Kristnir landvættir skjaldarmerkisins

Kristnir landvættir skjaldarmerkisins

Kirkjan okkar er full af fornu táknmáli eins og táknmáli daganna. Margt er það svo gamalt að flestir vita ekki hvað það stendur fyrir lengur, eins og þetta með sunnudagana eftir þrenningarhátíð. Önnur kristin tákn þekkjum við ef til vill betur, eins og dúfuna, tákn heilags anda, sem margir reyndar telja að sé tákn friðar eingöngu.

I.

Hér fyrr í guðsþjónustunni var lesinn texti úr Biblíunni eins og gert er hvern helgan dag ársins. Textinn var kynntur þannig að þetta væri texti 19. sunnudags eftir þrenningarhátíð. Því er nefnilega þannig háttað að öllum sunnudögum ársins er skipt niður í ákveðin tímabil samkvæmt fornri hefð kirkjunnar. Sunnudagarnir þessi misserin kallast allir sunnudagar eftir þrenningarhátíð. Þessi þrenningarhátíð sem sunnudagarnir miðast við er haldin fyrsta sunnudag eftir hvítasunnu og nær tímabil sunnudaga eftir þrenningarhátíð alveg fram að fyrsta sunnudegi í aðventu. Þessir sunnudagar einkennast af grænum lit, tákn gróðurs og gróanda. Önnur tímabil ársins hafa annan lit. Þannig er litur aðventunnar til dæmis fjólublár, tákn iðrunar, jólanna hvítur, tákn hátíðar og gleði, hvítasunnunar rauður, tákn baráttu og heilags anda.

II.

Kirkjan okkar er full af fornu táknmáli eins og þessu táknmáli daganna. Margt er það svo gamalt að flestir vita ekki hvað það stendur fyrir lengur, eins og þetta með sunnudagana eftir þrenningarhátíð. Önnur kristin tákn þekkjum við ef til vill betur, eins og dúfuna, tákn heilags anda, sem margir reyndar telja að sé tákn friðar eingöngu. Dúfan og fleiri slík tákn hafa haft mikil áhrif á sögu okkar og það hvernig við speglum okkur sjálf. Um þessar mundir ryðja mörg ný tákn sér til rúms og við þekkjum þau ef til vill flest betur en hin fornu kristnu tákn af því að við höfum þau fyrir augunum alla daga. Sem dæmi má nefna tákn sjónvarpsstöðvanna innlendra og erlendra og hin allt umlykjandi tákn verslunarkeðjanna. Þau tákn sem flestir jarðarbúar þekkja skilst mér að séu tákn shell-keðjunnar, Macdonalds skyndibitastaðanna og að sjálfsögðu Kóka kóla. Aftur á móti eru mörg kristin tákn á undanhaldi og jafnvel er merking þeirra flestum gleymd.

III.

Eitt af þessum kristnu táknum sem fæstir vita að er í grunninn kristið er íslenska skjaldarmerkið. Allir íslendingar þekkja skjaldarmerkið. Á því er íslenskur krossfáni í miðju, umkringdur fjórum skjaldberum, uxa, risa, erni og dreka. Okkur hefur án efa öllum verið kennt í barnaskóla að þessir landvættir séu heiðnir og þannig standi heiðnir vættir vörð um Ísland og íslenska þjóð. Þessir fjórir landvættir skjaldarmerkisins eru ættaðir úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá því að eitt sinn hafi Haraldur Gormsson danakonungur sent galdramann til Íslands til að sjá hvort ekki mætti leggja landið undir veldi Dana. Þá segir Snorri að fjórir landvættir hafi ráðist gegn sendimanni konungs, risi, uxi, dreki og fugl, ásamt fjölda minni vætta. Lagði seiðkarlinn þá á flótta undan verndarvættum landsins.

En hvaðan fær Snorri hugmyndina að þessari þekktu sögu? Hvort ætli það sé úr heiðnum eða kristnum heimildum? Svarið liggur ekki í augum uppi við fyrstu sýn eins og ætla mætti. Snorri var nefnilega langt í frá sá fyrsti til að lýsa þessum verndarvættum. Þannig vill nefnilega til að um 1000 árum áður en Snorri festi frásögn sína á skinn, þá var sagt frá þessum sömu vættum í annarri bók. Sú bók heitir Opinberunarbók Jóhannesar og þú finnur hana aftast í Biblíunni þinni. Í Opinberunarbókinni greinir spámaðurinn Jóhannes frá margskonar opinberunum og sýnum sem Guð birti honum, vitrunum og spádómum. Á einum stað segir hann svo frá að hann hafi fengið að sjá sjálft hásæti Guðs á himnum. Kringum þetta hásæti Guðs stóðu fjórar verur segir Jóhannes. Þannig lýsir hann þeim “Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran var lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni “ (Opinberunarbókin 4:7). Rendar á þessi mynd sér enn eldri samsvörun í fyrsta kafla Esekíel í Gamla testamentinu. En þarna eru sem sagt komnir landvættirnir fjórir sem prýða íslenska skjaldarmerkið og standa þar vörð um landið okkar eins og þeir standa vörð um hásæti Guðs á himnum samkvæmt Opinberunarbókinni.

