Dagur þjónustunnar

Dagur þjónustunnar

„Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ spyr Jesús í guðspjalli dagsins. Okkur finnst þessi spurning e.t.v. óþörf. Er ekki sjálfsagt að lækna, ef lækningu verður við komið, burtséð frá því hvaða dagur er? Á dögum Jesú skipti það einmitt höfuðmáli hvaða dagur var. Samkvæmt lögmálinu skyldu allir halda hvíldardaginn heilagan m.a. með því að hvílast frá allri vinnu. Lækning jafngilti vinnu og því taldist lækning á hvíldardegi lögbrot.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?"

Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?"

Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: "Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða." (Lúk 14.1-11)

Biðjum:

Hjálpa okkur Drottinn, að elska náungann eins og okkur sjálf. Lát okkur vera gestrisin og örlát. Lát okkur vera samhuga, gleðjast með glöðum, gráta með þeim sem gráta. Gef að við hreykjum okkur ekki yfir aðra, gjöldum engum illt fyrir illt, heldur hjálpum hvert öðru að bera byrðar lífsins. Amen (úr þýsku –Litla bænabókin)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

„Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ spyr Jesús í guðspjalli dagsins. Okkur finnst þessi spurning e.t.v. óþörf. Er ekki sjálfsagt að lækna, ef lækningu verður við komið, burtséð frá því hvaða dagur er?

Á dögum Jesú skipti það einmitt höfuðmáli hvaða dagur var. Samkvæmt lögmálinu skyldu allir halda hvíldardaginn heilagan m.a. með því að hvílast frá allri vinnu. Lækning jafngilti vinnu og því taldist lækning á hvíldardegi lögbrot.

Jesús lét það ekki á sig fá. Hann læknaði og líknaði, burtséð frá því hvaða dagur var, enda leið ekki á löngu þar til farið var að líta á hann sem lögbrjót og uppreisnarmann, bæði gegn réttmætum yfirvöldum landsins og gegn Guði og boðum hans.

Kenningar hans voru byltingarkenndar og mun róttækari en við gerum okkur grein fyrir. Hann boðaði að kærleikurinn væri lögmálinu æðri; hann boðaði að auðmýkt og lítillæti væri meira vert en stærilæti og sjálfsánægja. Hann boðaði að konur væru jafngildar körlum og hann boðaði jafnræði ríkra og fátækra.

Öll stönguðust þessi boð á við hugmyndir samtímamanna hans, sem töldu m.a. að í lögmálinu mætti finna leiðbeiningar um breytni í hverjum þeim aðstæðum sem maðurinn rataði í. Lögmálið væri ósveigjanlegt og ekkert tillit skyldi taka til mildandi aðstæðna. Litið var á auðmýkt sem undirlægjuhátt og veiklyndi. Allt aðrar reglur giltu um konur en karla og voru konur álitnar óæðri körlum. Þeir ríku réðu og hinir fátæku áttu að sætta sig við yfirráð þeirra og höfðu lítil sem engin ráð til þess að breyta stöðu sinni í samfélaginu.

Það var ekki nóg með að Jesús kenndi þessar byltingarkenndu hugmyndir, heldur fór hann eftir þeim sjálfur og setti þannig fordæmi fyrir okkur öll sem kristin erum, að fylgja. Hann braut reglur lögmálsins ef þær stóðu í vegi fyrir velferð einhvers. Það sjáum við m.a. í guðspjalli dagsins í dag þegar Jesús læknar sjúkan mann þrátt fyrir að samkvæmt túlkun hinna strangtrúuðu bryti hann gegn lögmálinu með slíku háttalagi og kæmi sér í vandræði við ráðamenn. Hann gat ekki hugsað sér að neinn þjáðist deginum lengur þegar hann gat komið í veg fyrir það.

Þegar hann spyr gestgjafa sinn og hina gestina: “Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?” verður þeim fátt um svör. Ekki er ólíklegt að spurningin og síðan lækning sjúka mannsins hafi vakið efa í huga þeirra. Efa um túlkun lögmálsins. Voru smáatriðin e.t.v. orðin svo fyrirferðarmikil að þau væru farin að skyggja á aðalatriðið – vilja Guðs?

Var hann, þessi Jesús frá Nasaret, spámaður eða boðberi Guðs? Þekkti hann vilja Guðs kannski betur en hinir lærðu menn sem reyndu eftir fremsta megni að túlka lögmálið? Gat það verið að hann væri Mesías, sá sem beðið var eftir og talið að myndi frelsa þjóð Guðs?

Til er saga af rabbía sem vildi vita hvenær Messías kæmi og hvernig hann gæti þekkt hann. Til að fá svar við spurningum sínum leitaði hann til Elía spámanns.

Elía svaraði: “Þú verður að spyrja hann sjálfan.”

“Er hann þá kominn?” “Já, það er hann”

“Hvar finn ég hann?” spurði rabbíinn.

Elía sagði honum að fara í borgarhliðið og leita meðal hinna kaunum hlöðnu fátæklinga sem þar söfnuðust saman.

“Hvernig í ósköpunum á ég að þekkja hann?” velti rabbíinn fyrir sér “meðal allra þeirra fátæku og sáru sem þar eru.”

“Það er auðvelt að þekkja hann, allir aðrir taka umbúðirnar af öllum sárum sínum í einu og binda svo aftur um þau. Messías, aftur á móti, tekur umbúðirnar af einu sári í einu og býr um það aftur. Allan tímann segir hann við sjálfan sig: “Kannski kemur einhver sem þarfnast mín, ég verð að vera reiðubúinn.”

