Á flugvellinum biðu nokkrar gláfægðar Limosínur eftir forsetanum sem keyrðu svo í röð eftir veginum inn í borgina.  Hin gljáfægðu svörtu farartæki voru í hróplegru ósamræmi við annað sem við blasti á veginum, gangandi fólk, jafnvel skólaust með byrðar á höfði.  

 

Nokkrum dögum síðar vorum við stödd á sléttunum sunnar í landinu.  Birtust þá ekki Limosínurnar aftur því forsetinn var á leið í opinbera heimsókn.  Munurinn á birtingarmynd þeirra og aðstæðum fólksins sem við heimsóttum var meiri en á leiðinni til höfuðborgarinnar.  Allsnægtir þess fólks fólust einna helst í fjölda barna og brunnum sem Hjálparstarf kirkjunnar hafði aðstoðað þau við að koma upp.  Samt kunnu þau að fagna og gleðjast.  Konurnar tóku á móti okkur dansandi og syngjandi á meðan karlarnir sátu hjá með börnin skoppandi í kringum sig. Þau fögnuðu með söng og dansi.   

 

Í guðspjalli dagsins heyrðum við að fólkið sem fagnaði komu Jesú þegar hann reið á ösnufola inn í Jerúsalem breiddu  klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn.   

 

Það er gleði í frásögninni af innreið Jesú í Jesúsalem þó undirtónninn sé allt annar.  Koma Jesú til Jerúsalem hefur verið kölluð sigur Krists.  Sá sigur er sannarlega ekki sigur stríðsherra heldur sigur auðmýktar og hógværðar.  Sá sem reið á asnanum og var svo ákaft fagnað vissi að stund hans nálgaðist.  Hann vissi sem var að lýðurinn sem svo ákaft fagnaði hrópaði “krossfestu hann” nokkrum dögum síðar þegar Pílatus spurði þá hvað hann ætti að gera við þann sem þau kölluðu konung Gyðinga?“  

 

Já, lýðurinn fagnaði í Jerúsalem þennan dag með Hósanna söng og breiddi klæði sín á veginn, tákn þess að þau litu á hann sem konung, leiðtoga sinn. 

 

Með leiðtoga þeirra og leiðtoga okkar í kirkju hans göngum við nú inn til aðventunnar, jólaföstunnar og undirbúum okkur fyrir komu jólanna, fæðingarhátíðar hans, frelsara okkar.   

 

Það gerum við meðal annars með því að minnast þeirra sem minna hafa, sýnum náunga okkar kærleika í verki, bæði þann sem er nær og þann sem er fjær.   

 

Í dag hefst árleg jólasöfnun Hjálpastarfs kirkjunnar.  Hjálparstarfið hefur sent út ákall til okkar með orðunum “Hjálpumst að!”  og safnað verður fyrir verkefnum jafnt innanlands sem utan. 

 

Í frétt frá Hjálparstarfinu segir að áhersluverkefnið hér innanlands núna sé aðstoð við fólk sem býr við kröpp kjör svo það geti gert sér dagamun yfir jólahátíðirnar.  Söfnun Hjálparstarfsins á aðventunni hefur farið fram um árabil og fyrir jólin í fyrra aðstoðaði Hjálparstarf kirkjunnar og samstarfsaðilar vítt um landið samtals 1707 fjölskyldur svo þörfin fyrir að við hjálpumst að er mikil.    Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil veitt fólki inneignarkort fyrir matvöru, úthlutað sparifatnaði og jóla- og skógjöfum fyrir börn.  

 

Hjálparstarfið birti í gær á öllum helstu vefmiðlum fréttir af jólaaðstoðinni sem og valdeflingarverkefninu „Taupokar með tilgang,“, sem er starf með konum sem hafa lítil tengslanet hér á landi.  Einnig er sagt frá starfinu í Skjólinu sem er opið hús fyrir konur á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Skjólið er fyrir konur sem glíma við heimilisleysi, búa við óöruggar aðstæður eða eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi. Skjólinu er ætlað að vera öruggur samastaður sem konurnar geta sótt að deginum til áður en þær fara til dæmis í Konukot yfir nóttina.  Í fréttablaði Hjálparstarfsins eru einnig fréttir af ástandinu í Eþíópíu og frá árangri af verkefnum í Úganda.  

 

Verkefni Hjálparstarfsins eru fjölmörg en öll miða þau að því að sýna kærleika Guðs í verki með því að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi.   

 

Hjálparstarfið veitir fólki sem býr við fátækt á Íslandi efnislegan stuðning og félagslega ráðgjöf allt árið um kring. 

 

Hjálparstarfið leggur nú sérstaka áherslu á að aðstoða barnafjölskyldur.  

Hjálparstarfið veitir mannúðaraðstoð á vettvangi náttúruhamfara og stríðsátaka í samvinnu við systurstofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, sem nefnast ACT Alliance. 

 

Í þróunarsamvinnu í Úganda og í Eþíópíu starfar Hjálparstarfið með fólki sem býr við ömurlegar aðstæður í sárri fátækt vegna sjúkdóma, vatnsskorts og öfga í veðurfari og vegna þess að fátæktin viðheldur sjálfri sér. 

