Erfðagalli og synd

Erfðagalli og synd

Ein ágæt kona búsett í því prestakalli sem ég eitt sinn þjónaði í hafði árum saman fengist við það að rannsaka tiltekinn erfðagalla sem leiddi til verulegrar fötlunar, andlegrar og líkamlegrar. Upphaflega einskorðaði hún sig við fáa afmarkaða þætti en smám saman vatt rannsóknin upp á sig – fleiri skyld tilvik komu í ljós.

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér. Jóh. 9. 1-11

Ein ágæt kona búsett í því prestakalli sem ég eitt sinn þjónaði í hafði árum saman fengist við það að rannsaka tiltekinn erfðagalla sem leiddi til verulegrar fötlunar, andlegrar og líkamlegrar. Upphaflega einskorðaði hún sig við fáa afmarkaða þætti en smám saman vatt rannsóknin upp á sig – fleiri skyld tilvik komu í ljós. Að lokum rann það upp fyrir henni og því rannsóknarteymi sem hún stýrði að um var að ræða tiltekin meðfædd sjúkdómseinkenni sem í sameiningu flokkuðust undir það sem læknisfræðin kallar heilkenni. Þessi íslenski læknir hafði gert stórmerka uppgötvun.

Rannsóknirnar stóðu yfir árum saman en svo fyrr á þessu ári lagði hún niðurstöðurnar formlega fram og varði þær sem doktorsverkefni við læknadeild Gautaborgarháskóla.

Það sem fær mig til þess að rifja upp þessi afrek íslensks vísindamanns á erlendri grundu er fyrsta spurningin sem andmælandi hennar bar upp við doktosvörnina. Hún var á þessa leið: „Af hverju koma erfðagallar fram í lífverum?”

Tilviljanir og náttúruval

Þessi almenna spurning kom óvænt á sinn opna og almenna almenna hátt í ljósi þess að flókinn sjúkdómurinn hefur leitt rannsóknina út á þrönga og vandrataða ranghala fræðanna. Spurningin er líka áhugaverð sökum þess að þarna vakti fræðimaðurinn máls á máli sem hefur verið kynslóðunum hugðarefni öldum og árþúsundum saman þótt hver hafi orðað það með sínum hætti.

Jújú, við vitum að erfðaefnið tekur stökkbreytingum hvað eftir annað. Sumar breytingarnar eru til góðs og gera lífveruna hæfari til þess að takast á við þær aðstæður sem hún býr við. Fyrir vikið er hún líklegri til þess að eignast afkvæmi sem sum hver hafa til að bera sömu eiginleika. Þannig lagar lífið sig smám sama að umhverfi sínu, hálsar lengjast, skynfæri verða næmari, varnir styrkjast og feldurinn verður þykkari eða þynnri og svo fram eftir götunum.

Aðrar breytingar koma hins vegar síður að gagni og valda því að lífveran hefur ekki eins góð tækifæri til þess að lifa lengi og fjölga sér. Þetta er samkvæmt þeim kenningum sem allir þekkja og kenndar eru við þróun. Erfðagallar eru því eðlilegir í ljósi þessara eiginleika lífsins.

Svarið sem borið var upp við vörnina byggir á því sem af flestum er talið góð og gild vísindi og eru kennd við þróunarkenningu Darwins. Síbreytileikinn leiðir stundum til farsældar en stundum kallar hann fram óæskileg einkenni – það sem við myndum kalla erfðagalla.

Þetta var vísindalega skýringin á þessu út frá þeim forsendum sem almennt eru teknar gildar á okkar dögum.

Sístæð spurning

Annars konar hugleiðingar út frá sama vandamáli gera þó sífellt vart við sig. Hugsanir um breyskleika mannsins og fallvaltleika hans í heiminum láta okkur ekki í friði og hafa sjálfsagt ekki gert frá því að hinn vitiborni maður fór að standa undir nafni. Sannarlega skipta máli viðbrögð okkar við þeirri staðreynd að óskiljanlegar hörmungar eiga sér stað.

Frá öndverðu má finna teikn og merki þess að skyni gædd mannveran hefur brotið heilann um aðra hluti en dýr merkurinnar. Myndir, gripir, umbúnaður með látnum – allt ber þetta að sama brunni. Hverfulleikinn og takmörk mannsins er honum ráðgáta gagnvart hugmyndinni um eitthvað sem er eilíft og fullkomið.

Og við sem erum kristin, við sem lifum í þeirri sannfæringu að lífið hafi tilgang og sjálf berum við ábyrgð gagnvart Guði okkar, hvernig birtist íhugun okkar á þeirri staðreynd sem vísindin orða og útskýra með aðferðum sínum – en ná þó aðeins takmarkaða leið að tilvist okkar og leita að tilgangi?

Refsing Guðs eða annar tilgangur?

Spurningin sem borin er fram við Krist í guðspjalli dagsins er af sama tagi og fram kom hér að framan: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?”

