Ljós koma

Ljós koma

Uppbrot á hversdeginum felst ekki í yfirdrifinni neyslu heldur fremur að hlúa að því sem stendur hjartanu næst: kærleikanum til barnsins í okkur sjálfum og náunga okkar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
23. desember 2010

Jólin 2009

Íslensku jólin snúast um komu ljóssins - í trúarlegum og náttúrulegum skilningi. Minningarbrot frá eldri kynslóðum sem iðulega eru dregin fram í kringum jólahátíðina í formi ljóða og frásagna gera þessu góð skil. Slíkar Slíkar minningar draga jólin iðulega fram sem hinn mikla ljósgerving - hvort sem er með stjörnum á miðsvetarhimni snæþakts lands eða í formi hógværs kertaljóss í barnshendi.

kertaljós í bláum fjarska, bak við ár, æskuminning um fegurð. (Jón úr Vör)

Íslensku jólin hafa líka alltaf komið þótt þröngt sé í búi. Fátæktin er oft bakgrunnur jólakomunnar og gleðin yfir komu ljóssins er tjáð á nægjusaman hátt:

Man það fyrst, er sviptur allri sút sat ég barn með rauðan vasaklút. (Matthías Jochumsson)

Íslendingar sem eru jafnvel ekki háaldraðir eiga minningar um hvernig jólin birtust í afar hógværum efnislegum táknum eins og rauðum eplum sem öllu jafna fengust ekki í verslunum hér á landi nema um jól. Ljós í myrkri og uppbrot á fátæklegum hversdegi í formi klæða eða epla eru því jólastefin sem berast til okkar frá íslenskri fjarlægri og nálægri fortíð.

Þessi stef eiga rætur sínar í jólaguðspjallinu þar sem frummyndir um ljós, skjól, næringu og líf eru tjáðar í fæðingarfrásögninni í Betlehem. Ljósið á jólanótt brýst fram úr myrkrinu sem umlykur náttúru og mannlíf og staðfestir þörf manneskjunnar: að þiggja og veita ást og líkamlega umhyggju.

Koma ljóssins með hækkandi sól og fæðingu frelsarans hittir okkur í hjartastað. Þess vegna eru jólin hátíð tilfinninga og bernsku, sama hvað á hvaða aldri við erum. Uppbrot á hversdeginum felst ekki í yfirdrifinni neyslu heldur fremur að hlúa að því sem stendur hjartanu næst: kærleikanum til barnsins í okkur sjálfum og náunga okkar.

Jólin eru til að þiggja og gefa kærleika.