Aðferðin í starfinu er alls staðar sú sama segir starfsfólk Hjálparstarfsins: Við mætum fólki af virðingu og aðstoðin tekur mið af þörf hvers og eins. Við hjálpum fólki þannig að það geti hjálpað sér sjálft. 

Og nú erum við beðin um að hjálpast að við að hjálpa fólki að komast á þann stað að geta hjálpað sér sjálft.  

 

Margir hafa notið aðstoðar Hjálparstarfsins í gegnum tíðina og eru frásagnir fólks sem hefur notið aðstoðar og náð að komast á betri stað til marks um það.  Það eru frásagnir foreldra sem hafa fengið aðstoð svo börnin þeirra hafi getað notið menntunar. Framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins segir í áðurnefndu fréttablaðinu Margt smátt: “Við erum svo lánsöm að hafa fengið skilaboð frá fólki sem áður þáði aðstoð en nýtur þess nú að gefa til baka.”  Kona ein segir: „Ég er svo þakklát fyrir aðstoðina sem ég fékk frá Hjálparstarfi kirkjunnar þegar aðstæður sem við mæðginin bjuggum við voru slæmar. Við fengum efnislegan stuðning og sonur minn gat haldið áfram í námi. Í dag starfar hann sem viðskiptafræðingur og við getum gefið til baka.“”  

 

Þannig birtist þakklætið í því að gefa til baka. Þau vita manna best sem glíma við fjárhagsvanda hvernig er að vera í þeirri stöðu og hve gott er að geta leitað til Hjálparstarfsins. 

 

Þetta er í anda þess leiðtoga sem reið inn í Jerúsalem forðum og mætti fólkinu sem komið var til að halda páska.  Við undirbúum nú fæðingarhátíð hans og skulum minnast þess að annað orð yfir aðventu er jólafasta.  Það orð minnir á nauðsyn aðhalds.  Aðhald og fasta hefur það hlutverk að minna okkur á að gæðin eru ekki sjálfsögð.  Í aðhaldi og föstu er fólgin auðmýkt.  Og auðmýktin leiðir til þakklætis.  Hún kennir okkur að við erum þiggjendur og að við höfum þegið lífið og lífsgæðin að gjöf.  Boðskapur aðventu og jólaföstu felur í sér mikla gjöf, sem við getum aðeins tekið við í auðmýkt.   

 

Guð sjálfur mætir okkur með gjöfina himnesku, sem gerir stóru gjafirnar smáar og litlu gjafirnar stórar, nægtaborðin lítils virði og brauð fátæklingsins að hátíðarmat.  Í návist Jesú umbreytast verðmæti lífsins.   

 

Fyrsti sunnudagur í aðventu er mikill hátíðisdagur í mörgum kirkjudeildum og   löndum.  Margir siðir fylgja þessum degi í nágrannalöndum okkur, t.d. Þýskalandi.  Einn er sá siður að búa til kerti og fer kertagerðin þannig fram að viðstaddir ganga í kringum pott með heitu vaxi og dýfa kveiknum í vaxið í hverjum hring og syngja um leið þar til gerðan texta.  Sá siður hefur fest sig í sessi hér á landi að kveikja á kerti aðvenukransins um leið og sungið er.   

Við kveikjum einu kerti á. 

Hans koma nálgast fer. 

 

Við kveikjum tveimur kertum á 

og komu bíðum hans. 

 

Við kveikjum þremur kertum á, 

því konungs beðið er. 

 

Við kveikjum fjórum kertum á. 

Brátt kemur gesturinn, 

 

Fólkið sem fagnaði Jesú þegar hann reið inn í Jerúsalem veifaði greinum sem voru sigurtákn.  Með því gáfu þau til kynna að hann væri sá Messías, konungurinn sem koma skyldi í heiminn samkvæmt spádómum.  Jesús kom ekki ríðandi á stríðsfáki í kjölfar hernaðrsigurs heldur vegna þess að hann kemur sem boðberi friðar, ríðandi á ösnufola.  Hann birtist í hógværð og með auðmýkt.  Það var mikill munur á komu þeirra tveggja forseta Malawí og konunginum eina og sanna þegar þeir birtust fólkinu sínu.  Annar birtist eins og frá annarri veröld en flestir landar hans á meðan Jesús stóð auðmjúkur frammi fyrir örlögum sínum vitandi að fólkið sem fagnaði svo ákaft myndi dæma hann til dauða.  Lýðurinn réð örlögum hans hér í heimi en þar með er ekki öll sagan sögð eins og við vitum sem reynt höfum mátt trúarinnar á hann.  Hann sigraði dauðann og lifir á meðal okkar “og allar þjóðir þurfa að sjá, að það er frelsarinn.” 

 

Megi aðventan, jólafastan verða okkur hjálp til að beina huga okkar inn á við og sjá hin eiginlegu verðmæti lífsins, meðtaka þau í auðmýkt og þakklæti, svo líf okkar allt verði okkur sjálfum og samfélagi okkar til hjálpar og Guði til dýrðar, í Jesú nafni.  Amen. 

 

Takið postullegri kveðju: 

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.  Amen.