En er þetta nú alveg rétt? Er ekki drekinn kominn í stað ljónsins hjá Snorra? Og er ekki drekinn heiðið tákn? Til að leita svara við þessari spurningu þurfum við að kafa enn dýpra í merkingarfræði táknanna. Verurnar fjórar í Opinberunarbókinni sem standa kringum hásæti Guðs eru þar ekki fyrir einhverja tilviljun. Þessar verur eru samkvæmt fornru táknmáli kirkjunnar tákn guðspjallamannanna. Örnin táknar guðspjallamanninn Jóhannes. Risinn táknar guðspjallamanninn Lúkas. En ljónið táknar guðspjallamanninn Markús. Og ljónið hans Markúsar er ekkert venjulegt ljón en í því felst einmitt svarið við spurningunni um upphaf landvættanna. Í fornum heimildum er ljónið ætíð sýnt vængjað eins og reyndar allar verurnar fjórar. Hið vængjaða ljón Markúsar táknar hreinleika, styrk og djörfung. Af því var meðal annars reist fræg stytta í Feneyjum sem ættuð er frá Kína, kínverskt ljón með vængi. Þegar þessar myndir bárust norðar í Evrópu á miðöldum og allt til hins germanska heims má ætla að hið vængjaða ljón hafi tekið á sig mynd dreka, enda drekinn búinn hugprýði í norrænni menningu. Og hið kínverska ljón sem víkingar og væringjar sáu við Miðjarðarhaf bar einmitt svipmót drekans.

Fyrir nokkru var ég staddur í Markúsarkirkjunni í Feneyjum sem byggð er upphaflega sem grísk-kaþólsk kirkja, 200 árum fyrir fæðingu Snorra Sturlusonar. Kirkjan er prýdd fjölda mósaíkmynda og segir mikla sögu. Sem ég gekk um kirkjuna varð mér litið til lofts og þar í einni hvelfingunni, við háaltarið, blöstu landvættirnir okkar fjórir við mér gulli skrýddir. Þarna í loftinu á hinni fornu kirkju voru sem sagt komnir íslensku landvættirnir og íslenska skjaldarmerkið vakti þar yfir altarinu, án þess að um það væri getið ferðabæklingum að sjálfsögðu.

IV.

Ef til vill þykja þér þessar vangaveltur um uppruna landvætta íslensa skjaldarmerkisins og annað táknmál kirkjunnar vera léttvægar og litlu máli skipta á meðan Vindöld og Vargöld geysar allt um kring í íslensku samfélagi. En svo er ekki sé vel að gáð. Táknin eru stór hluti af lífi okkar, bæði hin neikvæðu og jákvæðu. Við notum þau til að túlka viðhorf okkar og tilveru. Það að íslensku landvættirnir skuli í raun vera hinir kristnu guðspjallamenn en ekki heiðin fordild sýnir okkur að kristin trú og viðhorf hafa alla tíð verið bjargið sem íslenskt samfélag hefur byggt á. Hinir raunverulegu landvættir eru því sendiboðar Guðs sem vaka yfir okkur. En þeir benda okkur líka á ábyrgð okkar. Við þurfum að ganga fram í djörfung og óttaleysi, eins og hið vængjaða ljón Markúsar, styrk eins og uxinn, trausti eins og risinn og með víðsýni að vopni eins og örninn. Á þessu þarf íslensk þjóð umfram allt að halda og sjaldan eins og nú, en ekki táknmyndum græðginnar, valdasýkinnar, hefnigirninnar og eiginhagsmunaseminnar sem átök dagsins í dag í viðskiptalífi og stjórnmálum endurspegla. Af einhverjum ástæðum er lítill áhugi á hinni kristnu forsögu landvættanna hjá opinberum aðilum. það þykir ekki menningarleg rétthugsun að benda á tengsl þeirra við guðspjallamennina fjóra. Landvættirnir okkar skulu vera heiðnir segir menningarelítan og forystan. En við vitum betur kæri kirkjugestur og kristsvinur.

V.

Það er mikilvægt að þekkja hin kristnu tákn, táknmál kristinnar trúar og nota þau tákn til að helga líf sitt og ástvina sinna. Við merkjum okkur krossinum í bæn. Við signum börnin okkar og hengjum ef til vill upp mynd af englum Drottins eða Jesú við rúmgafl þeirra til að bægja frá illum draumun og ótta. Ííslenski krossfáninn blaktir við hún yfir landinu á gleðistundu og er dreginn í hálfa stöng á sorgarstundu til að minna okkur á nærveru Jesú í lífi okkar í gleði og sorg. Og guðspjallamennirnir fjórir, hinir kristnu landvættir skjaldarmerkisins okkar, benda okkur á að blessun Guðs mun vaka yfir okkur á meðan við byggjum samfélag okkar á bjarginu trausta sem er Jesús Kristur.

VI.

En hreinasta táknið er ljósið sem logar á altarinu. Það ljós er tákn nærveru Jesú sem sagði “Ég er ljós heimsins”. Megi það ljós lýsa okkur úr myrkviðum villutákna samtímans og þér og mér og ástvinum okkar á komandi vetri og allar stundir í Jesú nafni, amen.