Ó, hve dýrleg er að sjá

Ó, hve dýrleg er að sjá

Um þessi jól á einn jólasálmanna í Sálmabókinni afmæli en nú í desember eru liðin rétt 200 ár frá því að Grundtvig orti jóla- og þrettándasálminn Ó, hve dýrleg er að sjá sem er nr. 108 í Sálmabókinni.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
22. desember 2010

Á afmæli sálms

Sálmabókin

Um þessi jól á einn jólasálmanna í Sálmabókinni afmæli en nú í desember eru liðin rétt 200 ár frá því að Grundtvig orti jóla- og þrettándasálminn Ó, hve dýrleg er að sjá sem er nr. 108 í Sálmabókinni. Sálmurinn er að líkindum sunginn minna nú en hann var áður. Ég minnist þess að hafa fram eftir aldri oft heyrt hann sunginn bæði í kirkjum og samkomum á aðventunni þegar ekki þótti við hæfi að syngja Heims um ból fyrr en á jólunum sjálfum. Eitthvað finnst mér líka að sálmurinn hafi verið sunginn í skólum og maður hafi átt að læra hann utanað en í mínu ungdæmi var talið við hæfi í Miðbæjarskólanum að börn lærðu helstu sálma í tengslum við kennslu í kristinfræði.

Þegar Grundtvig orti sálminn um jólaleytið 1810 hafði hann átti í sálarstríði og uppgjör hans við skynsemishyggjuna, sem þá var ráðandi guðfræði- og kirkjustefna í Danmörku, var hafið. Minnismerki skynsemishyggjunnar var sálmabókin, Evangelisk-kristelig salmebog, sem út kom 1798. Hún var fyrirmynd sálmabókarinnar sem hér var gefin út 1801 undir heitinu: Evangelísk-kristileg Messusöngs- og Sálmabók að konunglegri tilhlutun samantekin til almennilegrar brúkunar í kirkjum og heimahúsum og var uppnefnd Leirgerður eftir útgáfustaðnum að Leirárgörðum. Sálmastefna skynsemishyggjunnar gekk út á að mótmæla vanasöngnum sem útgefendur bókarinnar nefndu svo. Vanasöngurinn sögðu þeir að blasti við í hinum gömlu sálmum þar sem Davíðssálmar og sögusálmar eða sálmar út frá Biblíunni væru uppistaðan auk dogmatískra sálma eða sálma sem útlistuðu trúaratriði. Slíka sálma vildu menn burt því að sálmar ættu „að þjena til hjartans uppvakningar og undir eins betrunar“ og yrðu þess vegna vera „móralskir eður til siðbóta lútandi“ en síður „dogmatiskir, hver efni kennendum hlýðir sálmalaust að útlista“ eins og Magnús Stephensen orðaði það í innganginum að Leirgerði.

Grundtvig líkti sálmum skynsemishyggjunnar við fúla tjörn þar sem vatnið hefði staðnað og engan ferskleika væri að finna. Í staðinn vildi Grundtvig opna lindir hins sögulega úr guðspjöllunum sjálfum og endurvekja sálmahefð Lúthers, Kingos og Brorsons en þó með þeim breytingum sem tímarnir krefðust.

Sálmurinn Ó, hve dýrleg er að sjá er fyrsti sálmurinn sem Grundtvig orti og er eins konar dagskrársálmur eða sálmur sem túlkar stefnu Grundtvigs í sálmamálum. Í kjölfarið hóf hann að yrkja sálma, enduryrkja gamla sálma og endurskoða þýðingar á gömlum sálmum sem skynsemishyggjan hafði hafnað. Eins leitaði hann nýrra sálma meðal annarra þjóða og þýddi þá á dönsku. Þessi iðja leiddi Grundtvig til þeirrar sannfæringar að orð Guðs væri lifandi orð af munni Guðs í tilbeiðslu og játningu safnaðarins.

Stefna Grundtvigs í sálmamálum átti eftir að hafa mikil áhrif hér á landi síðar á 19. öldinni.

Sálmurinn Ó, hve dýrleg er að sjá var prentaður fyrst vorið 1811 og nefndur barnasöngur. Hann náði ekki inn í opinbera danska sálmabók fyrr en 1855 og þá hafði Grundtvig unnið við endurbætur á honum og taldi hann alls 19 vers. Lengi vel voru öll versin í dönsku Sálmabókinni en í nýjustu útgáfu hennar frá 2002 er sjö versum haldið.

