Hvernig lestu?

Hvernig lestu?

Kristin trú höfðar ekki síður til tilfinninga okkar en vitsmuna. Hún höfðar ekki síður til verka okkar en íhugunar. Hér í gamla daga í kirkjunni söfnuðust menn saman til helgrar þjónustu og gengu til altaris til staðfestingar á því að þeir væru hluti af sömu fjölskyldunni – söfnuði Krists. Þeir þáðu brauðið og vínið þann helga leyndardóm sem kristnir menn kalla líkama og blóð Krists.

Nú um miðjan ágúst tókum við hér í Keflavíkursókn forskot á sæluna og buðum fermingarbörnum til námskeiðs þar sem þau stigu fyrstu skrefin í undirbúningi fyrir ferminguna í vor. Þetta gekk að óskum og var almenn ánægja með þessa nýbreytni í fræðslu- og æskulýðsmálum í söfnuðinum. Framundan er viðburðarríkur vetur þar sem börnin fá að kynnast ýmsum hliðum kirkjunnar og þess sem hún vill miðla til umhverfis síns.

Hlutirnir bera undarleg nöfn

Eitt af því sem ég hef lagt mig fram um að kenna fermingarbörnum er gera þeim kleift að lesa þetta umhverfi sem við erum stödd í núna. Salarkynni þessi eru um margt óvenjuleg þar sem hlutir og húsgögn bera önnur og ólík nöfn miðað við það sem gerist í öðrum húsakynnum. Börnin fengu að geta sér til um heitin á hlutunum hér og vissulega kom þar margt þeim spánskt fyrir sjónir. Af hverju heita gráturnar svo sorglegu nafni og hverjum dettur í hug að kalla þetta ræðupúlt sem ég stend í stól?

Ég sagði þeim líka frá því að á málum frænda okkar á Norðurlöndum heitir forkirkjan vopnahús enda lögðu menn þar frá sér vopn og verjur áður en gengið var inn í sjálfan helgidóminn. Og salur þessi – kirkjuskipið sjálft – ekki líktist það nú svo mjög slíkum farkostum. Fjölmörg önnur nöfn og heiti fengu önnur að fljóta inn um eyru þeirra – en vonandi þó ekki inn um annað og út um hitt!

Horft á umhverfið öðrum augum

En við eigum jú skýringar á því hvers vegna kirkjan er svo uppátækjasöm með nöfnin á því sem þar inni er. Og ég reyndi að benda þeim á það að það að tilheyra kirkjunni – það að vera kristin manneskja – felur í sér að við lítum á margan hátt með öðrum augum á umhverfi okkar og sjálf okkur en við myndum að öðrum kosti gera. Meðal annars erum við hluti af ákveðnu samhengi – tilheyrum í vissum skilningi samfélagi, fjölskyldu sem er ein og liðast í gegnum söguna og skilur eftir sig merki og fótspor svo víða. Kirkjan okkar samanstendur af fólki sem hefur fundið hefur dýrmætan fjársjóð sem setur mark sitt á það hvernig það horfir á heiminn í kringum sig. Kristnir menn sjá vissulega það sama og aðrir. Þeir taka á móti sömu upplýsingum og aðrir – en oft er það svo að þeir draga af því annan lærdóm eða bregðast við með ólíkum hætti.

Spurt á móti

Guðspjall dagsins þarf auðvitað ekki að kynna. Leitandi manneskja kemur á fund Jesú – þetta var lögvitringur – og leggur fyrir hann sígilda og stóra spurningu: hver er tilgangur lífsins. Það er ekkert minna. Sjálfsagt býr þarna eitthvað að baki – einhver gildra eða tilraun til þess að setja Jesú á gat. Af orðalaginu að dæma er það ekki ósennilegt. En hvort heldur sem sú hefur nú verið raunin eða ekki þá urðu samræður þessar farvegur einhverrar kunnustu frásagnar Krists og þeirrar sögu sem skilið hefur eftir sig hvað dýpst fótspor meðal þeirra sem fylgt hafa honum eftir í gegnum tíðina.

Hver þekkir ekki frásögnina? Jesús gerir eins og svo oft áður – hann svarar spurningu með annarri spurningu. Sá var víst háttur rabbína á þá daga og er enn. Eitt sinn var rabbíni spurður að þessu – af hverju hann svaraði alltaf spurningu með annarri spurningu: „Ja, af hverju ekki?“ Og Jesús spyr á móti. En spurningin leynir á sér. Hann spyr: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Lykillinn að lífi kristins manns

Þessi seinni spurning er lykillinn að því lífi sem kristnum mönnum er samboðið. Takið eftir þessu: Hvernig lest þú? Lögvitringurinn, blessaður, átti vísast að baki margar og langar setur yfir hinni helgu bók gyðinga, lögmálinu, sálmunum, spámannaritunum og þeim öðrum textum sem innblásnir voru af Guði til leiðsagnar og íhugunar. Margt af því hefur hann vísast kunnað og þekkt upp á hár.

En Kristur var ekki að hlýða honum yfir hvað hann kunni að romsa upp úr sér. Spurningin sem hann bar upp var ekki hvað lestu og hvað kanntu – heldur hvernig tekurðu það til þín sem við þér blasir. Hvaða áhrif hefur það á þig sem þú sérð og meðtekur í heilagri ritningu? Þess vegna lét Kristur sér ekki nægja að heyra hann telja upp textann um hin æðstu markmið þess sem tilbiður þann sem æðstur er og mestur. Hann sagði honum frá því að gera þetta, fylgja þessum boðum og þá yrði lífi hans borgið.

