Getsemane

Getsemane

Drottinn Jesús, þú sem varst gripinn angist og kvíða í Getsemane. Þú þekkir og skilur hvernig mér líður og hvað mér hagar. Lát mig finna návist þína þegar ég óttast framtíðina og kvíði því sem fram undan er, og þegar skuggar fortíðar og sektarbyrði buga mig. Drottinn, opna augu mín fyrir því að þú ert að verki, þar sem snjókrystallarnir glitra í vetrarsólinni, þar sem fræin lifa í moldinni, þar sem fuglinn syngur í háloftunum ...
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
13. apríl 2006

Þeir koma til staðar, er heitir Getsemane, og Jesús segir við lærisveina sína: Setjist hér, meðan ég biðst fyrir. Mark. 14.32

Drottinn Jesús, þú sem varst gripinn angist og kvíða í Getsemane. Þú þekkir og skilur hvernig mér líður og hvað mér hagar.

Lát mig finna návist þína þegar ég óttast framtíðina og kvíði því sem fram undan er, og þegar skuggar fortíðar og sektarbyrði buga mig.

Drottinn, opna augu mín fyrir því að þú ert að verki, þar sem snjókrystallarnir glitra í vetrarsólinni, þar sem fræin lifa í moldinni, þar sem fuglinn syngur í háloftunum, þar sem stjörnurnar lýsa á næturhimni við ólýsanlega litadýrð norðurljósa.

Opna augu mín og vitund fyrir því að þú ert að verki í hræringum hjarta míns, æðaslögum, andardrætti, í styrk handa minna, starfsemi hugans, vitund.

Gef mér styrk að trúa því að líf mitt er í hendi þinni, stundir, dagar, ár, og öll mín skref.

Þegar skuggi krossins fellur yfir stíginn minn, þegar ég óttast áföll, sorg, vonbrigði, neyð, minn mig þá á að þú er mér hjá og sleppir mér ekki. Og kenn mér að segja: „Verði þinn vilji.“

Stundum finn ég óró og friðleysi hið innra, án þess að vita ástæðuna. Þú dregur þig í hlé og hverfur mér sjónum. Send þá engil þinn að hughreysta mig og friða hjarta mitt.

...Þið hrökkvið up, ég er hrakinn, fjötraður, leiddur í höll hins fjarlenda valds fyrir glæpadóm, háðung og kallsi kvaddur til konungs á nöktum hamri með reistum trjám.

En standið ei ráðlausir rændir vorhuga, sjáið roða hækkandi sólar slá felmtri hin gráu rögn; enn er vegljóst, vakið í garðinum, trúið og vitið ég kem hingað aftur í friðhelgri tign.

(Snorri Hjartarson: Í garðinum)