Orðin eru það eina sem við höfum

Orðin eru það eina sem við höfum

Orð ritningarinnar verða lífslind sem opnar nýjan skilning, nýjan sjálfsskilning, nýjan skilning á tilverunni, mætum sjálfum okkur og Guði á ferskan hátt. Andi Guðs miðlar þeirri reynslu, nærvera Guðs í gegn um ævaforn orð. Ekki að orðin sem slík séu töfrum slungin heldur verða þau farvegur náðar, ástar Guðs.

Í bókinni Hjarta mannsins (2011), þeirri síðustu í þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar þar sem sögusviðið er Djúp og Strandir, segir (bls. 93):

Það er svo fábreytt sem maðurinn þarfnast, að elska, gleðjast, borða, og síðan deyr hann. Samt eru töluð rúmlega sexþúsund tungumál í heiminum, hversvegna þurfa þau að vera svona mörg til að koma jafn einföldum löngunum til skila? Og hversvegna tekst okkur það svona sjaldan, hversvegna dofnar birtan í orðunum um leið og við skrifum þau niður? Ein snerting getur sagt meira en öll heimsins orð, það er rétt, en snertingin dofnar með árunum og þá þurfum við orðin aftur, þau eru vopnin okkar gegn tímanum, dauðanum, gleymskunni, óhamingjunni. Þegar maðurinn sagði fyrsta orðið varð hann að þessum þræði sem titrar eilíflega milli illsku og góðsemdar, himnaríkis og helvítis. Það voru orðin sem hjuggu á rótina milli manns og náttúru, þau voru höggormurinn og eplið og lyftu okkur upp úr fallegri heimsku dýrsins inn í veröld sem við skiljum ekki ennþá. Sagan segir að hér í eina tíð, í námunda við upphaf tímans, hafi munur á orði og merkingu tæpast verið mælanlegur, en orðin hafa slitnað á ferðalagi mannsins og vegalengdin milli orða og merkingu lengst svo mikið að ekkert líf, enginn dauði, virðist geta brúað hana lengur. En orðin eru bara það eina sem við höfum.
Svo mörg voru þau skáldsins orð. Í lok kaflans talar höfundur um þá von að ,,innan um sögurnar leynist orðin sem leysa okkur öll úr læðingi. Þig líka.” (bls. 95). Orðin sem leysa okkur öll úr læðingi, orðin sem eru vopn gegn tímanum, dauðanum, gleymskunni, óhamingjunni; þrátt fyrir óravíða vegalengdina á milli orða og merkingu sem ekkert virðist geta brúað lengur, hvorki líf né dauði.

Orðin eru það eina Í dag er Biblíudagurinn, dagur orða sem röðuðust saman í aldanna rás, sprottin úr reynslu manns og Guðs og tíminn virðist ekki enn hafa unnið á, hvorki tíðarandi þöggunar og höfnunar né ný tækniundur og raunvísindalegir landvinningar. Í Biblíunni búa orðin sem leysa okkur úr læðingi, orðin sem eru vopn gegn tímanum, dauðanum, gleymskunni, óhamingjunni; í Biblíunni býr sú reynsla sem megnar að brúa bilið milli orða og merkingu, flytja líf inn í dauða, hamingju inn í óhamingju, ljós inn í myrkrið í mannsins sál.

,,En orðin eru bara það eina sem við höfum,” segir skáldið. Orðin. Orðið. Við notum ýmist eintölu eða fleirtölu þegar við notum þetta hugtak í tengslum við heilagar ritningar kristins fólks. Orðin á blaðsíðum Biblíunnar, upprunnin í tungutaki fornra þjóða, úr ævagömlum handritum, eru ekki heilög í sjálfum sér en þau flytja heilagan veruleika, veita innsýn og innblástur vegna reynslunnar sem þau miðla, nærveru Guðs í mannlífinu miðju. Þannig hljóðar hið heilaga orð, segjum við eftir lestur ritningarlestranna, og vísum þar í Orðið sem býr að baki orðunum, Orð lífsins, Jesú Krist, mótsstað Guðs og okkar. Það hverfur ekki Ritningarlestrar dagsins fjalla um hvernig orð/Orð Guðs virkar. Það er eins og regn eða snjór sem vinnur sitt verk, vökvar og nærir og gefur grósku. Við getum ekki án þess verið. Áhrif orðsins af munni Guðs, veruleika trúarinnar þegar við finnum Guð að verki í lífi okkar, eru ómælanleg og óhjákvæmileg: ,,Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því,” segir hjá Jesaja (55.11).