Það er einmitt þetta sem gerir kristna trú að því sem hún er. „Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.“ Þannig hljóðuðu skilaboð postulans til okkar í seinni ritningarlestri dagsins. Kristur sviptir okkur þeirri svikahulu að játningin með vörunum sé það sem mestu máli skiptir. Hann leiðir lögvitringinn frá því að þylja upp boðorðið æðsta og mesta yfir í það að breyta í þeim anda sem það hljóðar upp á.

Ferðalangarnir þrír

Það er því máli sínu til staðfestingar sem hann kynnir þá til sögunnar ferðalangana þrjá sem gengu frá á fórnarlamb ræningjanna á veginum milli Jerúsalem og Jeríkó. Hversu ólíkir voru þeir ekki þessir menn? Hve ólíkur var hann ekki bakgrunnur þeirra, hve frábrugðin var staða þeirra og hversu margt var það nú ekki sem greindi þá í sundur.

Annars vegar presturinn og levítinn, svo margfróðir og virtir fyrir atferli sitt allt og þekkingu. Hins vegar blendingurinn af þeim þjóðarbrotum sem sest höfðu að á því svæði sem tæmdist þegar rjóminn af Ísraelslýð var sendur í þrældóm til Babýlóníumanna. Samverjinn – lifandi og gangandi minnisvarði um niðurlægingu einnar þjóðar og að auki óhreinn og óhelgur sakir lifnaðar og siðvenja sem voru af allt öðrum toga en Ísraelsmenn sjálfir stunduðu.

Eitt sameinaði þá

Og aftur læðir Kristur því að sem mestu máli skiptir. Því eitt sameinaði þá þrjá eins og segir í textanum: Allir sáu þeir manninn sem lá bjargarlaus í vegarkantinum. Allir sáu þeir hann. Það kemur skýrt fram í textanum. En rétt eins og lögvitringurinn fann ekki svarið við spurningu sinni með því að lesa textann helga, þá hafði það ólík áhrif á þá að sjá manninn sem svo nauðsynlega þurfti aðstoð þeirra og liðssinni.

Um leið skynjum við hvernig þetta tvennt er eins og sitthvor hliðin á sama peningnum. Boðskapurinn helgi og þörfin brýna. Þekkingin og þjónustan. Trúin og kærleikurinn – allt helst þetta í hendur. Kristin trú snýst ekki um það hvað við lesum og hvað við sjáum heldur hvernig við lesum og hvernig við bregðumst við því sem við sjáum.

Kristin hefð og kærleiksverk

Kristin trú höfðar ekki síður til tilfinninga okkar en vitsmuna. Hún höfðar ekki síður til verka okkar en íhugunar. Hér í gamla daga í kirkjunni söfnuðust menn saman til helgrar þjónustu og gengu til altaris til staðfestingar á því að þeir væru hluti af sömu fjölskyldunni – söfnuði Krists. Þeir þáðu brauðið og vínið þann helga leyndardóm sem kristnir menn kalla líkama og blóð Krists. Þeir hlýddu á ritningarlestur og útleggingu á honum. Og svo söfnuðu þeir fé til handa bágstöddum og héldu út úr helgidómnum fullir löngunar til þess að létta undir með þeim sem þyngstu byrðarnar báru.

Frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja haft þetta markmið og barist fyrir því að létta undir með þeim systkinum sem bágstödd eru og eiga um sárt að binda. Hún svarar spurningu Kains játandi: „Já mér ber að gæta bróður míns!“ Frá fyrstu tíð og allt til dagsins í dag mætum við í helgidóminn til þess að rækta samfélagið, hlýða á textana helgu og láta svo gott af okkur leiða því þetta er allt hluti hins sama. Frá fyrstu tíð og til dagsins í dag.

Í kirkjunni höfum við ákveðið sjónarhorn

Og svo þegar fermingarbörnin safnast saman hér í kirkjuskipinu – skima í kringum sig í leita að kórnum í kirkjunni eða reyna að giska á merkingu forna tákna – standa þau eins og hlekkur í þessari löngu keðju. Og þótt vísast muni þau ekki allan fróðleikinn er tilgangurinn heldur ekki sá að gera þeim kleift að þylja upp langar romsur. Hann er ekki síður gerður í því skyni að minna þau á það samhengi sem þau standa inn í. Minna þau á það að vera kristin manneskja er ekki bara spurningin um það hvað maður les og hvað maður sér heldur miklu fremur hvernig og hvaða afleiðingar það hefur í för með sér.

Hér sjáum við grindverk fyrir framan borð og köllum það grátur og borðið altari. Ræðupúltið kallast stóll og allt bergmálar af söng kynslóðanna aldir aftur í tímann. Því kristin kirkja er eilíf og sígild. Söfnuðurinn á sér rætur og djúpa merkingu.

Sjálf fá fermingarbörnin að kynnast því hversu stórkostlegt það er að gefa og vinna í þágu annarra. Þau safna fé til handa bágstöddum og andvirði einnar flatböku nægir fyrir skólabókum handa heilum bekk. Og andvirði einnar heimilistölvu nægir til að grafa brunn sem sparað getur konunum í þorpinu margra klukkustunda hættulegan gang eftir vatni.

Hvernig lestu og hvernig bregstu við því sem fyrir augu þín ber? Trú okkar stendur og fellur með því hvernig við svörum þeirri spurningu.