Hlutverk kirkjunnar á 21. öld

Hlutverk kirkjunnar á 21. öld

Hlutverk kirkjunnar hefur verið, er og mun verða um ókomna tíð að boða fagnaðarerindið í orði og verki. Í því starfi sínu verður hún nú á tímum að taka tillit til mismunandi skoðana fólks um hlutverk trúarinnar og trúarbragða.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
12. apríl 2007

Hlutverk kirkjunnar hefur verið, er og mun verða um ókomna tíð að boða fagnaðarerindið í orði og verki. Í því starfi sínu verður hún nú á tímum að taka tillit til mismunandi skoðana fólks um hlutverk trúarinnar og trúarbragða. Þær má e.t.v. draga saman í fjóra meginflokka:

Í fyrsta lagi er sú skoðun útbreidd að hefðbundin trúarbrögð með öllum stofnunum sínum, ekki síst kristin kirkja, muni halda stöðu sinni og áhrifum. Kirkjan gengur í starfi sínu meir og minna út frá þessari áherslu.

Í öðru lagi er bent á að trúin sé næstum alveg bundin sviði einkalífsins og stofnanir muni brátt hafa litlu hlutverki að gegna fyrir trúariðkun fólks. Í þessu sambandi nægir að huga að því hvað orðin „mér finnst“ eru mótandi í umræðunni, sérstaklega þegar einstaklingar sem eiga rætur í vestrænni menningu ræða um trú sína. Þessi orðræða er stundum í litlum tengslum við ritninguna og kristnar hefðir. Hún einkennist af því að hver og einn setur sinn átrúnað saman úr hinum ýmsu stefnum og straumum.

Í þriðja lagi er litið svo á að trúin geti fyrst notið sín þegar hún hefur verið losuð úr viðjum ríkisvaldsins. Stofnanir samfélagsins lúti ekki lengur trúarlegum viðmiðum og því verði einstaklingurinn sjálfur að rækta þau.

Í fjórða lagi er sú kenning vinsæl að sífellt meiri afhelgun samfélagsins leiði að lokum til þess að trú og trúarbrögð hverfi. Máli sínu til stuðnings vísa menn til þeirrar staðreyndar að trúlausir einstaklingar hafi ætíð verið í öllum samfélögum. Samfélagsþróunin sé á þann veg að þeir verði innan skamms í meirihluta og að endingu verði samfélagið allt trúlaust. Þessi skoðun er býsna útbreidd og mætti jafnvel segja að hún væri ein af meginstoðum hins svokallaða „pólitíska rétttrúnaðar“ samtímans. En fátt bendir til að svo verði. Því veldur einfaldlega tilvistarleg staða mannsins. Má segja að maðurinn sé vera sem deyi að lokum enda þótt hún vilji lifa, hann þráir öryggi án þess geta að höndlað þverstæður veruleikans, leitar sannleika og ljósleika en getur ekki leyst gátu tilvistar sinnar. Þessi staða mannsins í þverstæðufullum heimi knýr á um heildarsýn og hún tengist ætíð spurningunni um Guð. Glíman sem fylgir þessari við stöðu og þær spurningar og svör sem hún fæðir af sér þarfnast þess vegna síns farvegs. Því í tengslum við þær er lagður siðferðilegur grundvöllur samfélagsins.

Í þessu samhengi leggja guðfræðingar sem fjalla um stöðu trúarbragða og sérstaklega kristinnar trúar í nútíma samfélagi, á það áherslu að stofnanir samfélagsins, einkum þær sem snúa að efnahags- og fjármálum, lögum og dómsmálum, menntun og menningu, stjórnmálum og heilbrigðismálum, lúti vissulega eigin lögmálum. En þær eigi aftur á móti í samskiptum innbyrðis og þau samskipti móta gildismatið í samfélaginu. Vettvangur þeirrar mótunar er opinber umræða. Kristni og kirkja verður hér að taka fullan þátt í henni ef jafnvægi eigi að vera í umræðunni og gildismótunin virk. Útilokun trúarbragða frá umræðunni er aftur á móti staðreynd þegar trúin er skilgreind sem einkamál og meðhöndluð sem feimnismál einstaklinga. Slík útilokun trúarinnar frá almennri umræðu er ekki réttlætanleg, því einmitt í trúnni og stofnunum henni tengdri er leitast við að veita svör við tilvistarvanda mannsins og móta gildismat hans í ljósi þess. Þess vegna er nauðsynlegt beri að losa trúna úr viðjum þeirrar útbreiddu skoðunar að hún sé einungis og eigi að vera einkamál einstaklingsins. Sú afstaða útilokar trúna frá almennri umræðu og þátttöku í mótun gildismatsins innan samfélagsins. Og þó að ólíkar og einstaklingsbundnar trúarskoðanir séu vissulega athyglisverðar, nægja þær einar og sér ekki til þess að trúin sé virk í almennri umræðu. Trúin þarfnast stofnunnar sem sameinað getur orðræðu hennar og verið henni farvegur. Kirkjan er slík stofnun með helgihaldi sínu og boðun. Hún skiptir hér óneitanlega miklu máli því hún tryggir opinbera hlutdeild trúarinnar í samfélagslegri umræðu og styrkir jafnframt stöðu hennar í samtali við aðrar stofnanir samfélagsins. Kirkja og kristni sem ein af stofnunum samfélagsins er samkvæmt þessum skilningi ómissandi fyrir gildismótunina innan samfélagsins.