Og þegar Páll reynir að lýsa þeirri reynslu að vera ,,hrifinn burt allt til þriðja himins,” upp í Paradís þar sem hljóma “ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla,” vísar hann í vísdóm Guðs: ,,Guð veit það” (2Kor 12.2-4). Þó ég viti ekki allt frekar en Páll veit Guð. Þó við kunnum ekki skil á krafti orðanna og vegalengdin milli orða og merkingar sé löng, þó við skiljum ekki veröldina ennþá, þá veit Guð. Sú vissa hverfur ekki, Orð Guðs hverfur ekki. Það vinnur sitt verk.

Náð mín nægir þér Þannig er það þegar við lesum í Biblíunni. Stundum finnum við fátt innra með okkur við lesturinn. En oft verður eitthvað nýtt til. Orð ritningarinnar verða lífslind sem opnar nýjan skilning, nýjan sjálfsskilning, nýjan skilning á tilverunni, mætum sjálfum okkur og Guði á ferskan hátt. Andi Guðs miðlar þeirri reynslu, nærvera Guðs í gegn um ævaforn orð. Ekki að orðin sem slík séu töfrum slungin heldur verða þau farvegur náðar, ástar Guðs. Eins og til dæmis níunda versið úr síðari ritningarlestrinum: ,,Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika” (2Kor 12.9). Í veikleika okkar, í vanmætti okkar, verður máttur Guðs virkur. Sú náð nægir mér, nægir þér.

Þess vegna segir Páll áfram í sama versi: ,,Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.” Kraftur Krists, krafturinn sem er Orðið með stórum stað. Í veikleikanum verður kraftur Krists skýr. Okkar eigin takmarkaði máttur hættir að þvælast fyrir þegar við viðurkennum vanmátt okkar og tökum heilshugar við krafti Orðsins sem vill hreiðra um sig í hjarta okkar.

Jarðvegur Og Jesús segir dæmisögu. Það gerði hann oft. En þessi er um orð og hjörtu, merkingu, líf og hamingju, um jarðveg. Um að eiga orð í hjarta sínu, orð með merkingu, orð sem ber líf og hamingju. Og Jesús á þetta orð, er þetta orð. Jesús er Orðið sem beinist að okkur, Orð Guðs. Hvernig er þinn jarðvegur, minn jarðvegur? Er hjarta okkar klöpp, lokað fyrir Guði? Þá vantar okkur rótfestu, seiglu. Kafnar hjarta okkar, innsti kjarni persónu okkar, í áhyggjum, peningahyggju og lífsnautnum? Tökum við ekki á móti náð Guðs, elsku Guðs, krafti Krists, heldur látum hann falla ónotaðan til jarðar.

Dæmisögur Jesú snúa að okkur sjálfum. Ekki hinum. Guð sér um hitt fólkið. Guð veit. Það er okkar hjarta, mitt og þitt sem málið snýst um. Og þarfir okkar eru fábreyttar. Eina sem við þörfnumst er að elska, gleðjast, borða. Og svo deyjum við. En í millitíðinni þörfnumst við orðsins sem er vopn okkar gegn tímanum, dauðanum, gleymskunni, óhamingjunni, eins og skáldið orðar það. Við þörfnumst snertingar, snertingar hvers annars, snertingar Guðs sem segir meira en öll heimsins orð; við þörfnumst þess að kraftur Krists taki sér bústað í okkur. Við erum þráður sem titar eilíflega milli illsku og góðsemdar, himnaríkis og helvítis, lyft upp úr “fallegri heimsku dýrsins inn í veröld sem við skiljum ekki ennþá.” Við erum á ferð og orðin eru það eina sem við höfum, orðin og merking þeirra sem sameinast í Jesú Kristi.