Kristur stendur hér frammi fyrir þeirri sístæðu spurningu sem menn hafa spurt sig að í gegnum tíðina. Ef Guð er almáttugur og góður, hversvegna er þá samt sumt ófullkomið og illt?

Hið forna trúðu margir því að hlutskipti fólks, sjúkdómar og óáran hvers konar væri refsing fyrir þau verk sem það hafði unnið. En hvað veldur því þá að barn fæðist blint? Ekki hafði barnið brotið af sér. Voru það verk foreldranna eða forfeðranna? Eða lá sökin hjá þeim sem öllu ræður?

Af svari Krists að dæma er ekki meiri guðleg forsjón að baki blinda mannsins en þeim tilviljanakenndu breytingum sem verða á litningum og gengamengjum alls þess sem lifir. Hann virðist ekki tengja þetta þeirri hugsun að allt sé verðskuldað og að allir hljóti að uppskera svo sem þeir sái eða þá að afkvæmin borgi fyrir löngu drýgðar syndir.

Jesús snýr raunar orsakasamhenginu við. Hann skoðar ekki orsök þjáningarinnar og rekur ekki rætur hennar eða upptök. Hann spyr hins vegar hvað það er sem leiða má af þeim aðstæðum sem nú ríkja. Hvaða afleiðingar getur blinda mannsins haft? Hvað getum við gert til þess að bregðast við henni?

Ef tengja á blinduna því að hún sé verk Guðs verður það aðeins gert með því að verk Guðs hefur alltaf góðan tilgang. Það svar Jesú á ekki aðeins við þennan blinda mann heldur og alla þjáningu. Ef við mætum þjáningunni með trúarsannfæringu okkar að leiðarljósi getur hún orðið til þess að trú okkar ber ávöxt í góðum verkum. Kristinn maður sem mætir þjáðum meðbróður eða systur lítur svo á að það sé köllun hans að bæta hlutiskipti hins þjáða.

Kraftaverkafrásögnin

Frásögnin af þessu kraftaverki er dæmigerð fyrir það hvernig guðspjallamaðurinn Jóhannes leitast við að koma miklum boðskap til skila með kraftaverkafrásögn sinni. Hann felur ýmis lausnarorð inni í textanum sem vísa á þýðingu atburðarins. Sílóam merkir „sendur” og sjónin sem maðurinn fær vísar þá til þess að hann fær að greina ljós í lífið. Það er Jesús sem gefur manninum hið sanna ljós.

Maðurinn þarf að fara til Sílóam, því þá fæst vísbending um að Jesús er sá sem er sendur, af Guði sendur, eins og hann var búinn að vera að halda fram. Lækningin er vísbending á því að Jesús kallar manninn úr myrkri til ljóss. Lýsingin á lækningunni þar sem Kristur makar leðju á auga mannsins er til marks um þá alþýðutrú sem fyrstu áheyrendur guðspjallsins höfðu.

Það að svo mikið skuli úr því gert bendir til þess að þarna var enn kveðinn upp úrskurður um það hvort væri mikilvægara – kærleiksverkið eða hlýðni við lagabókstaf lögmálsins. Hann braut þarna reglurnar um hvíldardaginn vísvitandi enda er hjálpin við hinn þjáða dýrmætari.

Í þessu eina atviki leiðir Kristur í ljós hvernig hann mætir þjáningu af því tagi sem sagan greinir frá. Hún er ekki afleiðing þess sem gert hefur verið. Þarna er engin guðleg skipan umbunar og refsingar sem ræður. Mikilvægast er hvernig við bregðumst við þegar okkar er þörf og með þeim hætti getur jafnvel bölið orðið til þess að leiða tilgang Guðs í ljós.

Blindan er með sama hætti tákn um það þegar fólk ekki greinir dýrð Guðs. Þegar augu þess eru lokuð fyrir ljósi heimsins. Kristur er sá sem var sendur til þess að færa okkur nýja sýn og nýja afstöðu til lífsins. Það undirstrikar hann með því að staðfesta mikilvægi þess að vinna góð verk á hvíldardeginum. Tilgangur Guðs er jú sá að við aukum velferð náungans fremur en að elda í blindni bókstaf sem fjarlægst hefur uppruna sinn.

Erfðagalli og synd

„Af hverju koma erfðagallar fram í lífverum?” spurði andmælandinn við doktorsvörnina í Gautaborg.

„Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?” spurðu lærisveinarnir.

Í fyrra tilvikinu hlaut svarið að felast í útskýringum á eðli lífsins og þeim lögmálum sem stýra því að heimurinn er eins og hann er. Svarið við síðari spurningunni minnir okkur hins vegar á skyldur okkar gagnvart sköpunarverkinu og það kallar okkur fram til ábyrgðar. Það bendir okkur á það að líf okkar hefur ríkan tilgang. Sá tilgangur kemur hvergi betur fram þegar hæfileika okkar og krafta er þarfnast við að bæta úr neyð náungans. Og fyrir því vill Kristur einnig opna augu okkar.