Nauðsyn þessa kemur vel fram ef einungis er hugað að kröfunni um umburðalyndi. Þýski guðfræðingurinn Eilert Herms bendir á í þessu samhengi að friður hafi ríkt í evrópskum þjóðfélögum af þeirri einföldu ástæðu að opinberar stofnanir stjórnmála- og efnahagslífsins hafi ekki krafist þess að meðlimir þeirra hafi sömu trúar- eða heimspekisannfæringu. Þjóðfélögin hafi verið opin fyrir því að menn með andstæðar skoðanir geti unnið saman. En hann bendir á að það sé mikill misskilningur að umburðarlyndi þýði skoðanaleysi, því að enginn er laus við innri sannfæringu. Staðreynd er að allar ákvarðanir í efnahagslífi, vísindum og stjórnmálum byggjast á persónulegri sannfæringu um hvað sé rétt gildismat. Þess vegna hindrar hlutleysis krafna á hendur ríkisinu gagnvart persónulegri sannfæringu einstaklinga að tekist sé á við ólíkar skoðanir. Það er að segja að gerð sé grein fyrir þeim undirstöðum sem hópar og einstaklingar byggja á. Umburðarlyndi felur því ekki í sér skeytingarleysi um skoðanir annarra, því að það jafngilti skeytingarleysi um velferð náungans.

Krafan um algjört hlutleysi gagnvart gildismati annarra getur því leitt af sér almennt málleysi um grundvallargildi siðrænnar hegðunar bæði innan og utan einkalífsins. Í stað almennrar siðvitundar verður velferð þess efnahagslega hagsmunahóps, sem tiltekinn einstaklingur er í, megin mælikvarðinn. Þetta sjónarmið kemur einmitt skýrt fram í þeirri afstöðu að trúin sé að öllu leyti einkamál hvers manns. Hlutverk kirkjunnar er því sem áður að standa vörð um það að trúarsannfæringin kristin sem og önnur móti allt líf og gildismat mannsins. Rödd hennar verður að heyrast inna umræðunnar.

Herms á hér ekki við að siðvitund kristinna manna lýsi sér í því að allir kristnir einstaklingar eigi að fylgja sömu meginreglum, heldur í því að lífsafstaða þeirra sé fólgin í þeirri fullvissu að heimurinn eigi upphaf sitt og tilgang í þeim guði sem opinberaði sig í Jesú Kristi.

Kirkjan verður að því skilja sem málstofu trúarinnar þar sem kristinn einstaklingur getur íhugað með öðrum trú sína og trúarreynslu. Kristinn maður verður að geta tekist á við misjafnt gildismat og gert grein fyrir því í hverju trú hans er frábrugðin annarri trú og lífsskoðun. Þessa aðgreiningu verður kristinn einstaklingur að geta rökstutt og varið svo að trúvörn verði hluti af lífi trúarinnar. Kristin trú byggist því á umburðalyndi sem virðir skoðanir annarra án þess að þurfa að tileinka sér þær eða vísa þeim á bug með skeytingarleysi afstæðishyggjunnar. Kirkjan verður því nú og um ókomna tíð sem stofnun að gera ljósa grein fyrir kenningum sínum, afmarka svið sitt innan þjóðfélagsins og skýra sem best hvað sé að finna innan vébanda hennar.

Þessa skyldu þarf kristinn maður og kirkjan öll að axla í fjölhyggjuþjóðfélagi nútímans svo að þegnar samfélagsins, þar á meðal þeir sem í kirkjunni eru, eigi auðveldara en ella með að ná áttum. Þessi markmið kirkjunnar eru sett fram í fræðslustarfi hennar og kærleiks þjónustu. Þau beinast bæði inn á við, að undirstöðum trúarlífsins, og út á við, að stuðningi við einstaklinginn í daglegri baráttu hans.

Þetta verkefni kirkjunnar er þeim mun brýnna sem fjölhyggjan eykst, en henni fylgir áttleysi í gildismati. Heimurinn verður æ minni og með opnun markaða munu landfræðilegir svo og þjóðlegir eiginleikar ekki hafa jafn mikið gildi fyrir líf einstaklingsins og áður. Sem þjóðkirkja verður kirkjan að laga sig að hinni nýju stöðu. Og eigi hún að standa verður hún að virða sig sem stofnun og þau lögmál sem gilda um stofnanir. Kirkjan verður að skilgreina hlutverk sitt, starf og markmið, til þess að geta veitt þá þjónustu sem hún er kölluð til. Og hér má ekki gleyma að kirkja og kristni er ætluð venjulegu fólki með venjuleg vandamál og venjulega galla. Hennar er hvorki að stofna guðsríki á jörð né setja heilagleika Guðs svo á oddinn að almenningi sé gert erfitt fyrir að starfa innan vébanda hennar. Með því væri allri starfsemi kirkjunnar sem stofnunar teflt í tvísýnu.

Ætli hún að ná þessu marki verður hún að skynja sig sem hluta þess samfélags er hún starfar í og hafna þar með hugsuninni um sjálfa sig sem eyland í hafi fjölhyggjunnar Verkefni hennar er að miðla kristnum sjálfsskilningi til samfélagsins en jafnframt að vera sá vettvangur þar sem trúin lærir að tjá sig. Áherslan á fræðsluhlutverk kirkjunnar verður hér óneitanlega æ miðlægara og hið sama á við um kærleiksþjónustuna. Þannig að staðan er sú sama og ætíð að boða fagnaðarerindið í orði og verki.