Kirkjan - orðið - trúin

Kirkjan - orðið - trúin

Mál kirkjunnar í landinu eru um leið málefni samfélagsins. Sú umræða að undanförnu og raunar viðvarandi ætíð benda ótvírætt til þess að kirkjan hefur breiða skírskotun til fólksins í okkar landi. Verst væri ef fólki væri yfirleitt sama um hana.

"Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þér njótið erfiðis þeirra." ( Jóhannesarguðspjall 4. 34 - 38 )
Gleðilega hátíð

Enn sem undanfarin 25 ár fer saman afmælishátíð Dómkirkjunnar og upphaf tónlistardaga hennar. Enn höfum við fengið nýtt tónverk,  “Missa brevis” eftir Þóru Marteinsdóttur var frumflutt í gær og nú flutt sem hluti af messu safnaðarins.

Kristin kirkja hefur um aldirnar fóstrað listina. En einkum er það trúin sjálf sem lyftir hug í hæðir. Trúin laðar fram lofsöng og bænarákall hjá mannfólkinu á þessari jörð, hún snertir mannsálina með sínum sérstaka hætti. Það gerist til að mynda í þessu fagra verki, það gerist þegar við notum farvegi trúarinnar til að tala við Guð.

Undanfarið hafa hin ýmsu málefni hrært við fólki í okkar landi. Sem betur fer hefur fólk skoðanir á málefnum kirkjunnar. Mál kirkjunnar í landinu eru um leið málefni samfélagsins. Sú umræða að undanförnu og raunar viðvarandi ætíð benda ótvírætt til þess að kirkjan hefur breiða skírskotun til fólksins í okkar landi. Verst væri ef fólki væri yfirleitt sama um hana.  

Umræður, rökræður, jafnvel deilur eru því góðar.

Ég man eftir uppsetningu á listaverki, mjög sérstæðu listaverki, sem komið var fyrir á áberandi stað í bæjarfélagi einu á landsbyggðinni. Meðan sumir lýstu hneykslun sinni á verkinu sagði góður kunningi minn: “Þetta verk uppfyllir þá frumkröfu sem gera verður til listaverks: Það er hægt að rífast um það.” Það höfum við heyrt og séð að undanförnu.

Fréttir og fréttaþættir hafa verið óvenju uppteknir af trú og kirkju. Fjölmargt ánægjulegt á sér stað í kirkjunni og á vettvangi hennar. Miðað við angur og óyndi hér heima var gott að sjá svipmynd frá Róm. Geir Haarde forsætisráðherra í Páfagarði að afhenda hans heilagleika Benedikt páfa eintak af nýþýddri íslensku Biblíunni. Ég get ekki stillt mig um að fara með vísu sem nafni minn, læknir á Akureyri orti af þessu tilefni:

Haarde í bókina heilaga splæsti, hugsaði og dæsti: Fyrst nafni minn Waage vill ekki sjá´ana verður páfinn að fá´ana.

Nýja biblíuþýðingin er listaverk. Deilt verður um áherslur eins og jafnan. Endanleg þýðing hefur enn ekki verið prentuð. Um aldir, allt frá upphafi kristni, hefur verið uppi meiningarmunur um orð, merkingu orða og orðasambanda í hinni helgu bók. Að ekki sé nú talað um túlkun þeirra. Til þess lærum við prestar og guðfræðingar að lesa ritninguna á frummálunum að geta leitað frekari skilnings á textunum ef þurfa þykir.  Fræðimenn hafa deildar meiningar um árangurinn nú.

Áfram munum við því leita hinnar réttu merkingar orðanna og málsins.

En það er ekki kjarni málsins. Eins og hingað til er það innihaldið sem gildir. Boðskapur Biblíunnar varðar öllu og um hann er eining meðal kristinna manna í öllum meginatriðum. Grundvöllurinn er Kristur, hann sjálfur og lífið í honum.

Orð Jesú Krists í guðspjalli dagsins vísa til lífs og sögu kynslóðanna. Við erum engir upphafsmenn, nútímafólk. Við höfum þegið af fyrri kynslóðum og gengið inn í vinnu þeirra. Það er okkur í huga einnig á kirkjudegi þessa aldna guðshúss. Margar kynslóðir hafa á undan okkar átt hér athvarf. Og nýjar kynslóðir munu koma á eftir  okkar. Börnin munu læra mál trúarinnar, alast upp í ljósi fyrirheitis skírnarinnar. Nýjar kynslóðir fá næringu fyrir líf sitt og samfélag á komandi tímum.

Umræðan um kristni og kirkju snýst oftast um umgjörðina, formið og fyrirkomulagið. Ekki um það að hann er mitt á meðal okkar og snertir líf okkar svo margra og oft. Sjálfsagt gerir fólk sér yfirleitt ekki ljóst hve Kristur er nærri og hve samfélag okkar er í rauninni mótað af kristinni lífsskoðun. Þegar að er gáð er nafn Jesú nefnt við margar mestu hamingjustundirnar í lífi einstaklinga og fjölskyldna. Án Jesú eru ekki jól, páskar, hvítasunna. Sunnudagarnir eru upprisuhátíðir Krists. Án hans væri lífið sneitt mikilvægasta innihaldi sínu að mati þeirra sem játa trú á hann.

Rithöfundurinn Heinrich Böll hefur sagt, að heimur án Krists myndi jafnvel fá hörðustu andstæðinga hans til að þrá að hann kæmi aftur. Sem aftur minnir mig á orð mannsins sem ekkert vildi með Guðsorð hafa og sagði: „Ég er trúlaus, Guði sé lof!“  Guð er oft nær en menn halda. Hann afneitar ekki mönnunum þótt þeir hafni samneyti við hann.

Innihaldið sjálft, trúin sjálf, er samneyti og samfélag við Drottin. Það að blanda geði við Guð; að tileinka sér kærleikann, miskunnsemina og  réttlætið sem hann boðaði, þiggja þann frið sálu sinni og lífi sem hann vill að allir þiggi og njóti. Að lifa lífi sínu með tilliti til Guðs, að elska Guð og láta þess sjá stað í öllum skiptum okkar við heiminn, fólkið og alla sköpun. Líf okkar á sér markmið, það er ekki aðeins tímalínan frá vöggu til grafar.

Það fjallar skáldið Hannes Pétursson um í kvæðinu Kölnardómkirkja:

Allt hnígur lárétt fram: lygnt fljótið, líf götunnar Lestin á brúnni allt – nema kirkjan ofar kynslóð og stund.

Sjá, línur turnanna streyma lóðrétt upp og nema ekki staðar þó steininn þrjóti heldur lyfta sér til flugs og fljúga burt, stefna lóðrétt til himna á Herrans fund.

Þetta ljóð skáldsins góða finnst mér ekki einskorðað við erlenda stórborg.

Höfundurinn hefði getað staðið hér úti á Austurvelli, horft á líf götunnar, séð bílana fara hjá, mennina "...fólk á hlaupum, í innkaupum.“

Augun staðnæmast við kirkjuna, þetta sérstæða hús hvers samfélags, sem allir eiga minningar tengdar og tilfinningar bundnar. Guði helgast hin lárétta tilvera. Á Herrans fundi, í kirkjunni, í samfélagi helgaðra á himni og jörðu lifum við svo stundir, sem streyma ekki aðeins lárétt fram.

Guð gefi okkur margar slíkar stundir.

Í Jesú nafni. AMEN