Það var sr. Stefán Thorarensen á Kálfatjörn sem þýddi sálm Grundtvigs og kemur efni hans fyrir í sjö versum í stað 19. Hann þýðir 1., 3., 5., 8., 15. og 19. vers sálmsins en þjappar efni 4.-12. vers frumsálmsins saman í eitt vers, sem er 5. versið í þýðingu hans. Í þeim versum sem sr. Stefán sleppir greinir Grundtvig frá ferð vitringanna. Þar kemur fram að sálmurinn er ætlaður börnum því að Grundtvig ávarpar börnin. Skemmtilegur dráttur í þeim myndum sem Grundtvig dregur upp af vitringunum er að láta þá vera sendimenn konungs síns sem veitti þeim leyfi til að fara og veita lotningu þeim konungi sem væri að fæðast og væri mestur allra konunga. Og þann konung finna þeir, ekki í höll heldur lágu hreysi og sæti þess konungs er ekki hásæti heldur faðmur fátækrar móður. Mikilleiki Jesú er fólginn í smæðinni. Í íslensku þýðingunni er sálmurinn á þessa leið:

1. Ó, hve dýrleg er að sjá alstirnd himinfesting blá, þar sem ljósin gullnu glitra, glöðu leika brosi' og titra :,: og oss benda upp til sín. :,:

2. Nóttin helga hálfnuð var, huldust nærfellt stjörnurnar, þá frá himinboga' að bragði birti' af stjörnu', um jörðu lagði :,: ljómann hennar sem af sól. :,:

3. Þegar stjarna' á himni hátt hauður lýsir miðja' um nátt, sögðu fornar sagnir víða, sá mun fæðast meðal lýða, :,: konunga sem æðstur er. :,:

4. Vitringar úr austurátt ei því dvöldu', en fóru brátt þess hins komna kóngs að leita, kóngi lotning þeim að veita, :,: mestur sem að alinn er. :,:

5. Stjarnan skær þeim lýsti leið, leiðin þannig varð þeim greið, uns þeir sveininn fundu fríða. Fátæk móðir vafði' hinn blíða :,: helgri' í sælu' að hjarta sér. :,:

6. Stjarnan veitt oss einnig er, og ef henni fylgjum vér, hennar leiðarljósið bjarta leiða' um jarðar húmið svarta :,: oss mun loks til lausnarans. :,:

7, Villustig sú aldrei á undrastjarnan leiðir há, orðið Guðs hún er hið skæra, oss er Drottinn virtist færa, virtist færa = færði :,: svo hún væri' oss leiðarljós. :,:

Sálmurinn er lýsing á guðspjallinu um vitringana sem fóru að leiðsögn stjörnu að vitja Jesúbarnsins eins og lýst er í Matteusarguðspjalli 2.1-12 sem er guðspjall þrettándans. Í fyrsta versi er lýst stjörnubjartri vetrarnóttu þar sem stjörnurnar benda okkur upp á við. Í öðru og þriðja versi er skírskotað til Betlehemsstjörnunnar og birtu hennar lýst sem sólarbirtu. Þá er vísað í fornar sögur um að ef slík stjarna sæist á himni þá táknaði hún fæðingu mikils konungs og sú vissa leiddi vitringana af stað til að leita þess konungs. Stjarnan leiddi vitringana réttan veg og þeir fundu sveininn þar sem hann sat í faðmi móður sinnar. Lokaversin tjá merkingu sögunnar og setja að eins og Guð sendi vitringunum stjörnu til að vísa þeim leið sendi hann okkur stjörnu til að vísa okkur örugga leið til Jesú. En sú stjarna sem Guð sendir okkur er ekki stjarna á himinhvolfinu heldur orð Guðs.

Þýðing Stefáns Thorarensen er mjög góð og trú frumtextanum. Þó að hann sleppi mörgum versum sem fjalla um ferð vitringanna til Betlehem þá tekst honum að gera heild úr þeim versum sem hann hagnýtir og kemur meginefni þeirra versa sem hann sleppir vel fyrir í fimmta versinu.

Útbreiddasta lagið við sálminn og hið eina sem er þekkt hér á landi er eftir Jacob G. Meidell og samið um 1840. Áður hafði C.E.F. Weyse gert lag við sálminn eða 1837 og síðar eða 1917 samdi Thomas Laub þriðja lagið við hann.