Einmitt þetta var svo áberandi í fari Jesú. Hann var alltaf tilbúinn og alltaf reiðubúinn til þess að taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Og sem kristin kirkja og kristnir einstaklingar reynum við að fylgja fordæmi hans, rétta hjálparhönd, þjóna, eftir því sem við höfum burði og tækifæri til. Ekki er endilega verið að tala um mikla, tímafreka eða dýra þjónustu, heldur þá þjónustu sem sprettur af kristnum kærleika í anda Jesú sjálfs.

Kærleikurinn er einmitt meðal hinna kristnu dyggða sem Páll telur upp í bréfinu til Efesusmanna. Hugmyndin “kristinn kærleikur” var svo óvenjuleg að finna þurfti nýtt grískt orð yfir fyrirbærið. AGAPE sem þýðir í raun óbugandi góðvild. Við viljum þeim sem við elskum á þennan hátt einungis hið besta, burtséð frá framkomu þeirra við okkur.

Það er þessi kærleikur sem Páll lýsir í kærleiksóðnum í fyrra bréfi sínu til Korintumanna. Kærleikur sem byggir að sjálfsögðu á kærleika Guðs sem sendi son sinn í heiminn til þess að bæta fyrir syndir okkar, sigra dauðann fyrir okkar hönd og ávinna okkur eilífa lífið.

Þennan kærleika sáu lærisveinarnir og fólkið allt endurspeglast í lífi, starfi og framkomu Jesú Krists. Kærleika sem var svo margfalt meiri en sá kærleikur, sú ást sem þau þekktu - ást karls og konu, vináttu jafningja, væntumþykju t.d. milli foreldris og barns – að finna þurfti nýtt orð yfir hann.

Og það er þessi kærleikur sem er grundvöllur þjónustunnar, hinnar kristnu þjónustu sem dagurinn í dag er helgaður. Um er að ræða bæði þjónustu í kirkjunni og utan hennar. Í kirkjunni fer fram margvísleg þjónusta sem ynnt er af hendi bæði lærðra og leikra, launaðra sem ólaunaðra starfsmanna.

Í messunni upplifum við samveru, þiggjum heilaga kvöldmáltíð, heyrum útleggingu orðsins, tökum þátt í lofsöng og bæn, bæði fyrirbæn og þakkarbæn. En það er svo margt annað sem fram fer í kirkjum landsins: viðtöl, samverur ýmissa hópa, margvísleg fræðsla, kórastarf og svo þarf að sjá um kaffi og þrif, svara í síma og sinna ýmsum skrifstofustörfum.

Síðan getum við líka tíundað þá þjónustu sem kirkjan veitir utan kirkjubyggingarinnar sjálfrar og má þar kannski fyrst og fremst nefna heimsóknir til þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ekki tök á að koma til kirkju.

En þjónusta kirkjunnar einskorðast alls ekki við þjónustu í eða á vegum kirkjunnar sem stofnunar, heldur þá þjónustu sem er köllun sérhverrar kristinnar manneskju.

Að þjóna náunganum eins og hann væri Kristur og að þjóna náunganum eins og Kristur sjálfur gerði. Að sjá Krist í sérhverjum samferðamanni okkar, að vera Kristur sérhverjum samferðamanni okkar.

Á plakatinu sem notað er til að vekja athygli á guðsþjónustum dagsins og þema hans, sjáum við mynd af fólki sem gefur sér tíma til að staldra við í erli dagsins og tala saman yfir kaffibolla. Hvorki er um að ræða fínt boð með fyrirhafnarmiklum undirbúningi, né langa samveru. En það er auðséð að báðir aðilar njóta hennar.

Hvar er þitt tækifæri til þjónustu í dag? og á morgun og næstu daga?

Bíður einhver eftir símtali eða heimsókn frá þér? Hvað hindrar þig í að taka upp tólið eða líta við?

Allt of oft afsökum við okkur með því að við vitum ekki, kunnum ekki né þekkjum hvað gera skal gagnvart þeim sem þurfa þjónustunnar við.

Við förum ekki í heimsókn að sjúkrabeði eða í sorgarhús vegna þess að við vitum ekki hvað við eigum að segja.

Hvað með að láta eigin hagsmuni og vellíðan bíða og hugsa málið heldur útfrá þörfum þess sem sjúkur er eða syrgir? Að fá heimsókn, að vita að einhverjum er ekki sama um hvernig manni líður getur gert gæfumuninn. Það þarf ekki að segja neitt merkilegt, jafnvel ekkert. En það þarf að gefa örlítið af tíma sínum og vera jafnvel tilbúinn til að auðmýkja sjálfan sig með því að viðurkenna að maður veit ekki hvað á að segja eða gera. Oft er það sá sem við heimsækjum sem kennir okkur hvað segja eða gera skal, hvers hann eða hún þarfnast, ef við bara gefum okkur tíma til að staldra við og hlusta.

Þetta er einmitt það sem Jesús boðar: að við bíðum ekki fram yfir hvíldardaginn með að rétta hjálparhönd. Að við horfum fyrst og fremst á þörf náungans og látum kærleikann stjórna allri breytni okkar.

Megi kærleiksríkur Guð gefa okkur styrk og þor til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Guðrún Eggertsdóttir er djákni. Lestrar: Orðskv. 16.16-19, Ef. 4.1-6, Lk. 14.1-11.