Syngjandi tjáning kærleikans

Syngjandi tjáning kærleikans

Kirkjur landsins bjóða margar upp á aldursskipt kirkjustarf, þar sem reynt er að höfða til hvers aldurshóps fyrir sig. Reynslan hefur verið góð og eru margar kirkjur að ná að fylgja krökkum frá leikskóla fram yfir fermingu með skipulagðri dagskrá. Sumar kirkjur hafa tekið höndum saman við skóla og leikskóla og vilja taka þátt í uppeldi komandi kynslóða.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
01. október 2002

Kirkjur landsins bjóða margar upp á aldursskipt kirkjustarf, þar sem reynt er að höfða til hvers aldurshóps fyrir sig. Reynslan hefur verið góð og eru margar kirkjur að ná að fylgja krökkum frá leikskóla fram yfir fermingu með skipulagðri dagskrá. Sumar kirkjur hafa tekið höndum saman við skóla og leikskóla og vilja taka þátt í uppeldi komandi kynslóða. Í því starfi miðlar hún af gnægtarbrunni trúar og kærleika með frásögnum guðspjallanna og bænaversum íslensku trúarskáldanna.

Að koma á barnakórum í kirkjum landsins var eitt af hennar heillaskrefum síðustu árin. Kórastarf er öflugt og eldri og yngri deildir víða starfræktar.

Söngurinn er tjáning hjartans og lyftir andanum í átt til almættisins. Ég held að það sé rétt sem ég heyrði á góðum stað að syngjandi barnssál er tákn þess að hið góða hefur tekið sér bólfestu og hrindir hinu illa frá sér.

Að opna hjartað og tjá tóna og falleg orð. Að vera í umhverfi lista og menningar, í kirkjubyggingum þar sem bestu listamenn þjóðarinnar tjá boðskap hins heilaga í fallegu efni þar sem málning, steinn eða gler er mótað. Þessi vettvangur getur orðið heilagur og undir öruggri stjórn og þekkingu er það næsta öruggt. Samfélag barna og ungmenna, stráka og stelpna, undir þessum formerkjum er vettvangur sem kirkjunni ber að hlúa að og rækta af kostgæfni.

Það er mikill fengur fyrir barn að upplifa og taka þátt í ýmsum athöfnum kirkjunnar, messum, giftingum, skírnum. Það fær að leggja sitt af mörkum og upplifa andann sem getur ríkt á milli manna.

* * *

„Gamli“ kórstjórinn minn úr Skólakór Kársness sagði við mig er ég hóf nám í guðfræðideild HÍ: „Ég kem með kórinn þegar þú verður vígður!“ Eins og margur guðfræðineminn var það ekki endilega stefnan að ganga í þjónustu kirkjunnar. En með námi og starfi óx köllunin og dagurinn varð staðreynd nokkrum árum síðar.

Það var fallegur dagur, 8. september 2002, er þrjú ungmenni gengu í þjónustu kirkjunnar og voru vígð í Dómkirkjunni af Herra Karli Sigurbjörnssyni.

Allir höfðu undir höndum dagskrá athafnarinnar. Athöfnin var í alla staði mjög eftirminnileg og hátíðleg fyrir þá sem að henni komu og mikil upplifun bæði fyrir þá sem fengu vígslu og aðra sem komu að, fylgdust með eða þjónuðu.

Ekki er laust við að farið hafi um vígsluvotta, vígsluþega og aðra er voru viðstaddir er barnaraddir ómuðu að ofan, barnaraddir sem ekki var getið um í dagskránni. Það fór um viðstadda sæluhrollur, að minnsta kosti gamla kórfélagann sem hlaut vígslu þennan dag, er hann leit upp og sá og heyrði. Kórstjórinn var mættur með skólakór Kársness, hann hafði ekki orðað þetta aftur síðan um árið en þarna var hann mættur með sína fallegu krakka, stráka og stelpur. Þau settu fallegan svip á athöfnina, lögðu sitt að mörkum, gáfu Guði tóna frá hjartanu, sungu honum dýrð í einni fallegustu kirkju landsins. Þau gáfu mér mikið og vonandi fara þau heim með reynslu sem þau sjálf muna eftir.

Þau voru punkturinn yfir i-ið þennan dag og magnað hvað stjórnandinn gefur mikið af mannlegum þáttum sem eru ómetanlegir. Það er náðargáfa að getað stjórnað barnahóp í söng og leyfa þeim að leggja að mörkum og miðla öllu góðu og dýrmætu.

Áfram með syngjandi börn í kirkjum landsins. Syngjum Guði lof og dýrð. Syngjum og spilum á hljóðfæri, leikur og dönsum því lífið er fallegt, lífið er frá Guði.

Blessað sé kórastarf kirknanna og skólanna, blessaðir séu stjórnendur og leiðtogar í þessu mikilvæga og krefjandi starfi.